BANKARNIR AÐ HAFA SITT FRAM?
19.06.2008
Ekki hefur verið allt sem sýnist í umræðunni um húsnæðismál á undanförnum árum. Engum hefur þó dulist að bankarnir hafa reynt án afláts að grafa undan Íbúðalánasjóði til þess að komast yfir húsnæðismarkaðinn. Í heimilum fólks er nefnilega að finna öruggustu veð landsins. Flest má yfir fólk ganga áður en það afsalar sér heimili sínu. Fyrst fengu bankarnir veðsetningu kvótans og næst á dagskrá eru híbýli landsmanna.
Bankarnir hafa leitað suður til Brussel í baráttu sinni gegn Íbúðalánasjóði. Þar á bæ sitja sérfræðingar í nefndum og ráðum, jafnvel dómstólum sem hafa það hlutverk að fordæma allt sem truflar gróðastofnanir á markaði; allt sem nokkur grunur getur leikið á að samfélagslegt geti talist skal sett út af sakramenti. Þær litlu leifar sem eftir eru af félagslegu húsnæðiskerfi á Íslandi er að finna í Íbúðalánasjóði og felast þær í því að bakábyrgð ríkisins er á fjármögnun sjóðsins þótt honum sé þó gert að vera sjálfsbær á lánsfjármarkaði. Hann er því engin byrði á ríkissjóði. Bakábyrgðin gerir það hins vegar að verkum að hann á fyrir vikið kost á lánsfjármagni á hagstæðari kjörum.
"Ef Íbúðlánasjóður, þá líka við," hafa bankarnir sagt. Samtök fjármálastofnana hafa í ófrægingarherferð sinni gagnvart Íbúðalánasjóði sértaklega haft horn í síðu 80% lána sjóðsins að ekki sé minnst á þegar lánin voru sögð 90%. Þessi lánshlutföll hafa hins vegar alltaf byggst á misvísandi tali því einsog bent hefur verið á hér á síðunni aftur og ítrekað hafa lánin í reynd aldrei náð þessum hlutföllum.
Tvennt hefur komið þar til. Annars vegar hefur verið hámark á lánum úr sjóðnum en til skamms tíma hefur það hámark verið 18 milljónir en fer nú í 20. Þetta þýðir eftir breytinguna að því aðeins á kaupandi kost á 80% láni að íbúð hans kosti ekki meira en 25 milljónir. Það þykir ekki hátt verð á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjölskylduhúsnæði. Ef húsnæðið er dýrara er hlutfallið að sama skapi lægra.
Hinn tálminn hefur síðan verið veðið sem krafist er að lántakandi veiti. Íbúðalánasjóði hefur verið gert að horfa til brunabótamats væntanlegrar eignar en ekki raunverulegs verðs á fasteignamarkaði. Og þar sem brunabótamat hefur verið lægra en fasteignaverðið hafa lánin verið lægri sem því nemur. Þessu verður nú breytt þannig að horft verður til raunverulegs verðs á fasteignamarkaði og er það mjög til bóta. Þetta getur meira að segja skipt sköpum fyrir margan manninn.
En ríkisstjórnin hefði þurft að ganga lengra. Hún hefði þurft að hækka hámark lána Íbúðalánasjóðs upp í 24 milljónir til þess eins að tryggja að lánveitingar væru í einhverjum takti við raunverulega þróun húsnæðisverðs. Þótt hámarkið hefði verið hækkað á þennan hátt þyrfti kaupandi venjulegs húsnæðis eftir sem áður að leita út á rándýran markaðinn um fjármögnun 20-40% húsnæðisins.
Slíkt hefði hins vegar ekki dugað bönkunum og er það væntanlega til að þjóna lund þeirra að hámarkið skuli ekki vera hækkað meira en í 20 milljónir.
En þar með er ekki öll sagan sögð því Íbúðlánasjóði verður nú gert að veita fjármagni til bankanna til þessara umfram lánveitinga. Með öðrum orðum, með milligöngu Íbúðlanasjóðs fá bankarnir fjármagn með ríkisábyrgð til að lána okkur peninga - á hærri vöxtum en Íbúðalánasjóður gætri gert án þessarar milligöngu!
Þetta hafa menn kallað að gera Íbúðlánasjóð að heildsölubanka!
Hvers vegna þennan millilið?
Ég tel að ríkið eigi ekki að gangist í ábyrgð fyrir bankana án þess að þeim séu settar mun strangari skorður en þeir nú búa við. Þannig ætti bönkunum að vera óheimilt að starfa í senn sem viðskiptabankar og fjárfestingarsjóðir. Þetta er lágmarkskrafa áður en almenningi er gert að gangast í bakábyrgð fyrir bankana.
Ef fer fram sem horfir eru bankarnir smám saman að hafa sitt fram. Ekki er það fagnaðarefni fyrir hinn almenna mann á húsnæðismarkaði.