BÆTA ÞARF AÐSTÖÐU INNANLANDSFLUGSINS Á REYKJAVÍKURFLUGVELLI
Birtist í Morgunblaðinu 02.04.13.
Pólitískur samferðamaður minn til langs tíma, Jón Bjarnason, segir í grein í Morgunblaðinu nýlega að ég hafi komið af fjöllum varðandi undirskrift fulltrúa Reykjavíkurborgar og fjármálaráðuneytis á samningi um sölu ríkisins á landi í Skerjafirði í grennd við Reykjavíkurflugvöll. Þetta má til sanns vegar færa eins og ég hef staðfest opinberlega, jafnframt því sem ég hef gagnrýnt þessa samningsgerð.
Landakaupin lengi í bígerð
Það er hins vegar rangt hjá Jóni Bjarnasyni að mér eða öðrum í ríkisstjórn hafi ekki verið kunnugt um að til stæði að ganga frá samningum af þessu tagi. Það hefur lengi verið ætlun mín og forvera minna í ríkisstjórn. Öllum sem setið hafa í ríkisstjórn landsins á undanförnum árum hefur verið kunnugt um þetta.
Mergurinn málsins er hins vegar sá að ég hef ekki viljað ganga frá þessum kaupum fyrr en tilteknum skilyrðum gagnvart innanlandsfluginu hefur verið fullnægt. Enda er það svo að samningurinn verður í reynd ekki virkur nema innanríkisráðherra veiti tilteknar heimildir um breytingar á flugvallarsvæðinu. Þær heimildir hef ég ekki veitt og vil ekki veita enn sem komið er.
Fimm skilyrði fyrir samningum
Í fyrsta lagi þurfum við að hafa vissu fyrir því að Reykjavíkurborg veiti skipulagsheimild fyrir því að reist verði ný flugstöð til að þjóna innanlandsfluginu. Aðstaðan fyrir flugið er fullkomlega óboðleg. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um Færeyja- og Grænlandsflugið sem fer um Reykjavíkurflugvöll.
Í öðru lagi þarf að liggja fyrir viðskiptaáætlun sem gefur skýra vísbendingu um að smíði nýrrar flugstöðvar standist fjárhagslegar forsendur. Þetta þýðir svo aftur að flugrekstraraðilar þurfa að hafa vissu fyrir því að flugvöllurinn verði ekki lagður niður í allra nánustu framtíð enda galið að tjalda til einnar nætur þegar mannvirkjagerð af stærðargráðunni flugstöð er annars vegar.
Í þriðja lagi þarf öllum öryggisatriðum að vera fullnægt. Lokun norðaustur/suðvestur brautar, eins og lengi hefur verið gert ráð fyrir og flugrekstraraðilar hafa fallist á, má ekki verða nema ljóst sé að slík braut sé opin og aðgengileg á suðvesturhorninu. Slík braut er á Keflavíkurflugvelli en þarfnast verulegrar lagfæringar.
Í fjórða lagi þarf borgin að heimila tilteknar aðgerðir svo flugöryggi við notkun austur-vestur flugbrautar verði bætt með því annarsvegar að séð verði til þess að gróður í Öskjuhlíðinni skagi ekki upp í hindrunarfleti aðflugs núverandi flugbrautar og hinsvegar að heimiluð verði uppsetning aðflugsljósa fyrir nákvæmnisblindaðflug vestan við brautina.
Í fimmta lagi og þetta er algert grundvallaratriði, þá þarf að vera tryggt að fjármagn sem fengist fyrir sölu á landi færi til uppbyggingar á aðstöðu fyrir flugið á Reykjavíkurflugvelli. Ef þetta er ekki gulltryggt væri landsalan út í hött.
Heildstæð lausn eða engin lausn
Staðreyndin er sú að samkomulag um alla þessa þætti verður að nást áður en nokkur kaupsamningur getur orðið virkur. Reykjavíkurborg fer óumdeilanlega með skipulagsvaldið í Reykjavík en ríkið á hluta landsins undir flugvellinum og ber ábyrgð á fluginu sem samgöngumáta. Flugvöllurinn þjónar síðan landsmönnum öllum og því kemur hann öllum landsmönnum við. Til allra þessara þátta verður að horfa svo sátt náist.
Og takmarkið er að sjálfsögðu sátt. Það á við um mig sem innanríkisráðherra og ég ætla að það hljóti einnig að eiga við um fulltrúa Reykjavíkurborgar. Undirskrift umrædds samnings varð því miður ekki til að auka traust manna í millum. Svo er það hitt að þegar fréttist að fulltrúar Reykjavíkurborgar væru að nýju farnir að horfa til Hólmsheiðarinnar fyrir flugvöll þá varð það sem olía á tortryggniseldinn.
Hólmsheiðin jörðuð
Skýrsla sem Isavia hefur nú birt um Hólmsheiði sem flugvallarsvæði held ég þó að hljóti endanlega að jarða þá ráðagerð. Nægir þar að nefna að samkvæmt athugun Veðurstofunnar yrði völlurinn lokaður allt að 28 dögum á ári og kostnaður við flugvallargerðina yrði nærri 20 milljarðar króna. Í skýrslunni kemur í ljós hvílíkt feigðarflan það væri að halda með flugvöllinn upp á heiðina. Að ekki sé á það minnst hve óábyrgt það er af hálfu borgarfulltrúa að ræða þetta án samráðs og samkomulags við fjárveitingarvaldið í landinu öllu því það væru ekki Reykvíkingar einir sem kæmu til með að borga brúsann heldur skattgreiðendur í landinu öllu.
Langt undir mörkum
Í Reykjavík er hins vegar stundum látið eins og málið komi Reykvíkingum einum við. Er iðulega vísað til atkvæðagreiðslu sem fram fór í Reykjavík árið 2001. Fyrir þessa atkvæðagreiðslu samþykkti borgarráð, á fundi 13. febrúar það ár, að atkvæðagreiðslan yrði bindandi ef 75% atkvæðisbærra manna tækju þátt eða að 50% atkvæðisbærra manna greiddu öðrum valkostinum atkvæði sitt. Þátttakan var hins vegar mjög lítil, einungis 37,2%. Lýstu 18% kosningabærra manna stuðningi við flugvöllinn en 19% vildu völlinn burt. Þarna skildu einungis að rúm 300 atkvæði.
Vil semja um uppbyggingu
Frá því að þessi atkvæðagreiðsla fór fram hefur mikið vatn runnið til sjávar og leyfi ég mér að fullyrða að viðhorf til Reykjavíkurflugvallar hafa breyst mikið. Ef menn á annað borð vilja byggja á almennum lýðræðislegum vilja, sem ég tel einboðið hvað þetta þverpólitíska ágreiningsefni varðar, þá leyfi ég mér að spyrja hvort nokkuð mæli gegn því að efna að nýju til atkvæðagreiðslu og láta hana ná til landsmanna allra?
En fyrst þarf að ná samkomulagi um uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli til næstu ára. Ég mun leggja mig fram um það nú sem fyrr að slíkt megi nást.