MÁ ÉG LÍKA?
Um daginn bað ég ákveðinn þingmann um að stela fyrir mig Kjarvalsmálverki úr þinghúsinu. Slíkt gæti ég fénýtt strax, eða notað til heimilsskrauts hjá mér. Raunar dró ég beiðnina til baka eftir umhugsun því æra mín, þjófsnautsins, gæti bilað og æra þingmannsins líka, ef upp kæmist um brallið.Við megum víst ekki umgangast almannaeigur á þann hátt.
Ég fékk þó betri hugmynd: Fégræðgi mín hefur leitt mig til vonar um að einhver afhenti mér að gjöf skrauthýsi á besta stað í borginni. Ég tími ekki að kosta smíðina sjálfur, en hún kostar á bilinu 12-14 milljarða segja mínir menn, sem auðvitað ætla sér sinn skerf af smíðakostnaði.
Ég hef nú þegar ráðið kynningarstjóra, sem á að telja almenningi trú um að almannafé sé best geymt í vösum mínum eða í einkahúsi mínu. Kjarvalsmálverkið hefði ég annað hvort getað fénýtt eða notað mér til upphefðar. Skauthýsið get ég bæði fénýtt og fengið upphefð af um leið. Ég gæti raunar selt það öðrum síðar meir.
Ég veit að þótt stjórnvöld megi nú ekki gefa mér mynd úr almannaeigu er þeim frjálst að gefa mér milljarða úr opinberum sjóðum. Árið 2006 var nákvæmt fordæmi gefið, en þá fékk einmitt klíka fjáraflamanna 12 til 14 milljarða gjöf frá stjórnvöldum til smíða á skrauthýsi sínu og lóðir í kaupbæti. Allt var fullkomlega löglegt. Klíkan sú tapaði raunar áttum og glataði öllu en slíkt mun ekki henda mig. Ég get treyst á viðbótargjafir af almannafé ef eitthvað klikkar.
Það eina sem gæti truflað áætlun mína er hugsanlega núverandi sjóðþurð hjá ríkinu, líka vandræði við að gefa út skuldabréf til mín. Þá blasir við sá kostur að gefa mér bara fullbúið hús, sem nú er í smíðum við Austurhöfnina. Það verður að raunvirði 14 milljarðar við smíðalok en 16 milljarðar fóru í sukk, sem verður afskrifað. Þeir sem áttu að þiggja það hús sem þjóðargjöf eru nú horfnir í brimrót eigin gjaldþrotamála. Skrauthýsið mun standa munaðarlaust án hirðis við vígsluna, nema maður af mínu tagi finnist.
Stjórnvöld geta nú valið á milli tveggja úrvalskosta, að gefa mér pening( skuldabréf ) eða fullbúið hús. Mig klæjar nú þegar í lófana og nýi kynningarstjóri
minn mun sannfæra pöpulinn um ágæti mitt og leiðsagnarhlutverk í eignamálum. Hann er pottþéttur. Hann segir mér að leyfi ég Þjóðarhljómsveit að spila í sal þegar hann er ekki í öðrum ábataafnotum fái ég tvær milljónir á konsert. Mestu skiptir þar að þá fær hús mitt menningarlega ásýnd á yfirborðinu. Hljómsveit hússins er ekki galin hugmynd. Í öðrum sölum má spila, t.d. á spil eða á rúllettu.
Sjálfur er ég heppinn í ástum, en Mammon hefur ekki alltaf reynst mér vel. Ég tel að sá guð og stjórnvöld eigi nú að rétta hlut minn og að þau eigi að sameinast um upphefð mína og velferð. Athafnaskáld og eldhugar af mínu tagi eru ómissandi. Hvað er eign án eiganda, spyr ég, hvernig fer fyrir fé án hirðis ?
Ég veit fyrir víst að málverkaþjófnaður er lögbrot. Fullkomlega löglegt er að afhenda mér milljarða almannafjár eða fullbúið skrauthýsi til einkafanota. Þetta veit ég að góðviljuð stjórnvöld hafa í huga við afgreiðslu á hógværri málaleitan minni, sem á sér mörg fordæmi. Má ég ekki líka ?
Baldur Andrésson, athafnaskáld.