Fara í efni

VILTU VINNA MILLJÓN ?

27.000 milljarðar er sagður kostnaður Bushstjórnar við að hrella Íraka frá í mars 2003 skv. fréttum. Það svarar til milljón  króna á sérhvern íbúa í Írak og dauðadansinn dunar enn ! Íbúar annarra þróunarlanda heimsins óska sér örugglega ekki að milljón sé sett til

höfuðs lífi sérhvers eða hamingju.

 

Bandarískir vígamenn Bushstjórnar hafa gert þarfir sínar í Afganistan með þeim hætti, sem heimurinn þekkir. Landið særða og fátæka er nú einhver versti eymdarstaður jarðar. Öll reisn er frá fólki tekin, atvinnulíf lamað,landbúnaðarjörð víðast ónýt og áveitukerfin. Ekkert skólastarf þrýfst né heldur heilsugæsla eða almenn stjórnsýsla. Félagstrygging er engin í landi hundruð þúsunda ekna og munaðarleysingja. Valdi er deilt til forneskjuhanda ættarhöfðingja,herstjóra og eiturlyfjasala og að auki til vestræna hervaldsins.

 

Árásarbandalagið Nato hefur nú það auma hlutskipti að verja bandaríska flóttann frá Afganistan, m.a.flóttann frá öllum fyrirheitum um hjálparstarf, enduruppbyggingu, stríðsskaðabætur til handa Afgönum. Flóttann frá skruminu um frelsi og lýðræði !

32.000 manna flugher og landher Nató herjar enn í Afganistan, enn brenna þorpin, eldurinn og hatrið laumast um fjallvegi og um vegi loftsins. Enn er pyntað til öryggis í yfirtroðnum vestrænum fangabúðum. Afganistan er nú að sögn raunveruleg ógn við Vesturlönd því þaðan streymir nú meira hráefni til heróingerðar en markaðurinn fær dorgað!  Eyðingu Afganistans fylgir afsiðun fátæktar og hömlulaus spilling. Nú sverfur

enn hungurvetur að Afgönum. Bush leiðist nú stjórnun  helvítis sem hann skapaði íbúum  Afganistans. Þá finnst honum gott að eiga sér hjálparkokka í Nató.

 

Raunar eru helvítin fleiri sem Bushklíkan telst höfundur að. Um Írak verður ekki orð-

lengt hér, né það svívirðilega stríðsglæpaferli,sem hófst með innrásinni í mars 2003.

 

Afleiðingarnar eru jafnvel enn hryggilegri í Írak en í  Afganistan, stórkostlegri og verri.

Stutt er síðan þróunarlandið Írak átti sér þó vonir um þokkalega framtíð, á skrikkjóttum og

stundum grýttum vegi til velferðar og góðra siða. Vonir um frið, reisn, sættir og velferð Íraka eru nú sundurmarðar undir bandarískum stríðshæl. Þegar heimsveldið nú hefur gengið stríðsörna sinna í Írak, á það helst ósk um að mega einnig hverfa frá þeirri rúst .

Herfanginu, olíuauði Íraka, munu innrásaröflin þó ekki sleppa ógrátandi.

 

Brosið á Natóköllunum í Ríga var þvingað um daginn. Árásargengið Nató er undir bandarískri leiðsögn stríðsglæpamanna sem siðmenntuðu fólki hryllir við.  Logið hefur verið að vestrænum almenningi um árabil en loks er upplýsingin að birtast. Forysturíkið er nú bæði í innri kreppu og ytri kreppu. Vælandi leitar það nú ásjár Natófrænda sinna um kreppulausnir

 

Raunar lögðust milljónir manna á árar í friðarátt fyrir nokkrum árum, gegn morðæðinu í Afganistan, gegn innrásinni í Írak. Skil urðu þá víða milli almennings og valdhafa, eins og Íslendingar þekkja þjóða best. Þegar nú hroði hildarleikjanna blasir við, er úr vöndu að ráða með viðbrögð. Stríðsskemmd samfélög manna verða ekki læknuð á augabragði.  Stríð skaða þannig að mannsaldra tekur úr að bæta. Afganistan og Írak eru dæmin.

 

Óháðar hjálparstofnanir eiga engan aðgang að auðmýktu, sveltandi fólki þessarra landa,

Reiðin og örvæntingin setur girðingarnar. Ölmusuaðstoð,sem dreift er undan byssuhlaupi er tortryggð af fólki, sem kynnst hefur vestræna vendinum um árabil. Lái því hver sem vill. Ömurlegt er að þyggja matargjafir frá ríkjum sem lagt hafa heimaframleiðslu matar í rúst.

 

Í Ríga brostu Natókallarnir gegn um tárin nýlega. Þetta var hópefli valdsmanna, sem klöppuðust á axlir. Ekki eru öll stríð töpuð sögðu þeir, ekki framtíðatstríðin ! Enn skal nýrra óvina leitað, enn skal vígbúist var sagt í skálarræðum, enn leitað herfangs, nú í Mið-Asíu

þar sem svarta gullið leynist. Önnur þróunarlönd bíða síns tíma.

 

Íslensku beyglurnar í Ríga voru kindarlegar. Sjálfsmatið er lágt. Þær þekkja friðarþel

eigin þjóðar og bága stöðu sína á heimavelli. Þær vita að Ísland á ekkert erindi í árásarfélag kjarnorkuvelda og brunnmíga í fjarlægum heimshornum. Beyglurnar voru vandræðalegar í Ríga og gengu milli veslugeisla með betliskál. Heima fyrir skín skömmusta þeirra framan í eigin þjóð. Sá dugur er í  Íslendingum að þeir munu brátt losa Natóbeyglur úr valdsstöðum sínum. Ísland mun vonandi takast að losa um aðild sína að árásarfélginu Nató, losa sig undan bandarískri drottnun í utanríkismálum. Sá

dugur er mikilsverður og hann mun víða vekja athygli.  Sá dagur mun koma að á Íslandi verður reist friðarmerki,sem lýst getur víða um veröld.  Á ný munu Íslendingar þá eignast sæmd sína og þokkalegt sjálfsmat.

                             Baldur Andrésson