BAUGUR OG SAMFÉLAGIÐ
Jón Ásgeir Jóhannesson mætti í viðtal á Stöð 2 í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar sem vísaði öllum ákæruatriðunum í Baugsmálinu frá nema átta – og er það sem eftir stendur einna helst meint brot á tollalögum vegna innflutnings á fáeinum bifreiðum og kannski einum sláttuvélartraktor, ef ég man rétt. Jón Ásgeir var yfirvegaður í viðtalinu, já svo yfirvegaður var hann á þessum ágæta degi að hann var ekki einu sinni tilkippilegur í að tjá sig um æskilega brottrekstra og hagræðingu hjá lögreglunni sem hann hefur þó haft miklar skoðanir á að undanförnu. Margboðað skaðabótamál Baugs á hendur íslenska ríkinu bar örlítið á góma í viðtalinu en einnig í því máli var Jón varkár. Hann vildi ekki nefna neinar upphæðir, ekki td. hvort milljarðarnir sem hugsanlega yrðu sóttir í greipar ríkissjóðs yrðu einungis 5 eða kannski jafnvel 40. Á hinn bóginn upplýsti hann að öll mundi skaðabótasumman renna aftur til samfélagsins, til samfélagslegra verkefna. Og ágætir fréttamenn sem viðtalið tóku hjálpuðu okkur að skilja hvert Jón væri eiginlega að fara. Jú, annar þeirra sagði að hugsanlegar skaðabætur mundu koma úr okkar eigin vasa, úr ríkissjóði, og til okkar skyldu þær aftur renna. Jón tók undir þessa prýðilegu skýringu og ekki er að efa að margir eru á því að falleg hugsun og rausnarleg liggi að baki fyrirhugaðri ráðstöfun fjárins.
Það er þess vegna afar leitt frá því að segja að þessi hugsun féll mér ekki í geð og þetta með hringrás skaðabótanna minnti mig aðeins á jólasveinana í Stjórnarráðinu þegar þeir seldu Landssímann okkar í sumar. Eftir söluna komu þeir færandi hendi til okkar, hlaðnir gjafaloforðum upp á söluandvirðið – gjafaloforðum til okkar sem áttum Landssímann og vildum reyndar velflest alls ekki selja hann. Sá er hins vegar munurinn á þeim á Stjórnarheimilinu og Baugsheimilinu að þeir fyrrnefndu eiga að sinna samfélagslegum málum, til þess eru þeir kjörnir. Það hefur hins vegar enginn kosið Baugsmenn til þess að ráðstafa fjármunum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, hvorki til þess að byggja upp nýtt hátæknisjúkrahús eða þá öflugri efnahagsbrotadeild en þá sem nú er starfandi - svo að dæmi séu tekin. Rétturinn til skaðabóta hlýtur að vera þannig hugsaður að bæturnar renni til þeirra sem hafa skaðast og í þessu tilviki þá til Baugs og þeirra einstaklinga sem hafa hugsanlega verið hafðir fyrir rangri sök um langt skeið. Ég hef enga trú á því að réttlætiskennd þjóðarinnar sé svo brengluð að hún hafi minnsta áhuga á að þiggja til baka réttlátar skaðabætur til þolenda óréttlætis þótt vera kunni auðvitað að hugsun þolendanna sé falleg. Það er málinu óviðkomandi. Samfélagið ber nefnilega ábyrgð gagnvart Baugi, rétt eins og öðrum fyrirtækjum og einstaklingum í landinu. Og þá ábyrgð ber að virða skilyrðislaust.
Svona horfa nú málin við mér en vel á minnst, af því að þeir Baugsmenn eru nú umsvifamiklir í versluninni í landinu, hvernig skyldi standa á því að vöruverð hækkar þrátt fyrir stöðuga styrkingu krónunnar? Ég hefði haldið að slíkt ástand ætti að birtast í lægra vöruverði, í verðhjöðnun en ekki í verðbólgu. Það væri verðugt verkefni fyrir aðstandendur Baugs að gefa þessu gaum hið allra fyrsta en gleyma öllum vangaveltum um samfélagslega útdeilingu á hugsanlegum skaðabótum. Slík útdeiling er ekki í þeirra verkahring og stangast á við ábyrgð samfélagsins gagnvart fyrirtækinu. Öðru gildir um verðlagið í landinu, vöruverðið og verðbólgustigið sem snertir sannarlega alla landsmenn. Þar ætti Baugur að taka ærlega til hendinni - lækkun vöruverðs ætti að vera samfélagslegt verkefni fyrirtækisins. Slíku átaksverkefni yrði þjóðin afar fegin og það ættu þeir að vita best sem stofnuðu verslunarkeðjuna Bónus á sínum tíma
Þjóðólfur