Fara í efni

VÉLRÁÐ OG VÉLBYSSUR

2010 komu vopna- og verjukaup ríkslögreglustjóra til áberandi samfélagsumræðu, þótt núverandi utanríkisráðherra reki ekki nú minni til þess. Strax þegar til efnhagshruns dró haustið 2008 voru á kontór ríkislögreglustjóra lögð drög að stórinnkaupum á gasi og öðrum útbúnaði til að mæta óánægðum almenningi, ef hann flykktist til andmælafunda. Þá sat sem fastast hægristjórnin, sem verið hafði handbendi fjárglæframanna að flestra mati og ekkert fararsnið var á æðstu embættismönnum opinbera stýrikerfis glæfraviðskipta. Þá var Seðla-bankinn gjaldþrota. Nánustu samstarfsmenn ríkislögreglustjóra á kontór hans höfðu sýnt þá forsjálni að stofna sjálfir til einkafyrirtækja, sem þeir ráku í hjáverkum með störfum að yfirstjórnun lögreglunnar. Vopnaverslun var tilgangur með rekstri fyrirtækjanna, þar var persónuleg hagnaðarvon fyrir embætismennina. Tækifæri til stórviðskipta við einkafyrirtækin birtist þeim, þegar yfir stóðu friðsöm pottamótmæli. Margan rak í rogastans 2010 við fregnir af fyrrum ,,hrunátaki"ríkislögreglustjóra, þegar upplýsingar láku loks út. Mesta furðu vakti verslunarhátttarlagið, þ.e. vopnainnkaup embættismanna frá fyrirtækjum í einkaeigu þeirra sjálfra og þótti ýmsum,sem ólykt legði af því hátterni á kontór ríkislögreglustjóra.  Ríkislögreglustjóri svaraði. Í bréflegri yfirlýsingu mærði hann sjálfan sig og embætti sitt sem sverð og skjöld íslensks samfélags, lýðræðis og frelsisis. Það sem aðrir höfðu skynjað sem spillingartakta, skýrði ríkislögreglustjóri sem hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Útboðslaus vopnakaup embættismanna á kontór ríkislögreglustjóra af eigin einkafyrirtækjum  þótti ríkislögreglustjóra að hefði verið hið mesta snjallræði og öll í þágu lands og þjóðar. Milli lína birtist sú skoðun, að sjálfur ætti lögreglustjóri að teljast þjóðhetja og þá ekki síður kontóristar hans, eigendur vopnasölufyrirtækja. Þetta bréf  ríkislögreglustjóra dugði, þótt undarlegt sé, til að kæfa alla gagnrýna umræðu um innanhúsbraskið á kontórnum. Þöggun tók við í helstu fjölmiðlum. Málefnið hvarf einfaldlegu úr umræðu. Líklega starfa vopnasölufyrirtæki kontórista ríkislögreglustjóra ennþá með ágætum. Þau eru sjálfsagt enn til þjónustu reiðubúin, ef efnt verður til stórinnkaupa á vopnum og verjum til lögregluafnota. Öll fer þó slík verslun áfram fram með leynd, eins og fyrrum daga. Vélbyssumálefnið nýframkomna 2014 nær einnig hæðum sem absúrdismi. Einkenni þess er ekki síst valdhroki æðstu embættismanna lögreglu og landhelgisgæslu, sem líta á vopnamál embætta sinna sem geðþóttamál æðstu stjórnenda, íslenskri þjóð og Alþingi óviðkomandi. Í þessu tilviki er um að ræða 150 til 300 (?) vélbyssur, ætlaðar til löggæslustarfa á litla Íslandi. Fordæmið er skýrt: Vopnvæðingin á að tejast einkaákvörðunarefni örfárra embættistoppa, öðrum þegnum á Íslandi óviðkomandi. Í ljósi þessa, er allt mögulegt, t.d. innkaup á handhægum sprengjuvörpum, eldflaugatækjum, að ekki sé minnst á rafbyssur í vasa sérhvers lögreglumanns. Militarismi, valdhroki og dulmagnað umhverfi vopnainnkaupa ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu vekja þjóðarugg á Íslandi. Hálffasistar efndu til vopnavæðingar lögreglunnar á kreppuárunum. Þá var valdstéttinni að mati þeirra helst ógnað af sárfátæku verkafólki og atvinnuleysingjum í Reykjavík, sem reyndu að berjast fyrir lífsbjörg sinni, Upp úr sauð í Gúttó forðum og sá slagurinn er nú, 2014, notaður til sannindamerkis um að heljarstökk til vopnvæðingar lögrelgu sé þjóðarnauðsyn. Þegar vélbyssur eiga að fylla vopnabúrin nú, er einmitt vísað sérstaklega sem samas konar átaks  embættismanna í stórkreppu liðinnar aldar ! Átaks fyrrum varðhunda valdstéttarinnar. ,,Ekkert hefur breyst". Almenningur á Íslandi er viti borinn, hófstilltur og friðsamur. Vopn, ætluð til mannvíga, hafa hingað til verið fágæti á Íslandi. Almenn siðmennt er helsta öryggisvörn samfélagsins og er það vel greipt í huga vopnlausrar, herlausrar þjóðar. Engir atburðir á undanförnum áratugum afsanna þá almennt viðurkenndu skoðun. Viðhorfið er eitt aðaleinkenni íslensks samfélags. Örfáir hrokagikkir, með embættisvald í fórum sínum, fara ítrekað fram í andstöðu við grundvöll siðmenningar á Íslandi. Þessa kalla verður að stöðva áður en stórslysin verða. Leyndardómasmíðin tengd vopnakaupum er öðrum þræðihlægileg, en harmræna er þó alltaf rót húmors.

Baldur Andrésson. 25.okt 2014.