Bankar í hagsmunabaráttu
Birtist í Morgunblaðinu 28.08.04.
Bankarnir lýsa því nú opinberlega yfir að þeir séu komnir í samkeppni við Íbúðalánasjóð. Þetta þarf engum að koma á óvart, þeir hafa jafnt og þétt verið að færa sig upp á skaftið gagnvart Íbúðalánasjóði. Bæði á neikvæðan hátt, með því að krefjast þess að sjóðurinn verði lagður niður og jákvæðan, með því að bjóða eftirsóknarverð kjör. Þannig byrjaði Íslandsbanki um síðustu áramót að veita svokölluð Húsnæðislán Íslandsbanka þar sem boðið er upp á ýmsa valkosti, óverðtryggð lán, lán í íslenskri mynt, í erlendri mynt eða blöndu af þessu tvennu.
Á dögunum átti svo KB banki frumkvæðið að nýjum íbúðalánum og nú hafa hinir bankarnir fylgt í kjölfar hans. Nýju lánin, sem KB banki kynnti, bera 4,4% fasta vexti og bjóðast til 25 eða 40 ára. Lánað er allt að 80% af verðmati fasteignar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en allt að 60% annars staðar á landinu. Ekkert hámark er á lánsfjárhæðinni en hún verður þó aldrei hærri en sem nemur brunabótamati fasteignarinnar.
Hagsmunir almennings eiga að vera okkar leiðarljós
Bankarnir telja sig vera að gera góðan bisness en samt eru þeir ekki ánægðir. Sameiginlegur talsmaður þeirra, Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir í Morgunblaðinu í gær að samkeppnin á þessum markaði sé jákvæð en bætir því við að það breyti "engu um að það er afar óeðlilegt að fjármálafyrirtæki hér á landi eigi í samkeppni við ríkið sem stærsta lánveitanda á þessu sviði." Hvers vegna skyldi það vera óeðlilegt? Er það vegna þess að lánastofnun með ríkisbakábyrgð getur þegar á heildina er litið boðið upp á betri kjör en aðrir lánveitendur? Ef þessi bakábyrgð væri afnumin segir það sig sjálft að samkeppnisstaða bankanna yrði betri. En almennt yrðu lánskjörin óhagstæðari. Væri það betra fyrir lántakendur? Ef svo er ekki, er þá nokkuð óeðlilegt við það að ríkið hafi þessa lánastarfsemi með höndum? Er óeðlilegt að smíða kerfi sem best þjónar hagsmunum hins almenna borgara? Það er í hæsta máta eðlilegt og reyndar það eina sem er forsvaranlegt að gera.
Landsbyggðin býr við lakari kjör
Nú er það reyndar svo að - alla vega tímabundið – bjóða bankarnir upp á lægri vexti en Íbúðalánasjóður. Það er jákvætt. En ekki er þó öll sagan sögð með þessu. Landsbyggðin býr við lakari kjör að því leyti að fólk þar á ekki kost á eins háum lánum og fólk í þéttbýli. Forsvarskona KB banka var innt eftir því hvers vegna boðið væri upp á lægra veðhlutfall í dreifbýli en þéttbýli. Hún sagði að markaðurinn væri ekki eins virkur til sveita. "Þar sem hann er virkur treystum við okkur upp í 80%, annars staðar ekki enda engum greiði gerður með því." Þetta sagði Helena Jónsdóttir, forstöðukona sölu- og þróunardeildar KB banka, í viðtali við Morgunblaðið.
Hvers vegna skyldi markaðurinn þurfa að vera virkur til að KB banki treysti sér til að veita lán? Svarið er einfalt, aðeins þar sem eignir seljast eru veð einhvers virði. Ég get skilið hvers vegna lánastofnun telur sér ekki hag í að lána til svæða þar sem veðin eru rýr. En lántakanda sem fær lægri lán fyrir vikið er hins vegar varla greiði gerður með þessu fyrirkomulagi. Er það ekki hans hagur að fá sem stærstan hluta af lánsfé til kaupa á íbúð sinni á lágum vöxtum? Þessi yfirlýsing stenst því vart.
Banki vill gleypa okkur með húð og hári
Frumkvæði KB banka að nýjum lánum er mörgu leyti snjall leikur. Skilyrðin fyrir lánveitingum eru nefnilega þau að lántakandi hjá KB banka láni einnig bankanum sína peninga eða stundi regluleg viðskipti við hann. Til þess að fá lán á hagstæðustu kjörunum þarf lántakandinn að uppfylla tvennt af þrennu: hafa greiðslukort í bankanum, láta hann annast útgjaldadreifingu eða varðveita lífeyrissparnað. Með þessu móti gerast lántakendur þegnar bankans að öllu leyti. Og vel að merkja - bankinn fellst ekki á annað en fyrsta veðrétt. Í reynd er því dæminu stillt þannig upp að lántakandinn þarf að velja og hafna; valið stendur á milli Íbúðalánasjóðs eða KB banka.
Jákvætt að lækka vexti – neikvætt að mismuna
Sem áður segir þykir mér það vera jákvætt að vextir séu lækkaðir. Í annan stað er gott að á þessum verðtryggðu lánum skuli ekki jafnframt vera breytilegir vextir: belti og axlabönd sem ég hef nefnt svo. Breytilegir vextir eru nefnilega annað form á verðtryggingu. Að vísu hefði verið æskilegt að opið væri fyrir að lækka þessa vexti á seinni stigum en í rauninni er þó ekkert sem útilokar að svo verði gert.
Það sem er slæmt við þetta nýja fyrirkomulag er að mismunað skuli vera landsbyggðinni í óhag. Þetta segir okkur hvað gerist þegar markaðurinn tekur yfir. Þá ráða lögmál hans, félagsleg sjónarmið víkja fyrir gróðahagsmunum. Í þessu nýja fyrirkomulagi KB banka, sem hinir bankarnir ætla einnig að taka upp, sjáum við vísi að þessu. Slík mismunun hefur ekki enn orðið ofan á í íbúðalánakerfinu á Íslandi sem betur fer. Skýringin er sú að Íbúðalánasjóður er enn við lýði og verður vonandi áfram.
Þörf á jákvæðum viðbrögðum
Íbúðalánasjóður þarf að bregðast við á jákvæðan hátt. Vextir hafa verið of háir á lánum sjóðsins. Þá þarf að lækka. Annars munu áform bankanna ganga eftir. Straumurinn mun liggja til þeirra og þar með sú trygging sem er einna verðmætust í landinu: veð í íbúðahúsnæði landsmanna! Bankarnir eru þegar búnir að eignast veð í sjávarauðlindunum. Nú er komið að húsnæðinu.
Mikilvægt er að fylgjast vel með þessum vendingum á húsnæðismarkaði og í húsnæðiskerfi landsmanna. Hér eru geysilegir hagsmunir í húfi. Bankarnir hafa sýnt að þeir kunna að hugsa um sinn hag. Almenningur þarf að hugsa um almannahag. Þetta tvennt fer nefnilega ekki alltaf saman.