BARNALÖG TIL GÓÐS ÞRÁTT FYRIR BREYTINGAR ALÞINGIS
Birtist á Smugunni 04.06.12.
Í burðarliðnum eru nú ný barnalög. Um þau lög er það að segja að þau eru mikil og góð réttarbót fyrir börn og í anda þess sem mannréttindasamtök og samtök sem sinna velferð barna sérstaklega hafa talað fyrir.
Alþingi á að hafa síðasta orðið þegar kemur að lagasmíð. Allt of oft hefur það tíðkast að ráðherrar, þ.e.a.s. framkvæmdavaldið, telja sig geta sagt Alþingi fyrir verkum.
Þetta á að sjálfsögðu að gilda um mig eins og aðra. Mín skoðun á ekki að hafa úrslitaáhrif þótt ég gegni embætti ráðherra. En á sama hátt og þingið getur verið ósammála ráðherra getur ráðherra verið ósáttur við afgreiðslu Alþingis.
Engin mótatkvæði
Það á svo sannarlega við í mínu tilviki varðandi þær tillögur sem velferðarnefnd Alþingis gerði til breytinga á nýju barnalagafrumvarpi sem ég lagði fram undir lok síðasta árs og er nú að fá afgreiðslu þingsins. Því miður átti ég þess ekki kost að vera við atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu þar sem m.a. voru greidd atkvæði um breytingartillögur velferðarnefndar en þær voru samþykktar án mótatkvæða.
Breytingartillögurnar eru einkum tvíþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að dómstólum verði heimilað að dæma sameiginlega forsjá foreldra yfir börnum og að ákvarða lögheimili þeirra. Hatrömm forsjárdeilumál eru sem betur fer undantekning frá þeirri meginreglu - sem er hin eftirsóknarverða að foreldrar fari í sátt með sameiginlega forsjá með börnum sínum. En þessi undantekningarmál keyrast oftar en ekki í fastan hnút og eru mjög vandmeðfarin. Ég tel að í lengstu lög eigi að forða því að foreldrar haldi inn í dómsal með slík deilumál því það er ekki farvegur sátta. Þvert á móti gengur dómsmálið út á að sýna fram á vanhæfi hins foreldrisins. Erfitt er að ímynda sér að það sé barni til góðs að dæma sameiginlega forsjá í málum þar sem foreldrarnir geta ekki talast við. Skyldubundinn sáttafarvegur - og ég ítreka skyldubundinn sáttafarvegur - gengur út á að finna snertifletina - hið jákvæða í samskiptunum til að byggja á. Þeir sem til þekkja benda á að með sáttameðferð af þessu tagi megi ná meiri árangri en margur heldur. Það sýni reynslan.
Vantreysti dómstólaleið
Í umræðunni um þessi mál - sem furðu fáir hafa reyndar tekið þátt í, ef undanskildir eru félagar í samtökum um foreldrajafnrétti og samtökum forsjárlausra feðra sem kenna sig við ábyrgð - hefur stundum verið sagt að afstaða mín mótist af því að ég treysti ekki dómstólum í þessum málum. Það er nokkuð til í því. Ég treysti illa dómstólum til að fara með þetta vald enda er langt frá því að reynslan erlendis frá sýni að það sé heppilegt fyrirkomulag að draga foreldra inn í dómsal til að fá þar úrskurð. Ég hef séð afleiðingar þess í starfi mínu sem ráðherra dómsmála og hefur það orðið til þess að styrkja mig í þessari afstöðu.
Hin breytingartillaga velferðarnefndar sem ég gagnrýni snýr að þeim möguleika að beita lögregluvaldi gegn börnum. Það ákvæði í lögum sem heimilar að lögregla fari inn á heimili til að ná í barn með valdi til að koma á umgengni hafði ég gert tillögu um að yrði numið brott úr lögum. Þessu hefur Alþingi nú hafnað þrátt fyrir gagnrýni sem fram hefur komið á þetta fyrirkomulag af hálfu UNICEF, Barnaheilla, Umboðsmanns barna og Mannréttindaskrifstofu Íslands, auk þess sem barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur viðrað áhyggjur af framkvæmd þessa lagaákvæðis og hvatt íslensk stjórnvöld sérstaklega til að gæta að því að hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi. Rétt er að taka fram að eftir sem áður eru heimildir í barnaverndarlögum til að fara inn á heimili ef nauðsyn krefur til að vernda barn, s.s. gegn ofbeldi eða vanrækslu. Það er hins vegar að mínu mati ekki forsvaranlegt að senda lögreglu inn á heimili til að ná í barn, óháð því hver forsagan er. Valdbeitingarúrræði af þessu tagi er aldrei réttlætanlegt gagnvart börnum.
Þörf á nýjum lausnum
Talsmenn breytingartillagna velferðarnefndar Alþingis vísa í reynslu erlendis frá og sérfræðinga hér innan lands. Um þetta vil ég segja að þessi mál eru afar umdeild en sú reynsla sem ég hef fengið sem ráðherra af þessum málum hefur sannfært mig um að bæði dómstólar og velferðarkerfið eru enn illa í stakk búin að finna þessum málum farsælan farveg. Þess vegna þarf að leita nýrra lausna. Skyldubundin sáttaleið er að mínu mati tvímælalaust sá farvegur sem er heilladrýgstur fyrir börnin. Þessi farvegur hefur verið í mikilli þróun og lofar góðu um árangur.
Á Íslandi er sameiginleg forsjá meginreglan við skilnað foreldra og í yfir 92% tilfella er það niðurstaðan. Í þeim tilfellum sem foreldrar deila nást oftast sættir áður en til kasta dómstóla kemur. Ég er sannfærður um að með aukinni sáttameðferð getum við dregið úr þessum átakamálum. Það á að heyra til algerra undantekninga að stigið sé með forsjármál inn í dómsal. Og þegar þangað kemur er lögþvinguð samvinna tæplega til góðs fyrir barn. Um það hefur deilan staðið.