Fara í efni

BANDARÍKJAMENN VERÐI BÆNHEYRÐIR

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 31.01/01. 02.25.


Á dögunum fylgdist ég með innsetningu Donalds Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Athöfnin tók sinn tíma en var lærdómsrík því ræðurnar og seremóníurnar veittu innsýn í sálarlíf bandarískra stjórnmála; þarna birtist blanda af hefðum og framtíðarsýn verðandi forseta.

Mikil áhersla var lögð á stjórnarskrána og frelsi eða frjálsræði - liberty - og svo einnig á guðstrú. Það var hin kristna trú – sennilega sem pars pro toto - hluti fyrir heild. Samnefnarinn þá hinn göfugi þráður í siðaboðskap allra tíma: Gerið öðrum það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður. Eflaust var það ætlan prestanna sem þarna komu fram að höfða til þess sem háleitast er; biðja almættið um styrk handhöfum hins veraldlega valds til handa, til þess að þeir komi siðlega fram og af sanngirni við alla menn.

Eitthvað fannst mér skorta á að forsetinn nýi meðtæki þennan boðskap til fulls ef marka má ræðu hans. Ef það er rétt metið veitir ekki af að landsmenn hans beini bænum sínum til himins og óski honum alls góðs. Og við sem fjær stöndum mættum síðan biðja þess að Bandaríkjamenn verði bænheyrðir að þessu leyti.

Annars þótti mér athöfnin minna um margt á krýningu konungs eða keisara. Og þegar nýi forsetinn að athöfn lokinni tók að gefa út tilskipanir út og suður – sumt um atriði sem snerta grundvöll stjórnsýslunnar og réttindi einstaklinga og hópa, að ógleymdum náðunum dæmdra manna, var engu líkara en að keisari væri farinn að munda veldissprota sinn.

Um allt þetta er stjórnarandstaðan bandaríska á þingi nánast dæmd til þagnar því fráfarandi forseti hafði leikið sama leikinn og þá ekki síst gagnvart fjölskyldu sinni og pólitískum samherjum sem hann náðaði hvern á fætur öðrum fram á síðustu mínútu í embætti.

Við þetta vakna margar spurningar um merkingu hugtaka á borð við frelsi og lýðræði og um sögulegar hefðir varðandi vald og valdheimildir. Slíkar vangaveltur minna á mikilvægi þeirrar sagnfræði sem leitast við að skýra samhengi sögunnar.

Marco Rúbío nýjan utanríkisráðherra Bandaríkjanna þarf hins vegar enga sérfræðinga til að lesa í svo gagnsær er sá maður, nánast glær.

Þegar hann kom fyrir utanríkismálanefnd Öldungadeildar Bandaríkjaþings áður en hann hlaut staðfestingu sem ráðherra lýsti hann pólitískum ásetningi sínum í þessum opinskáa anda:

“Í stjórnartíð Donalds Trump verða öll meginmarkmið utanríkisráðuneytisins kýrskýr. Stefnan sem forsetinn hefur sett okkur að fylgja er eins ljós og verða má. Hvern dollara sem við eyðum, sérhverja áætlun sem við fjármögnum verður að vera hægt að réttlæta með því að fullnægt sé einu af þrennu eftirtöldu: Gerir þetta Bandaríkin öruggari? Gerir þetta Bandaríkin sterkari? Gerir þetta Bandaríkin auðugri?“

Ekki fylgdi sögunni hvort Rúbíó hafi minnst á sanngirni eða réttlæti eða hvort einhver hafi séð ástæðu til að spyrja út í slíkt.

