Fara í efni

BAUGFINGUR, SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN OG SAMFYLKINGIN

Alveg er ég hissa á því hve lítið hefur verið rætt um innkomu Sjálfstæðisflokksins í 365 miðla, fjölmiðlana sem forsystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa uppnefnt sem Baugsmiðla og þannig gefið í skyn að þeir hljóti að vera undirgefnir eigendum sínum. Vissulega hefur þetta verið rætt en ótrúlega lítið þar sem um það er að ræða að stórkanónum í Sjálfstæðisflokknum er nú hverri á fætur annarri komið fyrir í lykilstöðum þessa fjölmiðlaveldis, sem jafnan hefur verið talið standa nærri Samfylkingunni. Í Silfri Egils um síðustu helgi sagði einhver, gott ef það var ekki Egill sjálfur, að auðvitað hefði mátt vita að þessir stórkapítalistar væru Sjálfstæðismenn en ekki í Samfylkingunni. Þetta er alrangt. Ef ég væri markaðssinni myndi ég eiga í stórvandræðum með að gera upp á milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar því að mínu mati eru þessir flokkar báðir til hægri í pólitík. Mynstrið hér á landi er að verða svipað og í Bretlandi. Breskir frjálshyggjumenn hafa ekkert síður hallað sér að Blair en breska Íhaldinu. Egill á því ekkert að gefa sér í þessu efni um hvar stórkapítalið íslenska hreiðrar um sig. .
Kveðja,
Haffi

Sæll og þakka þér bréfið. Nokkuð hefur verið rætt um þetta og skrifað. Það hef ég gert sjálfur, m.a. í Morgunblaðsgrein nýlega, undir heitinu Sjálfstæðisflokkurinn dregur sér baug á fingur, sbr. HÉR.