Fara í efni

BARÁTTUKVEÐJUR TIL SJÓMANNA: KVÓTANN HEIM!

Sjómönnum sendi ég baráttukveðjur í tilefni sjómannadagsins. Á þessum degi hefur þjóðin sameinast um að horfa til sjávarins og þeirra sem draga fisk úr sjó, vinna hann, flytja vörur og fólk á legi eða sinna afleiddum störfum sem svo eru kölluð. Ef út í það er farið má segja að tilvera og velsæld okkar allra sé, “afleidd”, sjávartengd, í þessum skilningi, byggir á sjónum og auðlegð hans.

Í þáttunum Kvótann heim (sem sendur er út á sunnudögum klukkan 12 og eftir það aðgengilegt á youtube https://kvotannheim.is/ ) er fjallað um mikilvægi þess að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar og skynsamlega nýtingu hennar. Í nýjasta þættinum, sunnudaginn sjöunda júní, er rætt við tvo valinkunna menn, þá Sveinbjörn Jónsson, gamalreyndan sjómann að vestan, lengi í forystu sjómanna, og Ragnar Önundarson, viðskiptafræðing, sem látið hefur að sér kveða í íslenskri þjóðmálaumræðu um langt skeið. Enginn verður svikinn af því að hlusta á þessa menn leyfi ég mér að fullyrða.

Annars hafa menn ekki alltaf fengið að tjá sig frjálst og óhindrað á þessum degi og þeir tímar hafa verið - og eru enn? – að veldi auðsins er beitt gegn tjáningarfrelsinu þegar kvótahagsmunir eru annars vegar. Það fékk vinur minn og baráttumaður gegn kvótakerfinu, Árni Steinar Jóhannsson, að reyna fyrir átján árum. Um það má lesa hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thegar-arni-steinar-thotti-ogna-kvotakerfinu