Fara í efni

BEINT OG MILLILIÐALAUST

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 28.10.12.
Ágætur maður sagði einhverju sinni að hann hefði mikla trú á beinu lýðræði með einni undantekningu þó: Þjóðin virtist ófær um að kjósa til þings og sveitarstjórna. Mér fannst þetta nokkuð eitraður brandari. Öðru hvoru hefur þessi hugsun leitað á mig. Gæti verið eitthvað til í þessu napra háði; að eitthvað færi handaskolum þegar kosið er til þings og sveitarstjórna?

Í slíkum kosningum er kosið um flokka en ekki beint um málefni. Vissulega eru stjórnmálaflokkar merkisberar málefna. Þeir gefa sig ýmist út fyrir að vera málsvarar einstaklingshyggju eða félagshyggju, þeir segjast leggja mikið upp úr því að virkja sem best markaðslögmálin til verðmætasköpunar eða þeir segja að samfélag jafnaðar stuðli að réttlæti og stöðugleika og sé betur fallið til að skapa velsæld en samfélag ójafnaðar. Svo segjast þeir vilja vera innan eða utan Nató, með eða á móti verðtryggingu, hlynntir eða andsnúnir núverandi kvótakerfi o.s.frv.

En hvað með umdeild verk á liðnum árum? Hefðu bankarnir verið einkavæddir og seldir ef þjóðin hefði verið spurð beint um það? Eða kvótakerfið, hefði því verið komið á ef þjóðin hefði verið spurð? Hefði orkuframleiðsla á Reykjanesi verið seld út fyrir landsteinana ef spurt hefði verið um það sérstaklega? Og hvað með sjúklingagjöld og einkavæðingu í heilbrigðiskerfi? Ég held að ekkert af þessu hefði verið gert ef við hefðum búið við beint lýðræði.

Um daginn var spurt um viðhorf til tiltekinna þátta í stjórnarskrá.

Svörin voru um margt skýr.

Áhugi er á því að í stjórnarskrá landsins skuli kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum, vilji er til að styrkja ákvæði um beint lýðræði, jafna vægi atkvæða í kosningum, auka hlut persónukjörs og standa vörð um þjóðkirkjuna. Síðast en ekki síst vill fólk að tillögur Stjórnlagaráðs verði vinnuplaggið sem unnið verði út frá við breytingar á stjórnarskránni.

Takmarkanir þessarar þjóðarkönnunar voru svo aftur hinar sömu og þær takmarkanir sem voru á spurningum Alþingis, sem beint var til þjóðarinnar. Þar var t.d. ekki spurt hvort fólk væri sátt við takmarkandi heimildir til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu hvað varðar fjármálaleg efni eða þjóðréttarlegar skuldbindingar, en þessar takmarkanir útiloka að þjóðin geti krafist atkvæðagreiðslu um fullveldisafsal, nefskatt og Icesave!

Ekki var heldur spurt hvort fólk væri sátt við að afnema úr stjórnarskrá heimild til að setja takmörk við eignarhaldi útlendinga á landi. Þannig að um einstök atriði af þessu tagi - sem eru mikilvæg - höfum við ekki upplýsingar.

Þessi atriði munu að sjálfsögðu verða á vinnsluborði Alþingis þegar tekið verður til hendinni um framhaldsvinnu við smíði nýrrar stjórnarskrár. Þá þarf að gera greinarmun á því sem spurt var um beint og milliliðalaust og hinu sem aldrei hefur verið spurt um.