BARNAVERNDAR-MÁL EIGA BETRA SKILIÐ EN AÐ RÁÐIST SÉ GEGN EFTIRLITS-AÐILUM
Sæll Ögmundur. Takk fyrir góða og tímabæra grein þína um fréttaflutning af barnaverndarmálum. Ég var rétt í þessu að lesa einkar einkennilega grein eftir Auði Jónsdóttur á vef Kjarnans, en hún virðist ímynda sér að ábending þín í lok greinarinnar um möguleg tengsl blaðamanns Kjarnans og aðila sem barnaverndarmálum - að þarna sé að finna tengsl ekkert síður en annars staðar - sé megininntakið í umfjöllun þinni. Það er afskaplega undarlegur málflutningur, órökvís og óheiðarlegur, og mér finnst þessi mikilvægi málaflokkur eiga betra skilið en slíka útúrsnúninga.
Maður veltir fyrir sér hvað býr að baki. Kannski einhver tengsl höfundarins. Hver veit? (Höfundinum gefst hér með leyfi til að túlka þessa athugasemd mína sem megininntakið í þessum skrifum. Hún getur svo lögsótt mig í kjölfarið ef hún vill.) Meginatriði þessa máls held ég að hljóti að vera það, að við eigum að geta gert þá kröfu að þeir sem falið er eftirlit með stjórnvöldum sinni því eftirliti af kostgæfni og gefist ekki upp jafnvel þótt umrædd stjórnvöld ráðist gegn þeim með óvægnum hætti og beiti fyrir sig alls kyns meðulum, oft óvönduðum. Nú þekki ég ekki sérstaklega til þessa máls, en einhvern veginn hefur mér sýnst það snúast um einmitt þetta og hinar óvægnu árásir á Braga Guðbrandsson séu einmitt leið til að að koma á hann höggi vegna þess að hann og stofnunin sem hann stýrir hefur ekki fallið í gryfju meðvirkninnar. Það er nefnilega því miður óvanalegt að eftirlitsaðilar vinni störf sín af heiðarleik og kostgæfni. Miklu algengara er að þeir séu meðvirkir með þeim sem þeir eiga að hafa eftirlit með. Maður hefði haldið að þeir sem vilja bætta stjórnsýslu, aukið gagnsæi og betra siðferði í stjórnsýslunni ættu að fagna því þegar svo óvenjulega ber við að eftirlitsaðili sinnir hlutverki sínu almennilega. Fólk getur talað fjálglega um "nýtt Ísland" en svo lengi sem alvöru eftirlit með stjórnvöldum, sem gjarna hneigjast til valdníðslu og spillingar, er ekki kjarni þeirrar nýju hugsunar vil ég nú frekar búa á því gamla. Því eitt er verra en samtrygging og spilling og það er samtrygging og spilling undir fögru yfirborði falskrar fagmennsku og gervisiðgæðis.
Þorsteinn Siglaugsson