Fara í efni

PENTAGONÍSLAND

Hernaðarþjónkun íslenskra valdhafa við Pentagon er skrýtið þrotabú. Á  Vallarsvæðinu verður brátt mannauðn í bandarískri íbúðabyggð sem telur 900 þokkalegar fjölskylduíbúðir, skóla, verslanir, kirkju m.m.  Sagt er að þorp þetta sé virði 30 milljarða en allt er óráðið með framtíð þess.

Sama gildir um hernaðarmannvirki, flugvöll, flugturn og fleira góss. Allt er það í eignarhaldsuppnámi þótt íslensk stjórnvöld tali þegar um það sem íslenskar ríkiseignir. Helst er spáð í  að einkavinavæða eða þá að leigja draslið. Öll staða herstöðvarinnar er absúrd og hvetur íslensk stjórnvöld til afneitunar - þau bulla  í hringi.

Þessa daganna eiga Íslendingar að bíða spenntir eftir nýjum tilskipunum Pentagons um það hvernig háttað verði svonefndum landvörnum. Í þeim skipunum felst líka sú skilgreining á utanríkismálefnum Íslands, sem hérlendir ráðmenn telja sig ófæra um að setja fram.  Í nafni íslenska lýðveldisins er framlengt ákvörðunarvaldi Pentagons um hin þýðingarmestu utanríkismál. Huga þarf að innalandsmálum svo bandóðir byltingarmenn rísi ekki upp gegn valdstjórninni. Huga  þarf að hugarkvíða bjór- og pylsusala og finna varnir gegn innrásum útlendinga og geimvera, verjast friðarspillum og menningarafglöpum. Best þykir henta að Pentagon sinni umhverfismálum og CIA ólögmætum mannflutningum um íslenska flughelgi. CIA gæti einnig tekið að sér umsjón á sviði eiturlyfjaflutninga og peningaþvættis enda reynslumikil stofnun.

Leyndarviðræður embættismanna og herstjóra standa nú yfir. Á fullu pakka Kanar saman á Vellinum og hypja sig bráðlega. 1000 íslenskar fjölskyldur hafa misst lífsviðurværi sitt, alþjóðaflugvöllur Íslands er í eignarhalds- og rekstraruppnámi, milljarðamannvirki einnig. Ekkert er nú vitað um hverjar línur Pentagon leggur íslenskum stjórnvöldum um utanríkis- og öryggismál landsins. Pælingar Bushlima eru ráðgátan mikla. Þær ráða för.

Ríkisstjórn Íslands og utanríkisráðherra eru öllu trausti rúin meðal eigin landsmanna. Hnípnir bíða þeir aðilar eftir fyrirmælum Pentagons og einhliða geðþóttaákvörðunum um grundvöll utanríkisstefnu Íslands. Sjálfsmatið er nú á núlli, niðurlægingin alger.

Baldur Andrésson