Barn síns tíma
Kærunefnd jafnréttismála komst nýlega að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði átt að skipa konu í embætti hæstaréttardómara í stað karls, enda stóð honum til boða kvenkyns umsækjandi sem var ekki einasta jafn hæfur og sá sem skipaður var, heldur hæfari.
Ýmsir hafa látið í sér heyra og gagnrýnt ráðherrann og sagt að hann fari ekki að lögum um jafnrétti og vikið að því að sá er skipaður var sé náskyldur forsætisráðherra sem er eins og allir vita verkstjóri allra ráðherra - og enginn dregur í efa að sé húsbóndi á stjórnarheimilinu. Dómsmálaráðherra svarar fullum hálsi og telur jafnréttislög barn síns tíma (hvað svo sem það nú merkir nákvæmlega) en þau voru víst samþykkt fyrir fjórum árum án nokkurs mótatkvæðis á hinu háa Alþingi. Hann telur óviðunandi fyrir þann sem fer með skipunarvaldið að verða að skipa konu í embætti vegna þess að forverar hans hafi skipað karla, ekki sé hægt að una því að þurfa þannig að velja umsækjanda á tölfræðilegum forsendum. Þar að auki bendir hann á að aðrir ráðherrar, einkum vinstri manna, hafi áður brotið jafnréttislögin og telur að úrskurðir kærunefndarinnar eigi ekki að vera lokaorð, réttara væri að vísa úrskurðum nefndarinnar til æðra stjórnvalds, þ.e. til félagsmálaráðherra.
Þrándur ber fyllstu virðingu fyrir ráðherra sem stendur fast á sínu, svarar fullum hálsi og tilfærir aðskiljanleg rök fyrir máli sínu þegar að honum er vegið - eins þótt rökin séu varla boðleg. Menn hafa að sjálfsögðu fyllsta rétt til að verja rangan málstað eins og réttan og tefla fram þeim sjónarmiðum sem þeim þykja hæfa. Nú er það þannig að jafnréttislög standa að miklu leyti um tölfræði og eiga meðal annars að vera tæki til að breyta því ástandi að karlar einoki öll æðstu embætti landsins. Ráðherrann virðist ekki aðeins hafa sniðgengið tölfræðina heldur líka þá skynsamlegu reglu að ráða fremur þann hæfari en þann sem skyldari (rétta fólkinu) er. Hver maður hlýtur að sjá að það væri hreint út sagt óbærilegt fyrir myndugan ráðherra að neyðast til að breyta hlutföllum milli karla og kvenna í hæstarétti - enda hafa forverar hans ekki gert það svo fullnægjandi sé - að ekki sé talað um að þurfa að velja umsækjanda sem honum þóknast ekki þótt hann sé hæfari. Ráðherra sem vill láta taka sig alvarlega kveinkar sér, sem vonlegt er, undan þeim ósköpum, enda hljóta allir að sjá að slíkur (karl)maður verði að mega fara sínu fram hvað sem öllu nefndafargani líður, eða er eitthvað athugavert við það að dómsmálaráðherra hafi rétt til að víkja sér undan lögum sem eru fjögurra ára ,,barn síns tíma" - annaðhvort eru menn ráðherrar eða ekki? Þrándur hvetur ráðherrann til að standa fast á sínu og ræður eindregið frá því að svona málum sé hægt að vísa til æðra stjórnvalds. Hvaða gagn væri í því að Árni Magnússon félagsmálaráðherra færi að kássast uppá embættisveitingajússu Björns Bjarnasonar? Miklu nær er að vísa umræddu máli til dósmtóla eins og lög gera ráð fyrir. Þrándur hefur fyllstu trú á því að á þeim vettvangi muni Björn Bjarnason ekki láta deigan síga og tefla fram gulltryggum rökum eins og þessum: Svavar Gestsson fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins sáluga braut jafnréttislögin. Ég hlýt að mega það líka.
En meðal annarra orða: getur verið að dómsmálaráðherra sé of stjórnlynt ,,barn síns tíma"?
Þrándur.