Fara í efni

BANKARNIR Í LUKKUPOTTI RÍKISSTJÓRNAR-INNAR

Mér þykja viðbrögð forstjóra Kaupþings (http://m5.is/?gluggi=frett&id=52652) við aðgerðum ríkisstjórnarinnar í húsnæðis og efnahagsmálum ótrúlega ósvífin. Aðgerðirnar munu hvorki bjarga fasteignamarkaðnum frá hruni né duga til að rétta stöðu krónunnar. Með þeim duttu bankarnir hins vegar í lukkupottinn. Þeir eru með þessu skornir úr snörunni sem þeir voru komnir í vagna fasteignalána og yfirvofandi fasteignamarkaðskrísu og veitt lausafé frá ríkinu á tíma þegar slíkt er hvergi að fá á frjálsum markaði.

Kaupþing bjó að miklu leyti til fasteignabóluna sem ríkisvaldið, í krafti Íbúðalánasjóðs, býðst nú til að taka á sig skellinn af. Jafnframt slapp bankinn naumlega við mjög óráðleg yfirtökuáform sem hefðu getað riðið honum að fullu. Eftir sem áður gagnrýnir bankinn aðgerðirnar sem ríkisafskipti. Í ofanálag gengur það fjöllunum hærra hjá bankamönnum að Kaupþing hafi gert atlögu að krónunni í fyrradag þegar hún féll um hátt í 4%. Nú fellur krónan aftur í lok dags eftir að hafa verið að rétta úr kútnum. Ætli bankinn standi í því á sama tíma og hann segir ríkisafskipti skapa óstöðugleika? Ég á vart orð yfir þessari framgöngu.
Skattgreiðandi