Beðið eftir "réttu" aðilunum
Sjálfstæðisflokkurinn hýsir helstu áhugamenn landsins um einkavæðingu samfélagsþjónustunnar. Innan annarra flokka hafa verið nokkrar efasemdir um þessa stefnu, þótt í mismiklum mæli sé. Sú var tíðin að í Framsóknarflokknum var að finna marga helstu talsmenn samvinnuhugsjónarinnar í landinu. Sú tíð er löngu liðin. Framsóknarflokkurinn stendur í sumum efnum fullt eins langt til hægri og harðdrægustu markaðshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum enda hefur honum verið lýst sem skúffu í skrifborði Sjálfstæðisflokksins.
Spillingarvefir spunnir sem aldrei fyrr
Fyrr á tíð var Framsókn aldrei laus við ásakanir um spillingu. Svo er enn. Reyndar hefur Framsóknarflokkurinn sennilega aldrei spunnið spillingarvefi eins ákaft og nú síðustu árin í ríkisstjórnarsamstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokkinn. Enda kjöraðstæður við einkavæðinguna. Framsókn hefur jafnan haft næmt auga fyrir því að fá pólitískan ávinning út úr sölu ríkiseigna. Alræmdust var sala bankanna hvað þetta snertir. Í stað þess að bjóða þá út á hlutabréfamarkaði krafðist flokkurinn þess að gengið yrði til samninga við svokallaða kjölfelstufjárfesta. Allir sáu hvað hékk á spýtunni eftir að fyrirtæki, sem kennd hafa verið við Framsóknarflokkinn og með marga helstu forkólfa hans innanborðs, höfðu klófest annan ríkisbankann og hagnast um milljarða á kostnað skattborgaranna.
Vinnulag hinna pólitísku handlangara
Nú er Framsókn greinilega farin að stúdera hvern pólitískan ávinning hún getur haft út úr sölu Landssímans. Í fjölmiðlum er greint frá því að hann verði seldur í heilu lagi. Þetta er dæmigert vinnulag hinna pólitísku handlangara.Við almennt hlutafjárútboð er erfiðara um vik fyrir þá að gerast sýnilegir velgjörðarmenn. Slíkt er auðveldara í samningum við Einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, sem starfar samkvæmt hennar forskrift. Eins undarlega og það kann að hljóma eru framóknarmenn síður feimnir við pólitískt spillingarmakk en sjálft Íhaldið. Fyrir fáeinum dögum var haft var eftir Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, helbláum starfsmanni nefndarinnar, að pólitískar ákvarðanir um tímasetninigu og tilhögun sölu Landssímans lægju ekki fyrir. Því væri ekki hægt að hefja söluferlið. Í Fréttablaðinu í dag segir Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, þetta vera rangt. Orðrétt er haft eftir Hjálmari: "Ákvarðanir um að selja Landssímann liggja fyrir og það er stefnt að sölu allra bréfa Símans til eins kaupanda. Það er beðið eftir réttu tilboðunum." Það er nefnilega það.
Og bankamálaráðherrann, Valgerður Sverrisdóttir, bætir við: "Það er ekkert því til fyrirstöðu af hálfu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins eða framsóknarmanna yfirleitt að selja Landssímann". Hér er tekið nokkuð stórt upp í sig fyrir hönd framsóknarmanna almennt.
Margir ásælast gróðann
Árum og áratugum saman hefur Landssíminn skilað milljarða hagnaði í ríkissjóð. Vissulega er það skiljanlegt að til sé fólk sem ásælist þessa peninga. Það sem erfiðara er að skilja er að stjórnmálamenn skuli ekki taka hlutverk sitt sem hagsmunagæslumenn fyrir hönd almennings alvarlegra en svo, að þeir láti pólitíska og í sumum tilvikum persónulega hagsmuni stjórna sér. Svo er hitt að engu máli virðist skipta þótt reynslan af einkavæðingu sé iðulega mjög slæm. Engu að síður halda menn áfram að mæra hana. Það minnir á orð Philips Bowyers, aðalritara Alþjóðasamtaka póst- og símamanna, á málþingi á vegum BSRB fyrir fáeinum árum. Hann staðnæmdist við þá staðreynd að íslenski Síminn byði upp á ódýrustu símaþjónustu í heiminum. Hann fór yfir samnaburðartölur um framleiðni hjá opinberum símafyrirtækjum annars vegar og einkavæddum hins vegar og bar einnig saman verðlagningu.
Það verður að hlusta á rök
Yfirleitt voru tölurnar fyrirtækjunum í almannaeign í hag. Í kjölfarið var Bowyer spurður hvers vegna haldið væri áfram að einkavæða. Hann sagði þetta skýrast af hagsmunum en einnig tísku: Allir væru gera það. "Stundum finnst mér við hafa verið að hrópa upp í vindinn. Við höfum lagt málin fram, sannað hitt og þetta, en af því að menn hafa þegar ákveðið sig hefur það enga þýðingu. Við höfum ásamt félögum okkar í Evrópu dregið úr þessari hreyfingu til einkavæðingar. Stundum vanmeta menn hvað við gerum,en ..."