Bankarnir hafi samráð
Björfgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, birtist á skjánum í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í kvöld talsvert ábyrgðarfullur á svip. Umræðuefnið var lækkun vaxta. Björgólfur kvaðst eygja leið til að ná þessu markmiði. Ég held að flestir hafi búist við því að lausnarorðið væri samkeppni. Til þess var jú leikurinn gerður, þegar ríkisbankarnir voru einkavæddir og Björgólfur ásamt fleirum fenginn sem sérstakur kjölfestufjárfestir: Að stofna til raunverulegrar samkeppni. Samkeppnin, var okkur sagt, myndi færa okkur lægri vexti og betri þjónustu, alla vega okkur sem búum í þéttbýlinu. Nei, nei - í Sjónvarpinu í kvöld var Björgólfur ekki á því að nokkurs væri að vænta af samkeppninni. Nei, nú væri það samvinnan sem færir okkur hagræðið, sagði formaður bankaráðs Landsbankans.
Nú vill svo til að ég er talsmaður samvinnunar og tel að með henni megi ná fram ýmsu neytendum til hagsbóta. En ég verð að játa það hreinskilnislega, að þegar formaður bankaráðs Landsbankans hvetur til samvinnu og samráðs koma mér olíufélögin í hug og hvað það hafði í för með sér fyrir neytandann þegar þau höfðu samráð sín í milli.
Einhvern veginn lyktar þetta af því að nú vilji eigendur bankanna fara að skipta með sér verkum. Einn taki útibúin hér, annar þar og þegar menn síðan hafi orðið sammála um skiptin hér heima, þá geti menn af alvöru snúið sér að því sem hugurinn raunverulega girnist og það er að sjálfsögðu hin margrómaða útrás. Auðvitað finnst mönnum sem komist hafa yfir alla þessa milljarða, hundleiðinlegt að vera að þjónusta einhverjar fámennisbyggðir norður í hafi, miklu skemmtilegra hjóti að vera að gambla með milljarðatugina í útlöndum.
Skyldi þessi þróun vera íslenskum neytendum til góðs?