BENT Á HIÐ AUGLJÓSA
02.04.2012
Í Silfri Egils í gær benti ég á að þegar einstaklingar eða fyrirtæki fengju að sýsla með auðlindir þjóðarinnar - fjöreggin - þá hvíldu á þeim lagalegar og siðferðilegar skyldur. Ef þær skyldur væru brotnar, þá væri ekki um annað að ræða en svipta viðkomandi öllum leyfum.
Þetta ætti til dæmis við um sjávarútvegsfyrirtæki sem uppvís yrðu að því að fara á bak við gjaldeyris- og skattalög og hlunnfara sjómenn.
Í mínum huga ætti slíkt leyfissvipting að vera bundin í lög og því mikilvægt að við setningu nýrra laga um fiskveiðistjórnunarkerfið og auðlindagjald verði skotið inn lagagrein þessa efnis.
Skylt þessu er atriði sem einnig kom til umræðu í þættinum í gær, er að nýta beri ákvæði í lögum um öfuga sönnunarbyrði varðandi eignir einstaklinga sem uppvísir hafa orðið af glæpum í ávinningsskyni. Í stað þess að láta sitja við það eitt að dæma slíka aðila til sektar eða fangelsisvistar verði eignir þeirra gerðar upptækar nema þeir geti sýnt fram á að þeir hafi aflað þeirra með lögmætum hætti. Þetta er farið að gera í sífellt ríkari mæli víðs vegar um heim og mikilvægt að mínu mati að við gerum slíkt hið sama. Þannig gangi einstaklingur sem dæmdur hefur verið fyrir mansal, handrukkun, peningaþvætti eða annað fals í auðgunarskyni ekki inn í lúxusvillurnar og allan munaðinn eftir fullnust refsingar eins og ekkert hafi í skorist.
Ég hef orðið var við sterk og jákvæð viðbrögð við þessari umræðu bæði hvað varðar leyfissiptingu þegar handhafi leyfis kemur í bakið á almenningi með því að hafa fé af samfélagi sínu, og einnig hinu að þeir sem hagnast á glæpum verði sviptir illa fengnum auði .
Hér er náttúrlega ekki verið að gera annað en benda á hið augljósa. Undir okkur er svo komið að sjá um lagasetnnigu og framkvæmd.
Fréttir RÚV: http://ruv.is/sarpurinn/frettir/01042012-5
Silfur Egils: http://www.ruv.is/sarpurinn/flokkar/silfur-egils
Eyjan.is: http://eyjan.is/2012/04/01/utgerdir-sem-brjota-log-og-ganga-gegn-almannahagsmunum-verdi-sviptar-veidileyfum/