BESSASTAÐIR EHF?
Ólafur Raganr Grímsson, forseti Íslands, hefur beitt sér mjög í þágu íslenskra fyrirtækja sem hafa viljað hasla sér völl á erlendri grundu. Í því efni þykir hann hafa gert margt vel og heyrast iðulega hrósyrði í garð forsetans úr viðskiptalífinu fyrir framgöngu hans til að greiða götu íslenskra útrásarfyrirtækja. Slík ummæli heyrðust í gær úr munni
Það er ánægjulegt þegar íslensk fyrirtæki gera það gott í útlandinu þótt ég leyfi mér að vara við alhæfingum og vilji almennt séð hafa allan fyrirvara á. Vísa ég þar til vafasamra umsvifa á Balkanskaganum og víðar þar sem Íslendingar hafa stundum reynst óptrúttnir mjög og tekið þátt í að þvinga fátækar þjóðir til að einkavæða almannafyrirtæki og færa þau í hendur auðhringa, þar á meðal íslenskra. Búlgarski síminn er dæmi um þetta.
Nóg um það að sinni. En setjum svo að forsetaembættinu skuli beitt í þágu íslenskra útrásarfyrirtækja - sem ég reyndar hef ákveðna fyrirvara á að sé rétt að gera - þá tel ég tvímælalaust að til séu þau mörk sem ekki megi fara yfir. Að mínu mati var farið yfir þau mörk í gær þegar samningur Eimskips var undirritaður í forsetabústaðnum á Bessastöðum. Látum vera að forsetinn bjóði hinum erlendum gestum til móttöku og endurgjaldi þannig þeirra gestrisni - prýðilegt - en undirritun viðskiptasamamningsins átti að mínu mati ekki að fara fram á Bessastöðum. Stórmál? Já. Forsetaembættið er sem betur fer ekki enn orðið ehf þótt flest í kringum okkur sé á leið í einhvers konar markaðspakkningu. Það skiptir máli að í þjóðfélaginu séu fyrir hendi girðingar gegn ásælni markaðshyggjunnar. Slíkum tilgangi á forstaembættið að þjóna. Embætti forseta Íslands og Bessastaðir hafa um margt táknræna þýðingu; tákn um lýðræði, sameiginlega sögulega arfleifð og samstöðu þjóðarinnar. Forsetaembættið á að standa ofar hagsmunum einstakra hópa og fyrirtækja.
Eimskipafélagið hlýtur að geta fundið sér aðrar vistarverur en stofu Gríms Thomsens á Bessastöðum til að undirrita viðskiptasamninga sína.