Fara í efni

BARÁTTAN FYRIR SAMGÖNGUBÓTUM

Oddskard - grjothrun
Oddskard - grjothrun

Frá því ég tók við embætti ráðherra samgöngumála er ég búinn að fara um landið þvert og endilangt til að skoða samgöngumannvirki - vegi, brýr og göng, flugvelli og hafnir. Ég hef fengið enn betri innsýn en áður í það hve mikilvægar góðar samgöngur eru nánast hvernig sem á málin er litið, út frá öryggi, hagkvæmni, þægindum eða efnahagslegum ávinningi.
Skiljanlega vilja íbúar í öllum byggðarlögum búa við sem bestar samgöngur. Sjálfur hef ég mikinn skilning á aðstæðum þess fólks sem býr við erfiðustu vegina. Þar komaVestfirðir fyrst upp í hugann, hrikaleg Hrafnseyrarheiðin kallar á Dýrafjarðargöng, Hálsarnir vestan Þorskafjarðar kalla á göng eða þverun fjarða í Gufudalssveit. Íbúar á þessum slóðum hafa skiljanlega látið í sér heyra.

Skiljanlegt og lofsvert
Það er ekki bara skiljanlegt heldur líka lofsvert og gott til þess að vita að fólk berjist fyrir úrbótum og brýnum framfaramálum sem vegabætur óneitnlega eru.
Hið sama á við um Austfirðinga sem vilja Norðfjarðargöng sem allra, allra fyrst. Þeir benda réttilega  á erfiðleikana við að fara Oddsskarðið yfir vetrarmánuði og hve miklar hagsbætur væru í því fólgnar að geta ekið í gegnum fjallið og sleppa þannig við brattar hlíðar og þröng göngin! Efnahagslega væri mikill ávinningur af göngunum, því um Oddsskarð eru talsverðir olíukrefjandi(!) þungaflutningar. Þá megi í raun segja að Fjarðarbyggð - hafi ekki sameinast sem sveitarfélag fyrr en göngin séu komin.
Upp á allt þetta skrifa ég og vil því göng eins fljótt og auðið er. Það á líka við um nýja Vestmannaeyjaferju og nokkrar aðrar stórframkvæmdir.

Hvatt til dáða
Að undanförnu hefur mér verið sendur ótölulegur fjöldi bréfa með rökstuðningi og hvatningu að ráðast strax í samgöngubætur.

Flest eru þessi bréf málefnaleg og sum hressileg. Hitt finnst mér verra þegar haft er í hótunum eða hafður í frammi hræðsluáróður á forsendum sem ekki eiga sér stoð í veruleikanum.

Einhverjir segja að ég skuli aldrei voga mér að koma til Austfjarða fyrst ekki verður hafist handa um Norðfjarðargöng á næstu misserum. Stoðar engu að vísað sé í nýja samgönguáætlun þar sem segir að stefnt sé að því að Norðfjarðargöng verði komin í gagnið 2018. Nei, menn skuli hefjast handa strax upp úr galtómum ríkissjóði. Annars, og þar kemur að því vafasama, annars eru stjórnvöldin vísvitandi að stofna lífi fólks í hættu.

Rétt skal vera rétt
Þau sem undanfarna daga hafa sent þessa mynd hér að ofan til alþingismanna með dramatískum textum, sem gefa til kynna að göngin um Oddskarð séu lífshættuleg vegna grjóthruns, vita án efa ekki að hnullungurinn sem er sagður hafa fallið úr lofti ganganna, hafði í raun verið settur þarna til hliðar af verktaka sem var að gera við göngin. Hann flutti grjót og hnullunga sem verið var að höggva og hreinsa úr göngunum en setti þá til hliðar á meðan hann var aðathafna sig við þessar framkvæmdir. Þeim sem fóru um göngin var gert þetta ljóst.
Engu að síður fæ ég texta á borð við þennan: „Grjóthrun í Norðfjarðargöngum 14. desember 2011. Maðurinn á myndinni er 187 cm svo þú sjáir hversu stórt berg þetta var. Komdu og keyrðu í gegnum þessi göng og yfir fjallveginn á hverjum degi og krossaðu fingurna í hvert skipti sem þú ferð í gegn um að næsti svona hnullungur lendi ekki á þér." Annar segir:  „Þarf frekar vitnanna við um hve lífshættuleg göngin eru."... Og enn eitt bréf:Þið hafið algjörlega skitið á ykkur þarna á Alþingi með þeirri ákvörðun að fresta Norðfjarðargöngum.Myndirnar sem ég sendi þér með þessum pósti voru teknar 15 des.Vegagerðin fullyrðir að ekkert grjóthrun sé þarna í þessum göngum sem réttlæti að það sé byrjað á nýjum göngum.Erum við þá að sjá ofsjónir eða hvað??!!Ætla vona að þú sért ekki jafnblindum og Vegagerðin,endilega ef svo er,farðu þá að huga að nýjum gleraugum,ekki veitir af!!" Og svo þessi spurning: "...ætla stjórnvöld þessa lands að bíða eftir banaslysi áður en það verður eitthvað gert í málum Norðfjarðarganga? Meðfylgjandi mynd er tekin 14. desember síðastliðinn og er grjóthrun í
Oddskarðsgöngunum alls ekkert einsdæmi."

Sjá svo skýringarpistil á vefsíðu Vegagerðinnar um myndina: http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/2789

Myndin var komin á nokkra vefmiðla þegar Vegagerðin kom sínum skýringum á framfæri á sínum vef en ekki varð ég var við að nokkur fjölmiðlanna hefði áhuga á að skýra hina réttu málavöxtu.
En rétt skal vera rétt. Þess vegna þessi litli pistill.

Frekari skýringar
Nýlega óskaði ég eftir minnisblaði frá Vegagerðinni um öryggi í Oddskarðsgöngum:
Gerð var úttekt á berginu í göngunum 16. og 17. ágúst 2011.  Hana gerðu Matthías Loftsson jarðverkfræðingur frá verkfræðistofunni Mannvit ásamt Gísla Eiríkssyni forstöðumanni jarðgangadeildar Vegagerðarinnar. Niðurstöður athugunarinnar voru þær helstar að ekkert fannst sem talið var það hættulegt vegfarendum að grípa þyrfti til sérstakra ráðstafana. Hverfandi hætta er talin á hruni úr þaki ganganna, í loftinu er einnig öryggisnet og var það lagfært nú í haust til frekara öryggis.  Úr veggjum getur hins vegar molnað og hrunið á nokkrum stöðum þar sem berg er veikt  og steinar oltið niður á vegöxlina og í undantekningartilfellum þaðan inn á akbrautina. Það er þetta sem hefur gerst stöku sinnum undanfarin ár og mun gerast áfram í einhverjum mæli.  Það er ljóst að það lítur ekki vel út að sjá lausa steina í vegköntum eða inni á akbraut í jarðgöngum og gerir þau fráhrindandi og óhrjáleg en ekki hættuleg. Ekki er vitað um nein tilfelli þar sem steinar hafa losnað úr lofti og fallið beint niður á akbrautina. Unnið er að áætlunum um lagfæringar sem minnka hrun úr veggjum og einnig uppsetningu umferðarstýringar, sem má að minnka líkur á að stórir bílar valdi umferðarteppu í göngunum en það mun gerast alloft."