Í hugann koma orð Johns F. Kennedy þegar hann tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum í janúar 1961. Minni kynslóð eru þau orð minnisstæð eða ef til vill urðu þau okkur minnistæð löngu síðar þegar hugurinn leitaði samanburðar við það sem á eftir kom. Á þessum tíma kraumaði heimsvaldastefna Bandaríkjanna vissulega undir og varð stundum sýnileg, einnig í forsetatíð Kennedys. Það breytir því þó ekki að tónninn í þessari fyrstu ræðu hans á forsetastóli var á þá lund að það skyldu menn gjöra öðrum sem þeir vildu að aðrir menn gerðu þeim. Kennedy minnti á þá valkosti sem mannkynið stæði frammi fyrir; maðurinn byggi yfir tækni og auðæfum til að uppræta fátækt í heiminum en á hinn bóginn gæti hann einnig eytt öllu lífi á jörðu. Okkar væri að velja. Í lokaorðum sínum bað forsetinn um blessun og hjálp til að velja rétt.

Ekki virðist veita af slíkri blessun nú um stundir og hefur reyndar verið svo um alllangt skeið. Þá er bara að vona að góðir Bandaríkjamenn verði bænheyrðir.
Ætli sé ekki óhætt að segja að það yrði okkur öllum í hag?

English version:

THEY NEED TO BE HEARD

Out of curiosity I watched the inauguration of Donald Trump. The ceremony took its time but I presevered because of the insight it gave into „the psyche“ of American politics; the mix of traditions and visions; the future vision of a new President of the United States.

As to be expected great emphasis was placed on the Constitution and the elevation of „liberty“ - but also on religion. Christianity was central - pars pro toto - speaking for all beliefs, the common denominator being the noble thread in the moral message of all times: Do to others what you would have others do to you.
No doubt it was the intention of the priests who spoke to appeal to the most sublime; to ask the Almighty for strength for the holders of secular power, so that they may act morally and fairly with all people.

I must admit that judging from the speech of the new President I felt that something was missing from his full understanding of this message. If that is the case, it would not hurt if his countrymen directed their prayers to the heavens and wished their new leadership some moral guidance. And we who are far away would do well in directing our well-wishes to this effect as well.

In many ways the ceremony reminded of the coronation of a King or Emperor. And when the new President, after the ceremony, began issuing decrees far and wide – some on matters concerning the fundaments of the country´s administration and the rights of individuals and groups, not forgetting all the pardons issued, it looked as if an Emperor had begun to wield his scepter.

The American opposition in Congress is practically doomed to be silent about all this, simply because the outgoing President had played the same game, not least towards his family and political associates, whom he had pardoned one after another for their misdeeds until the last minute of his term in office.

This raises questions about the rule of law and the meaning of fundamental concepts such as freedom and democracy, power and authority. Such speculations remind us of the importance of those experts in historiography who seek to clarify the context of history.

Marco Rubio, the new US Secretary of State, does not require any such experts to be understood, so transparent as he is; almost totally to be seen through.

When he appeared before the US Senate Foreign Relations Committee before being confirmed as Secretary, he expressed his political intentions in the open spirit of his President:

„Under President Trump, the top priority of the United States Department of State will be the United States. The direction [President Trump] has given for the conduct of our foreign policy is clear. Every dollar we spend, every program we fund, every policy we pursue must be justified by the answer to one of three questions: Does it make America safer? Does it make America stronger? Does it make America more prosperous?”

It was not recorded whether Rubio mentioned fairness or justice or whether anyone saw any reason to ask about such things.

The words of John F. Kennedy come to mind when he assumed the presidency of the United States in January 1961. His words are memorable to my generation, or perhaps they became memorable to us much later when our minds sought comparison with what came after. At this time, American imperialism was certainly at work under the surface, often visible to all, also during Kennedy’s presidency. However, that does not change the fact that the tone of his first speech as President of the United States was that people should do to others as they would have others do to them.
There back in 1961 Kennedy reminded us of the choices facing humanity; man had the technology and wealth to eradicate poverty in the world, but on the other hand, man was also capable of destroying all life on earth. The choice was ours. In his closing remarks, the president asked for blessings and help to choose wisely.

Such a blessing does not seem to be forthcoming these days, and has not been for a long time.

One can only hope that the wishes and prayers of fair-minded Americans will be answered.
And one might add that this of course would be to the benefit of all of us.

----------------

--------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/