Fara í efni

ÁRAMÓTAÍRAK

Kaumpánarinir Halldór og Davíð geta senn fagnað þriggja ára stríðshelvíti í Írak-þeirri atlögu gegn þróunarríki sem þeir staðfastir

studdu fyrir hönd okkar Íslendinga. Enn situr Halldór Ásgrímsson í ráðherrasæti en hefur þó viðurkennt að hluta til villur síns vegar varðandi Írak. Þrátt fyrir andmæli og viðvaranir víða að, átti Halldór á sínum tíma ríkan þátt í að móta opinbera íslenska stjórnarstefnu á grunni upploginna CIA gagna, árásargjarnrar græðgisstefnu bandarísku haukanna. Hann axlaði þá mikla ábyrgð, braut trúnað við þjóð sína og gerði Ísland að bakhjarli stríðsglæfra. Halldór vill síst líta um öxl nú en hvetur okkur landa sína til að horfa til birtunnar, sem við blasir í Írak að því er hann telur.  Allra síst er hann líklegur til að viðurkenna siðferðishrun sitt og þeirra félaga sinna, sem hann enn bindur trúss við, þá sem færðu Írökum eld og brennistein.

 

Fátt fæst enn upplýst um fjölda vopndauðra Íraka í þessum hamförum. Þeir eru á annað hundrað þúsund og margfalt fleiri eru örkumla á líkama og sál. Helmingur þjóðarinnar er á barnsaldri og ekki er skaði barnanna smár. Tæplega þrír tugir milljóna Íraka hafa séð samfélag sitt niðurlægt og niðurbrotið og þeim skal nú talin trú um að það gjald sé lítið fyrir að losna við gamalt húsbóndavald.  Allt stofnanakerfi Íraka er í rúst, iðnaður, verslun og landbúnaður í lamasessi, jafnvel olíuvinnslan er strand. Víða er hvorki vatn, rafmagn eða aðrar nauðsynjar að fá.  Atvinnuleysi er um og yfir 50% í samfélagi þar sem öll tryggingakerfi heyra sögunni til. Bónbjargir frá erlendu ofbeldisafli duga skammt.

 

Þeir sem ruddu lögum úr vegi í  Írak gekk það einkum til að afnema ákvæði um þjóðaeign á olíuauðlindum. Svo virðist sem það áhugamál alþjóðlegs auðvalds

hafi kostað þetta þróunarland meira en bætt verður fyrir.  Olíuhákarnir ákváðu að leggja "Karþagó" í eyði.

 

Við upphaf eyðingarstríðsins gegn Írak gaf Bush út fögur fyrirheit um að stríðsskaðabætur yrðu tryggðar þjóðinni, þótt síðar yrði hún krafin um endurgreiðslu ! Nú er upplýst að dollaramilljarðarnir 18 eru uppurnir þótt enn blasi neyðin tóm við Írökum. Megnið af fénu var varið í greiðslu til erlendra og innlendara málaliða,til svonefndrar öryggisvörslu. Annað fór í mútugreiðslur og í spillingarhít nýrrar yfirstéttar og ekki má gleyma vænum ágóðahlut bandarískra verktakafyrirtækja. Þúsundir eyðilagðra skóla og menntastofnanna blasa við í barnmörgu samfélaginu. Heilbrigðiskerfið er enn laskað og á brauðfótum. Eyðileggingin er hvarvetna sýnileg - og bræður berjast gimmilega að áeggjan þeirra sem deila og drottna. Við Írökum blasir líklega hvorki

velsæld, friður né samlyndi-og þá heldur ekki lýðræði eða frelsi.  Írakar eru brotin þjóð í brotnu landi.

 

Nú í ársbyrjun 2006 berast þær fréttir helstar frá bæli Bush, að senn geti Írakar átt sig sjálfir, að olíuauð sínum slepptum auðvitað. Um nýtingu olíuauðsins gilda nú

nýjar reglur,sem vænta má, reglur alþjóðahringanna. Af ósvífni gefur stríðsgalni Bush nú út þau orð, að Írakar verði nú sjálfir að axla stríðstjónið í bráð og lengd en að  öðrum þjóðum heimsins verði þó skipað til neyðarframlaga. Bush hefur þá væntanlega í huga hina staðföstu vini, m.a. íslensku stjórnarherrana sem með honum lögðu á ráðin um blóðbaðið forðum.

 

Við Íslendingar getum senn vænst þess að verða skipaðir til ábyrgðar fyrir glórulaust stríðið í Írak. Áður en við svörum slíkum áheitum er tímabært fyrir Íslendinga að gera upp sakir á heimavelli. Sakir við ráðamenn okkar,sem vildu kveikja eldana í fjarlægu þróunarlandi, kveikja stríð, öllum til ógleði og tjóns.  Ef við látum slíkt ógert þá getum við sagt af okkur sem frjáls, vitiborin þjóð.

                                         Baldur Andrésson, 5.janúar 06