GELDRÍKIÐ ÍSLAND
Sérkennilegar eru kenningar um að óttinn sé tilvistargrunnur hverrar sjálfráða þjóðar í veröldinni. Óttinn kallar á varnir og verjur og því er sagt að herlaust ríki hljóti að vera óttalaust, viðrini án tilgangs og tilveruréttar. Óttinn er samkvæmt þessu ein helsta stoð sérhvers ríkisvalds, því án hans verður allt vopnaskak á vegum þess ríkis afkáralegt. Í raun er þó óttinn ekki aðalmálið. Vopnin eru það hinsvegar oft í höndum þeirra,sem fyrir löndum ráða. Vopn eru hið sýnilega valdstákn ríkis, sem að öðrum kosti er sagt laslegt og veiklulegt, gagnvart eigin þegnum og í samfélagi þjóða. Vopnin eru ofbeldistáknin sem verja eiga ríkið í senn gegn innri ógn og gegn ytri ógn. Vopnin eru kvíðabremsa er okkur sagt. Þau eru auðvitað valdatæki byggð á óttanum, ógn sem oftast er tilbúin. Vopnavaldið skapar óvini og ótta, heimskuhringurinn lokast.
Fæðing ríkis:
Íslenska lýðveldið fæddist á stríðstímum. Kaldastríðið varð síðar ein helsta náma hins nauðsynlega ótta, svo ríkisvald gæti fest sig í sessi. Bandaríski herinn varð hið sýnilega tákn vopnavalds á Íslandi, þar sem dvergríkið átti ekki kost á eigin stríðstólum. Þegnum ríkisins var talin trú um að þessi erlenda táknmynd ofbeldis væri ásættanlgur staðgengill eigin herafla, gott og ódýrt neyðarbrauð. Ráðamenn Íslands hafa haldið reisn og virðingu með tali um að bandaríska herliðið í landinu hafi næstum því verið undir þeirra eigin stjórn. Við átti að blasa gervilimur "okkar" þótt hann þjónaði í raun heimsvaldahagsmunum annars ríkis. Reynt var að dylja þá staðreynd og búinn til sýndarveruleiki-varið ríkisvald. Gefið var í skyn að erlendur her væri hér að láni frá vinaþjóð og vopn hans einnig, allt það klabb væri til styrktar íslenska ríkisvaldinu, sú nauðsynlega fjandafæla sem öll ríki heimsins þyrftu að hafa á sínum snærum. Valdstáknið mikla. Ríkistáknið.
Friðarkreppa.
Nú í mars 2006 hefur andstyggileg kreppa riðið yfir alla þá,sem trúa á limi og gervilimi ofbeldis til styrktar Íslandi. Bandaríska fjandafælan er að gufa upp. Næg eru verkefni hennar að drepa fólk í olíuríkum þróunarlöndum. Íslenskir valdsmenn pæla sig sjóðheita í því að byggja upp hinn nauðsynlega ótta meðal landsmanna. Á slíkum ótta einum verður vopnaskak byggt. Án vopnaskaks er valdbeiting takmörkunum háð. Vopnin og verjurnar eru valdsproti, eins konar sýnilegur reður ríkis sem byggir á manndómi. Vopnalaust Ísland er sagt geldríki, ráðmennirnir með skaddaða sjálfsmynd, án mannsdómsins, án vopna. Övæntingu og niðurlægingu sinni geta þeir varla leynt. Þeir kunna illa við stöðuna. Þeir óttast að híað verði á þá, magnlausar skræfur í kokteilboðum atómsprengjukallanna.
Í kreppunni miklu er nú logandi ljósi leitað að alvarlegum ógnum, sem steðja að Íslandi. Ótta verður að rökstyðja. Pælararnir fara víða um völl. Varla finna þeir innlenda ógn því kommaherinn hefur sofnað í göngunni miklu. Galdrafárið er nú safngripur, Grýla er dauð, jólasveinarnir meinlitlir. Mormónar og múslimar eru spakir á Íslandi og enginn vopn bíta á erlenda farandverkamenn. Jafnvel Hjálpræðisherinn getur varla talist ógn. Marsbúar eu fjarri.
Þegar kálfskinnið er skoðað allt, heimurinn, kemur í ljós að mestu ofbeldisöflin leynast í
vinhjörðinni, innan NATO. Enn smíða Bandaríkjamenn kjarnorkuvopn þótt þeir búi þegar yfir tólum til að eyða öllu lífi á jörðinni margfalt. Nýja ógnarjafnvægið felst í að eyðingarvopnin viðhaldi miskiptingu auðs og velfarnaðar í veröldinni. Þau eru bakhjarl þeirrar alþjóðavæðingar, sem byggist á því að ríkir mergsjúgi fáttæka. Í því samhengi er Íslandi ekki ógnað, enn sem komið er.
Leitin að ógninni,smíði ótta og kvíða stendur yfir meðal ráðamanna á Íslandi. Björninn gælir við leyndarþjónustu lögreglu,sumir vilja vopn í hendur Hjálparsveitar Skáta. Aðrir vilja fylla herskálanna á Vellinum með Íslenskum ungmennum undir vopnum, stofna herskóla svo herja megi á fólk í þróunarlöndum. Enn hefur þó enginn ógnarhugmynd fæðst, sem gerir þetta raus trúverðugt.
Vera Íslands í NATÓ nær nú engri átt lengur. Gervilimurinn er burtu fokinn og Íslenska ríkið vanhæft til manndápa innanlands sem utan, geldingurinn í félagi karlmannlegra drápsíþrótta ! - Þetta gæti virst vera ljóta málið.
Nýtt Íslandstákn?
Friðarsúla Lennons, sem kemur í Viðey gæti orðið mikilvægara tákn Íslands en margir ætla nú. Orkan, sem nú fer í að finna tákn ógnar, skelfingar og rök fyrir stríðstólum á Íslandi, ætti fremur að beinast að táknum mannúðar, friðar og sátta í veröldinni. Óttinn og ofbeldisþráin er ekki undirstaða nokkurs þjóðríkis og ætti sannarlega að verða úthýst úr mannheimum. Lygavef sem byggist á samspili ótta og ofbeldis á að útrýma. Íslendingar hafa sannarlega einstakt tækifæri til að efla samfélag sitt á grundvelli friðar í stað ofbeldis.Þannig geta þeir kveikt ljós sjálfum sér og veröldinni til velfarnaðar. Það munu þeir gera nú því að ofbeldisseggirnir eru rökþrota. Friðarsúlan í Viðey verður vissulega reðurtákn. Sá völsi vísar þó í átt til friðar,velsældar og frjósemi góðrar hugsunar, andstætt þeim táknmyndum ofbeldis og kúgunar,sem nú hverfa frá landi okkar.
Kveðja: Baldur Andrésson