LEPPAR, SKREPPAR, LEIÐINDA-SKÝRSLUR
Í sjö sakramentum kaþólskra felst skriftun. Þá er friðmælst við almættið með munnlegri syndaskýrslu til prests, umboðsmann Guðs. Viðbúin náðun er Drottinsumbunin. Náðarmeðalið hressir syndaseli.
Íslensk stjórnvöld hafa bersýnilega þörf fyrir náðarmeðöl , þótt þau verði að brugga með öðrum hætti en hjá kaþólskum. Illa varð þeim á í messu hér um árið. En þau skrifta aðeins í eigin eyru.
Ekki breyta stjórnvöld þó vana sínum eða háttum, hvað þá að þau axli ábyrgð sjálfviljug. Náðarmeðölin birtast í stofnun eigin rannsóknar- nefnda stjórnvalda, sem leggjast í langhundaskrif, svo nemur oftast þúsundum blaðsíðna. Ófögur eru grösin oft í þessum pokahornum og kurteislega ýjað að tilvist spillingarvélar. Stundum eru stjórnvöld sögð handbendi slíkrar vélar eða jafnvel einn vélarpartur. Alþingi er þar ekki undanskilið né framkvæmda- og skrifræðisvaldið. Í ljós kemur oft að lýðkjörna valdið hefur hliðarsett sig sjálft en framvísað valdinu til skuggaafla. Stofnanaskrifræðið spilar með. Fyrir bragðið er ábyrgðarflótti tryggður, komi til óhappa. Þegar vél er sögð sjálfstýrð öðlast hún sjálf ábyrgðarhlutverkið. Markaðspartarnir eru samvirkir. Samþáttun þeirra er rökrétt í galskapnum. Vél þessi starfar á eigin forsendum ofurgræðgi, er andfélagslegt misréttisafl. Þetta er þó sagt milli lína, undir rós.
Varla tekur að minnast Rannsóknarskýrslu Alþingis, ætluðum skýringarlykli að Miklahruni með úrbótaáminningu. Sú langloka gulnar í hillum til lítils gagns. Olli vissulega engum straumhvörfum.
_ _ _ _ _ _ _
Sem næst tvö ár tók að berja saman svarta skýrslu um Íbúðalánasjóð. Niðurstaðan er að aulabárðar hafi í umboði stjórnvalda brotið margar varúðrareglur, keyrt ÍLS í núverandi þrotastöðu.Tjón ILS er 100 ma kr. á verðlagi 2012, en gæti orðið 270 ma kr. að gefnum mögulegum forsendum . Umreiknað í meðalverð gæti tjónið numið 10.000 fjölskylduvistarverum 25.000 einstaklinga. Bittu nú segja stjórnvöld . Leið slíkrar nefndarskýrslu liggur þrasvegi í aðrar nefndir. Heppilegast þótti að opinbera ÍLS-skýrslu daginn fyrir sumarleyfi Alþingis að loknum síðustu þingkosningum, sem snérust um íbúðalán ! Þannig var samþöggun talin best tryggð og pólitískt áhrifaleysi skýrsluniður-stöðu. ÍLS er milli steins og sleggju, velferðar og peningalögmála.
_ _ _ _ _ _ _
Nördar með skýrsluafrek að áhugamáli bíða spenntir eftir enn annarri opinberun í skýrlsuformi. Þar á að leynast skýring á hruni sparisjóða, orsakir og afleiðingar raktar. Græðgisfjanda tókst að rústa þessum áður sjálfbæru þjónustufyrirtækjum á eldingarhraða. Eftir stóð sviðin jörð og milljarðatjón. Eftirleikar eru líka fullir þversagna og dulúðar, lítt skiljanlegir. Boðaður er enn einn síðborinn langhundur nú, opinber minnisvarði um liðna áfallasögu, sviplegan dauða heils sparisjóðakerfis. Væntanleg minningarskýrsla um fallna sparisjóði setur væntanlega í gang smáþras um stundarbil, uns þögnin þægilega brestur aftur á. Meira þarf til að báti klíkukapítalismans verði ruggað.
_ _ _ _ _
Enn ein skýrsluútgáfan verður í tilefni fimm ára hrunafmælis. Þar á að rekja tiltæki lífeyrisstjóra landsmanna, samflot þeirra með græðgis-bönkum fram yfir bjargbrúnina 2008 , með stórstjón almennings að fylgifiski. Varla verður sú skýrslan styttri en aðrar álíka langlokur og varla verður hún gleðilestur öðrum en Þórði. Járn skal hamrað meðan heitt er. Opinberun nú um stýringu lífeyriseigna áður fyrr er því loks talin hættulaus stjórum og stjórnvöldum. Umræddur langhundur mun því engu kerfisvaldi ógna, enga ábyrgð færa á axlir.
--------------------------------------
Áminnst skýrsluframleiðsla öll byggir á hræsni. Undir hana er kynnt af valdhöfum, sem síst hvetja til róttækra umbóta. Meginstoðir íslensks klíkukapítalisma stóðust hrunið. Undirhleðslan veiktist tímabundið, en er nú að ná fullum styrk, með ærnum kostnaði samfélagsins. Endurreisn viðskiptabanka er í bígerð eftir gamla mótelinu, sem olli Miklahruni. Þar á að samtvinna í gróðasæknum einkafyrirtækjum almenna bankaþjónustu og fjárfestingar. Góða bankaveislu gjöra skal. Gjaldeyrishengjan er þó gleðispillir, fortíðardaugsi til áhlaups vís.
,,Ekkert vesen" er meðal þekktra slagorða þeirra sem þöggun kjósa. Hægri populistum tókst að nýta sér almenna ringlureið í kosningum, lokka brennd börn að eldi sínum. Enn munu herðast hægritökin. Leppur og Skreppur eru mættir til forystu. Við þessar aðstæður streyma loks fram skýrsluritverkin fyrir skjalageymslurnar. Tilvist þeirra er raunaléttir og sálarbót íslenskri valdstétt, sem áskilur sér samt áfram sjálfdæmi um eigið verklag. Klíkukerfið dafnar áfram. Handan við gjána hímir villugjörn þjóð í magnaðri gjörningaþoku.
Baldur Andrésson. Ágúst-Sept. 2013.