BETRA AÐ JAFNA EN AÐ SPÝTA Í
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 29.02/01.03.20.
Sitthvað er nú tínt til í réttlætingarskyni fyrir einkavæðingu banka í ríkiseigu. Slaki sé í efnahagslífinu og lífsnauðsyn að losa um fjármagn með þessum hætti, jafnvel taka, auk fyrirhugaðrar bankasölu, milljarðatugi að láni til að örva efnahagskerfið. Þá þurfi skattar á fyrirtæki að lækka í sama tilgangi. Innspýting heitir þetta á máli stjórnmálanna og þykir allra meina bót.
Upp eru talin margvísleg þjóðþrifamál sem þurfi að næra og hljómar það sannfærandi í eyrum okkar; því meira sem spýtt sé þeim mun betra hljóti það að vera.
En er þá komið að varnaðarorðum og kannski líka áminningu um að ríkisstjórn þurfi að vera samkvæm sjálfri sér, yfirlýst stefna annars vegar og framkvæmd þeirrar stefnu hins vegar, megi ekki vera sitt hvað – og hvað þá svart og hvítt.
Yfirlýsta stefnan (Sjálfstæðisflokkur samþykkir með þögninni), er að umhverfis – og loftslagsmál skuli hafa algeran forgang við mótun efnahagsstefnu okkar til framtíðar. Þetta sé einfaldlega nýi tíminn.
Fínt, segi ég.
En þýðir þetta þá ekki að huga beri að tvennu. Svona til að byrja með.
Í fyrsta lagi, að sporna beri gegn hernaðaruppbyggingu og hernaðarhyggju í ljósi þess að hervélar heimsins eru afkastamestu umhverfissóðar samtímans. Gerum við þetta? Nei, þvert á móti þá spýtum við í.
Í öðru lagi, að gjalda beri varhug við hagvaxtarkröfu kapítalismans; að viðbrögð við samdrætti og áföllum megi ekki sjálfkrafa vera þau að gefa betur í til að ná þenslunni í gang aftur. Með öðrum orðum, að varast beri þá innspýtingarstefnu sem nú er boðuð í Stjórnarráðinu, hvað þá að hún skuli fjármögnuð með einkavæðingu og lántökum.
En hver er þá valkosturinn? Varla viljum við atvinnuleysi sem gjarnan er fylgifiskur samdráttar í efnahagslífinu? Nei, atvinnuleysi viljum við ekki. Valkosturinn heitir jöfnuður og hófsemi.
Verkalýðshreyfingin er að gera sitt til að jafna kjörin í þjóðfélaginu. Það er gott og það ber að styðja. Þá þurfum við að fylkja okkur um kröfur um að dregið verði úr auðsöfnun og þar með samþjöppun á fjármagni og valdi. Til dæmis í sjávarútvegi þar sem óheyrilegur auður er kominn ofan í vasann á örfáum einstaklingum og fyrirtækjum. Kvótann heim – til þjóðar og byggðarlaga, er krafa sem heyrist sífellt oftar frá fólki sem vill endurheimta veiðar og vinnslu við sjávarsíðu Íslands þannig að landsbyggðin fái lifað á forsendum sem jafnframt gagnist okkur öllum sem byggjum þetta land. Nauðsynlegt sé að stokka upp spilin þannig að við hlið stærri útgerðarfélaga fái smærri útgerð þrifist og dafnað.
Guðjón Einarsson, fyrrum fréttamaður Sjónvarps og síðar ritstjóri Fiskifrétta, skrifar upplýsandi grein í Bændablaðið í fyrri viku. Hann fjallar þar um fiskveiðistjórnunarkerfið í Noregi. Spyr hann meðal annars íslenskan smábátasjómann, sem þar starfar og hefur því þekkingu á bæði íslensku og norsku fiskveiðikerfi, hvort kerfið hann telji betra. Stórútgerð er arðsamari en smáútgerð svarar viðmælandinn, það segi sig nánast sjálft að ódýrara sé að vera með fá skip með miklar aflaheimildir en að dreifa þeim á marga aðila. En hvort sé betra fyrir byggðirnar sé önnur saga. Þar hafi smærri einingarnar vinninginn!
Er það ekki svona sem við verðum að fara að hugsa, spyrja hvað gagnist samfélaginu best og hvað sé best fyrir lífríkið. Þannig segir ríkisstjórnin að sig langi til að hugsa.
En hvers vegna ekki gera það og þá einnig framkvæma í samræmi við þá hugsun?
Þegar allt kemur til alls er niðurstaðan sú að betra sé að jafna en að spýta í.