Fara í efni

KÆRLEIKSBLÓM OG ILLGRESI

Aflóga gömul geymsla á útlægum íslenskum börnum, síðar ellihæli sem líka þurfti með valdboði að loka vegna ills aðbúnaðar vistmanna, Kumbarvogur er nafnið.
Útkamrar einkenna skrifstofukompur við Borgartún í Reykjavík, sem óhæfar teljast sem bústaður manna. Illa haldin iðnaðarpláss og skemmur hér og þar, jafnvel gamlar verbúðir. Slíkt glatað húsnæði, oft í glötuðu umhverfi er helsta augnakonfekt íslenskra stjórnvalda, þegar útbúa þarf og reka flóttamannbúðir hér, ætluðum þeim úrvalda hluta hælisleitenda, sem stimpil fá sem boðflennur við hingaðkomu.
Eru settar undir manngreiningar ýmsar á tilbúnum geðþóttagrunni, margir uppskera því stóran útlegðardóm.
Þeir sem áður héldu að með lögum væri ÚTLENDINGASTOFNUN ætluð móttökustýring og ábyrgð á málefnum hælisleitenda, hraktra flóttamanna sem hér guða á glugga, klóra sér nú í kolli. Splunkunýtt er hlutverk VINNUMÁLASTOFNUNAR fætt, andstætt lögskipuðu verksviði hennar og þekkingarsviðinu um atvinnumálefni fólks hérlendis. Í mjög annarlegu kerfisrugli leikur VINNUMÁLASTOFNUN nú arkitekt að flóttamannabúðum á Íslandi (!), geymslum í svo ömurlegum húsakosti, sem hér í upphafi er lýst. Búðir ætlaðar til niðurlægingar og einangrunar á sévöldu hröktu fólki, njóta aldrei réttnefnis frá þeim sem að baki tiltækjanna standa.
“ Neyðarbúðir” eða “ hjálparbúðir” hjóma t.d. betur en flóttamanna- geymslur, ætlaðar til aðgreiningar á vistmönnum þar frá samfélaginu, ætlaðar þeim einkum, sem óboðnir álpast til siðprúða Íslands.
Furðuleg er framtaksemi, þjónusta VINNUMÁLASTOFNUNAR við stjórnvöld, á skjön við verksviðið. Ítroðsla óboðins flóttafólks til Íslands í hin og þessi óboðleg hreysi lýsir hugfari stjórnvalda mjög skýrt. Þau koma harðsvíruð úr skáp sem áður var gæðamerktur. Hætt er við að mörgum flóttamanni bregði í brún við kynni af köldum móttökum og vanvirðunni þeim auðsýndri.