Fara í efni

BERI MAÐURINN Í NEÐANJARÐARLESTINNI

DV
DV

Birtist í DV 06.06.18.
Einu sinni var maður í New York sem fór í neðanjarðarlest þar í borg seint um kvöld. Hann var gríðarlega vel klæddur, með gullúr og á gullskóm og hann var mikið við skál. Mjög mikið.
Nema hvað þessi flott klæddi maður sofnaði í lestinni. Og svo fast svaf hann að hann varð einskis var þegar hann var rændur. Hann var eins og opinn konfektkassi fyrir þjófa. Ekki var nóg með að tekið væri af honum  Rólexúrið gyllta og gullskórnir heldur fötin öll. Og þegar hann loksins vaknar er hann á nærbuxunum einum.

Fáráðlingar fá enga meðaumkun

Nú voru góð ráð dýr. En einu þóttist hann geta reiknað með, nefnilega að hann ætti samúð allra fyrir hve illa hann hafði verið leikinn. Og þarna kom hann á nærbuxunum inn á kontór brautarvarðanna. Þeir horfðu á hann í forundran en ekki var að sjá vott af meðaumkun í viðmóti þeirra. Allt annað skein úr andlitum þeirra: Hvílíkur fáráðlingur, fullur á nærbuxunum einum; hafði lagt sig til svefns í neðanjarðarlest í sjálfri miðborg glæpanna og það um miðja nótt.

Hlutskipti Íslendinga?

Svona verður litið á Íslendinga þegar við verðum búin að tapa öllu frá okkur, landinu og orkulindunum. Óneitanlega bregður manni í brún þegar maður verður þess áskynja að á bak við umdeild virkjunaráform á Vestfjörðum eru erlendir fjárfestar sem vilja maka krókinn. Á meðal Íslendinga er gamalþekktur áhugi á slíku en einhvern veginn verður þetta skýrara í hugum okkar þegar eignarhaldið er komið út fyrir landsteinana og framtíð íslenskra náttúruperla þannig að viðfangsefni í kauphöllum heimsins.

Eignarhald á landi til útlanda

Sama er nú að gerast með sjálft landið, eignarhald á því. Breskur auðkýfingur safnar jörðum á norð-austurlandi einsog börnin skrautkúlum í perluband. Vopnafjörðurinn er að hverfa ofan í vasa hans en þar voru Grímsstaðir fyrir - stórjörðin sem ríkisstjórn Íslands reyndist of smá til að festa kaup á þrátt fyrir áskoranir úr öllum kimum þjóðfélagsins.
Í Fljótum er hið sama að gerast. Þar eru auðmenn að ná til sín eignarhaldi á heilli sveit.  Hvað næst, hvenær kemur að Mývatnssveit og Þingvallasveit? Það er auðvelt að kaupa Ísland og gera okkur öll að leiguliðum í eigin landi. Það þarf ekki annað en svoldinn skammt af ófyrirleitni kaupandans og græðgi seljandans og þá er björninn unninn.

Lagabreytingu í haust!

Hve lengi ætla stjórnvöld að sofa á sinni vakt? Á þingi eru tilbúin þingmál frá fyrri árum til að snúa vörn í sókn. Nú þarf að hefjast handa og það strax. Fyrstu þingmál í haust eiga að snúast um þetta og fyrir áramót þurfa varnarmúrarnir að vera komnir upp.
Eða stendur til að bíða eftir því að vakna á nærbuxunum? Stjórnvöld hafa enga afsökun lengur fyrir sofandahætti og aðgerðaleysi.

Ekki hlutskipti Íslands

Þegar orkan og landið hefur verið tekið af okkur, verður torsótt að snúa til baka. Enginn mun þá  hafa samúð með okkur, fremur en sofandi fyllibyttunni í neðanjarðarlestinni.
Varla viljum við að þetta verði hlutskipti Íslands.
http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/07/07/beri-madurinn-nedanjardarlestinni/