HVERT SKAL HALDIÐ?
Ekki fór á milli mála við hrunið 2008 að orsakavaldur þess var ekki síst rótgróin spilling í íslenska stjórnkerfinu, fyrri villiferðir í stjónmálalífi.
Tugir þúsunda mættu reglulega við Alþingi með kröfu um róttækar umbætur, virkt lýðræði, skikkanlegt stjórnarfar.
Öllu slíku var jafn fálega tekið og kostur var af þeim öflum, sem enga valdatauma vildu missa. Auðvitað voru fyrirheit um umbætur boðaðar, en á sama tíma voru þær kæfðar með þrugli.
Uppskera búsháaldabyltingar varð fátækleg, enda var fyrirstaðan öflug. Klíkur fjárglæfraafla fengu styrki og stuðning að þörfum eftir hrun þótt nokkrar þeirra leystust upp.
Óvænt túrismabóla styrkti íhalds- öflin í valdastöðu, sem aftur léku því á alls oddi með svonefnd vinstri- öfl á bandi sínu. Spillingarböndin milli auðvalds, stjórnmálaafla, stjórnkerfis, styrktust því verulega.
Sú er staðan nú, þegar ný kreppa er veruleiki, að þessu sinni dýpri, alvarlegri en heljarhrunið 2008 kallaði fram.
Við aðstæður nú hafa hægriöflin alla valdaþræði í hendi sér með vinstriöflin í sínu bandi, t.d. VG og íhaldið í eina sæng komin. Á árum áður kynnti VG sig sem róttækt umbótaafl. Nú virðast tals- menn þeirrar hreyfingar helst óttast umbætur, óttast gagnrýni á ríkjandi stýrikerfi hægriaflanna, óttast að andóf kalli fram “ pólaríseringu”, sem ógnað gæti stýrikerfi auðvalds, sem þeir telja sig nú vera hluta af.
SF er miðflokkur, sem aldrei hefur talist trúverðugt vinstraafl, spilar á mjög mislita strengi, eftir vindáttum. Forysta VG leynir nú hvergi hægri sveiflu sinni í orðum og verki á hlaupi frá flestum fyrri eigin fyrirheitum.
Þótt Sósíalistar séu vísir að róttæku stjórnmálaafli, hafa þeir ekki náð styrk, áhrifastöðu, tiltrú.
Ofanskráð kann að virka sem bölmóður einn.
Eitt er víst að handan við hornið virðist djúp kreppa blasa við, sem án vafa mun bitna harðast á þolendum í samfélagi misréttis, miklum meirhluta þjóðarinnar. Auðvitað mun slíkt kalla fram átök.
Þegar vinstriöfl missa trúverðuleika og traust opnast leið fyrir hvers kyns ruglanda og lýðskrum. Jafnvel fyrir hægri sinnuð öfgaöfl, skaðræðið, sem víða í löndum bólar á að vaxi.
Andsvar hugsandi vinstrimanna er að hrista af sér doðann, endurmóta róttæka umbótastefnu í vinstriátt, losa sig undan hægriáráttu eigin forystu. Það er ekki bara þörf, það er brýn nauðsyn ef ekki á illa að fara.
Í stuttu máli: Endurreisn vinstri róttækni i sjónmálum er nauðsyn, sem binda þarf víðtækum umbóta- vilja í stjórnarháttum. Lágkúrustandi vinstriafla þarf að ljúka sem fyrst.
Baldur Andrésson