Fara í efni

Stærsta álver Alcan!

Í “the ringsider” blaði London Metal Exchange (LME) frá 13.mars 2007 stendur :Skandinavía er kannski eini staðurinn í Evrópu þar sem álbræðslur geta enn þrifist. Ísland býr yfir meiri vatnsorku en það getur notað, svo að það  þyrstir í að fá orkufrekan iðnað og hraðar sér að byggja álbræðslur.

Talsmaður Norsk Hydro Thomas Knutzen skrifar: "Ísland er fyrirmynd fyrir heimsmynd okkar. Það býr yfir mikilli orku og lítilli innanlands þörf. Qatar, sem á gas er í sömu aðstöðu. Þaðan getum fullnægt Evrópu og Asíu. Fyrir þessi lönd er aluminium framleiðsla eins og að flytja út frosna orku.” Upplýsingar um stórkostlega orku þessa eylands hafa sannarlega hrifið. Mótmæli IRN,

International river network og fleiri hafa mátt sín lítils, þó að landakortið sýni að hér er ekki rúm fyrir stórfljót.

Í Alcan facts 1.mars 2006 eru taldar upp 22 álbræðslur í 11 þjóðlöndum. Tvær framleið 525 og 550 kt/y en þar af er hlutur Alcan um helmingur 265 kt og 220 og í einni eiga þeir fjórðung þ.e. 101 kt. Alma Í Quebec framleiðleiðir 408 000 tonn, sú stærsta í einkaeigu Alcan. Sú næsta þar á eftir er með 277 000. Samkvæmt þessu er Ísal á góðu róli meðal 7 álvera sem Alcan á alveg og framleiða frá 164000 upp í 226000. Á þessari síðu er hvorki  talað um að stækka eða loka Reykjavík (ISAL)( það kalla þeir álver sitt í Straumsvík).Hins vegar er sagt frá því að loka eigi tveimur bræðslum  Lannemezan í Frakklandi og Steg í Sviss. Framleiðsla þeirra var 44 000 og 55 000. Frá þessum fyrirætlunum er líka sagt sem markverðustu ákvörðunum Alcan á árinu 2005 (heimild JOM nóv.2006). Þeir hafa þegar lokað Steg en fara sér hægt í að loka Lannemezan. Hófu að draga úr rekstri á  sl. ári en hætta í júní 2008.Ekkert óðagot þar á bæ.

Alcan ætlar að eiga 20% í 350 000 væntanlegri álbræðslu í Sohar, Oman og líka að færa út kvíarnar í Cameroon og Orissa í Indlandi. Í Kína eru þeir svo lítillátir að eiga 77 kt eða helming í Qingtongxia álverinu, en stefna hærra.

Lokun álvera í Evrópu og N-Ameríku er vegna raforkuverðs, sem nemur þar 25 -30% af kostnaði. Ísal fellur ekki þar undir. Hagur Hafnarfjaðar er ekki í hættu með jafn góða og hagkvæma framleiðslu af áli og álblöndum. 

” Bara átta upp á líf og dauða”. Segir Rannveig Rist í Víkurfréttum 22.mars 2007. Hún segir Á BLS.8: ”Framsetningin á ýmsu er líka oft ansi skrýtin, T.a.m. er mikið talað um okkar álver sem álbræðslu sem er náttúrulega áróðurskennt því það er engin álbræðsla á Íslandi. Við erum að starfrækja hér álver sem framleiðir ál úr súráli. Þau sem nota orðið álbræðsla vonast kannski til þess að álbræðsla hljómi frumstæðara en álver og í þessu tala margir gegn betri vitund”.

Ég fletti upp á orðinu smelter en Ísal er hvarvetna flokkað undir smelter. Í ”Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi” frá 1984 segir: smelter n. 1.málmbræðslumaður, málmbræðslueigandi. 2.málmbræðsla, málmbræðslufyrirtæki. 3.málmbræðsluofn.

Álver ætti betur við þau iðjuver, sem vinna úr áli. Vissulega er álver sakleysislegra orð en álbræðsla sem er lýsandi. Til að kynna sér ferilinn bendi ég á t.d. www.aluminium.org ( production/smelting ).Ég á reyndar svarta álmey sem mér var gefin á fyrstu árum Ísal. Þar sem álið hafði storknað á sérkennilegan hátt og athugull starfsmaður litaði svart og gaf mér. Hvernig væri að eignast álver í fyrrnefndri merkingu. Kínverjar fá t.d. að búa til stél á Boeing við gætum látið okkur nægja eitthvað minna. Alcan framleiðir sinn álpappír úr endurunnu áli sem nú er um 19% af heimsframleiðslu þeirra. Standa öðrum framar þar.

Ál myndar 8% jarðskorpunnar og er í iðnaði unnið úr bauxiti , sem er rauður leir er myndaðist fyrir allt að 500 milljón árum. Bauxit er hreinsað og þarf 4-5 tonn til að gefa 2 tonn af alumina, sem gefa síðan 1 tonn af áli. Alumina er samband súrefnis og áls og því kallað súrál á íslensku. Það er því sem er skipað til Íslands.  Hér fer það gegnum framleiðsluferil þar sem rafstraumur klífur súrálið í súrefni sem binst kolefni sem CO2 og ál í fljótandi formi. Í mínum bókum er talað um “molten alumininium” þ.e. brætt ál.

Hvað skeður ef einhvern tíma kemur að því að greitt verður kolefnisgjald fyrir flutning súráls með skipum frá Ástralíu, Guinea eða Surinam? Eða þegar kemur að því að  kaupa kolefniskvóta.  Verðið á honum hefur fjórfaldast frá áramótum frá 6 evrum upp í 23 tonnið.. Hvað losnar mikið af gróðurhúsaloftegundum, þegar grónir árbakkar fara undir vatn?  Það er margs að gæta.

“Að ljúga að öðrum er ljótur vani að ljúga að sjálfum sér hvers manns bani”.

Bergþóra Sigurðardóttir,
Strikinu 10, 210 Garðabæ

bergkristall@simnet.is