ENDURNÝTTUR STALÍN-BRANDARI Á ÍSLANDI
Sem ungur vinstrianarkisti og andófsmaður þvældist ég til Sovét og átti þar námsdvöl í ár,1971-72. Þar heyrði ég góða, trúverðuga sögu, staddur í stórri sundlaug:
Í tíð Stalíns átti að slá tvær flugur á bakka Moskvufljóts sem borgin ber nafn eftir.
Ákveðið var að ryðja úr vegi miðaldakirkju, miklu byggingarlistaverki, ,,táknmynd úrkynjaðs kirkjuvalds".
Í staðinn átti að reisa svo háreista Leninínstyttu að hún yrði veraldarundur vegna umfangsins, tímatákn.
Kirkjan var rifin. Grunn átti að grafa fyrir níðþungu myndlistaverkinu, Lenínbákninu, en undir átti að standa ,,Hús Sovétráðanna". Samanlagt gríðarmannmvirki.
Kom þá í ljós að endalaus var dýpt eðjunnar á fljótsbakkanum. Þar var enga trausta undirstöðu að finna.
Stóð svo vatnsfyllt grunnholan því ónýtt árum saman, Stalín til skapraunar og lítils heiðurs.
Þá kviknaði hugmynd að því að gera ,,stærstu útisundlaug í veröldinni" í grunni þess, sem verða átti áður áður ,,stærsta minnismerkið". Sundlauginn var gerð og holan þannig nýtt.
Að svo búnu var sögubókum breytt. Aldrei mátti minnast á Lenínstyttuna aftur. Sú hugmynd var strikuð úr öllum sögubókum. Nýja gilda söguútgáfa Stalíns var að alltaf hefði staðið til að byggja ,,stærstu útisundlauga í heimi" á fljótsbakka þar sem áður stóð mikilfenglegt kirkjulistaverk frá miðöldum.
Framsýni Stalíns og sundlaugaáhuga var viðbrugðið í öllum sögubókum og Prövdufólkið ærðist af fögnuði yfir að þjóðin ætti slíkan sundáhugamann sem félaga Stalín, ástvin alþýðuíþróttar. Gott fannst þá Stalín að eiga góða að.
Mjög voru verkfræðingar Stalíns lofaðir og arkitektar líka fyrir að útfæra þá upphafshugmynd Stalíns að gera risasundlaug á fljótsbakka. Krútsjoff gerði laugina. Loksins, loksins, sögðu fjölmiðlar, fæddist gamli sundlaugardraumur Stalíns.
Nýlega komu til sögu olíuglæponar og þeir endureistu gamla kirkju í sundlaugarstað. Sagan er kenjótt og skrítin.
Líka ný afbrigði opinberu Íslandssögunnar,
4.5 2011 Baldur Andrésson,arkitekt.
/ Sögubætir: Svo vill til að Faxaskáli var höfuðvígi Hafskipa, veldistákn Björgólfs á fyrsta keisaratíma. Hann var rifinn svo byggja mætti fyrir almannafé annað valdstákn fyrir næsta keisaravaldstíma Bjögólfs, þann stórfenglega sem lauk 2008. Kannki verður Björgólfsharpa rifin og Faxaskáli endurreistur ? Eða gamli kolakraninn ? Eða gerð útisundlaug á bakka?
Vont er að spá, en þó einkum um framtíðina.
BA