Bætt fæðingarorlof - Alþingi vísar veginn
Birtist í Mbl
Athygli vakti í vor þegar samþykkt voru á Alþingi lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Í þessum lögum er á meðal annars kveðið á um fæðingarorlof. Í byrjun júlí ritaði starfsmaður Skrifstofu jafnréttismála, Ingólfur V. Gíslason, grein í Morgunblaðið þar sem hann fjallar um þennan hluta laganna og fagnar því sérstaklega að skírskotað skuli til réttinda feðra. Hann bendir réttilega á að hingað til hafi körlum og konum í opinberri þjónustu verið mismunað gagnvart hinum almenna markaði að því leyti að karlar sem kvæntir eru konum í opinberri þjónustu hafi ekki átt rétt á nokkrum greiðslum í fæðingarorlofi, hvorki frá atvinnurekandanum né Tryggingastofnun. Ekki verði annað skilið en að með hinum nýju lögum hafi þingmenn öðlast þennan rétt.
Jákvæð viðbrögð
Engan þarf að undra að ánægjuraddir skuli heyrast frá Skrifstofu jafnréttismála með tilkomu hinna nýju laga. Þar á bæ hefur því verið haldið fram að framkvæmd laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna stangist á við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þetta hefur einnig verið skoðun jafnréttisnefndar og stjórnar BSRB. Á þessari forsendu hefur verið höfðað mál á hendur fjármálaráðuneytinu fyrir að hafa af körlum réttindi sem þeim ber samkvæmt lögum um jafna stöðu kynjanna. Fyrir sitt leyti hefur ráðuneytið bent á það sér til málsbóta að í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sé hvergi vísað til réttinda feðra og því sé ekki unnt að greiða þeim laun í fæðingarorlofi.
Með þingfararkaupslögunum verða hins vegar þau skil að í greinargerð með lögunum er vísað til réttinda feðra. Í greinargerð með 12. grein laganna segir orðrétt: „Greinin er nýmæli. Sjálfsagt og eðlilegt þykir að taka í lög um þingfararkaup hliðstæð ákvæði og gilda um rétt starfsmanna ríkisins til fæðingarorlofs. Konum, sem sæti hafa átt á Alþingi, hefur fram að þessu verið veittur þessi réttur án beinnar lagastoðar en með ákvæðum greinarinnar eru tekin af tvímæli um þetta efni, svo og rétt feðra…“
Sé réttur feðra á annað borð viðurkenndur í opinbera kerfinu ætti að vera um það einfalt val hvernig feður og mæður skipta með sér orlofinu á hliðstæðan hátt og mæður og feður geta skipt með sér dagpeningum í fæðingarorlofi á almennum vinnumarkaði. En það á ekki að láta sitja við þessar breytingar einar segir Ingólfur V. Gíslason starfsmaður Skrifstofu jafnréttismála. „Næst liggur þá fyrir,“ segir hann í niðurlagi greinar sinnar í Morgunblaðinu, „…að vinda sér í að gera þessi réttindi alþingismanna að almennum rétti.“
Stefnubreyting hjá löggjafanum
Undir þessi sjónarmið starfsmanns Skrifstofu jafnréttismála tók síðan undirritaður í fréttatíma Ríkisútvarpsins og benti á að hér hefði átt sér stað ánægjuleg stefnubreyting hjá löggjafanum. Jafnframt var bent á að alþingismenn hefðu með lögunum skapað sér umframréttindi á við aðra opinbera starfsmenn með ríflegri kaupgreiðslum á orlofstímanum en almennt gerist. En nú brá svo við að tveir þingmenn, annar sjálfur fjármálaráðherra landsins og hinn þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins kvöddu sér hljóðs á opinberum vettvangi og höfðu stór orð um að hér væri farið með rangt mál. Geir H. Haarde þingflokksformaður sagði í fréttaviðtali í útvarpi að hér væri komin fram „óleyfileg túlkun“ og Friðrik Sophusson fjármálaráðherra kvað hana „fráleita.“ Haft var eftir ráðherranum að „…lögfest hafi verið að þingmenn skyldu njóta sömu réttinda og opinberir starfsmenn en ekki búinn til neinn nýr réttur þeim til handa.“
Ef það er rétt að einvörðungu hafi átt að tryggja „sömu réttindi“ og opinberir starfsmenn njóta en ekki önnur og meiri þá er ljóst að greinargerðin með lögunum er röng. En þar með er ekki öll sagan sögð. Til þess að staðhæfingar þeirra Friðriks Sophussonar og Geirs H. Haarde um að þingmönnum hafi ekki verið tryggð umframréttindi fái staðist er ekki nóg að stroka út tilvísanir til réttinda feðra heldur þyrfti einnig að breyta lagatextanum varðandi launagreiðslur í fæðingarorlofi. Því eins og áður segir er það ekki aðeins varðandi rétt feðra til launa í fæðingarorlofi sem alþingismenn hafa tryggt sér umframréttindi heldur einnig varðandi sjálfar greiðslurnar á orlofstímanum. Þannig fá opinberir starfsmenn helming fæðingarorlofsins, eða þrjá mánuði, á fullum launum, þ.e.a.s. grunnlaun að viðbættu meðaltali yfirvinnugreiðslna, en hinn hlutann á grunnlaunum einvörðungu. Þingmanni eru hins vegar með nýsamþykktum lögum um þingfararkaup tryggð full laun allan þann tíma sem hann eða hún er í fæðingarorlofi. Orðrétt segir í viðkomandi lagagrein: „…þingmaðurinn skal einskis í missa af launum og föstum greiðslum samkvæmt lögum þessum meðan á fæðingarorlofi stendur.“ Hver skyldi nú vera hin leyfilega túlkun á þessu ákvæði? Ætli hægt sé að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að um umframréttindi sé að ræða?
Réttindin rýmkuð
Ég fæ ekki betur séð en eftir standi að alþingismönnum hafi verið tryggður umframréttur gagnvart opinberum starfsmönnum að tvennu leyti. Í fyrsta lagi er skírskotað til réttinda feðra og er það nýmæli hvað opinbera starfsmenn varðar. Í öðru lagi eiga þingmenn að njóta fullra launa allan þann tíma sem þeir eru í fæðingarorlofi en ekki helming tímans eins og kveðið er á um í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Sú staðhæfing fjármálaráðherra og formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að þingmönnum séu ekki tryggð nein önnur réttindi á þessu sviði en þau sem opinberir starfsmenn almennt njóta stenst því engan veginn og er beinlínis röng. Hins vegar er það fullkomlega rökrétt að taka undir með starfsmanni Skrifstofu jafnréttismála að Alþingi hafi með þessum lögum stigið skref í þá átt að rýmka réttindi til fæðingarorlofs