betra en SMJÖR
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 27.07.14.
Einhvern veginn verður hið jákvæða við Bandaríkin fyrirferðarmeira en hið neikvæða þegar maður kemur þangað sem gestur.
Hið almenna viðhorf fólks er jákvætt og vinsamlegt, hvort sem er í verslunum, á veitingastöðum, á stofnunum hins opinbera eða í umferðinni. Allir slakir og vinsamlegir.
Yfir hásumarið hef ég dvalist Kaliforníu í farangri konu minnar sem um nokkurra vikna skeið stundar rannsóknarvinnu við San Francisco háskóla. Við búum í hæðunum sem eru austan San Francsico flóans en þar er einmitt annar nafnfrægur háskóli, kenndur við þessar hæðir og bæjarfélagið þar, Berkeley.
Stanford háskóli er svo um fimmtíu kílómetrum sunnar, enn einn nafnfrægur háskóli og fleiri munu þeir vera sem getið hafa sér gott orð.
Enda er það svo að þegar talað er um atvinnuvegi á þessum slóðum, þá er menntun sett þar ofarlega á blað sem verðmætaskapandi atvinnugrein. Hingað kemur fólk víðs vegar að úr Bandaríkjunum og reyndar heiminum öllum til að afla sér þekkingar eða miðla afrakstri af eigin vinnu í þessum miklu háborgum vísinda og mennta.
Og meira um hið jákvæða . Eflaust er það rétt sem samfélagsrýnirinn, Noam Chomski skrifaði í nýbirtri grein, að þrátt fyrir njósnir og NSA, þrátt fyrir margt slæmt, þá sé bandarískt samfélag eitt það opnasta í heiminum. Alla vega er það mjög útbreitt viðhorf í Bandaríkjunum að allt eigi að vera opið.
Einhvern tímann heyrði ég sagt að hleranir vektu miklu meiri andstöðu á meðal almennings í Evrópu en í Bandaríkjunum. Skýringin væri sú að Bandaríkjamenn hefðu ekki sama skilning á mikilvægi einkalífsinkalífs og Evrópupumenn.
Það er mér svo aftur óleyst ráðgáta hvers vegna viðbrögðin í Evrópu gagnvart njósnum Bandaríkjamanna eru ekki miklu harðari en raun ber vitni. Þótt vitað sé að hvert mannsbarn í Þýskalandi, þar með talinn kanslarinn, sættu hlerunum af hálfu NATÓ vinanna í vestri, þá þora Þjóðverjar ekki fyrir sitt litla líf að bjóða velgjörðamanni sínum, uppljóstraranum Snowden til síns lands og Austurríkismenn létu sig hafa það að hlýða skipunum njósnaveldisins og þvinga flugvél Bólivíuforseta til að lenda í Vínarborg á leiðinni frá Moskvu til Suður-Ameríku, því Kanar vildu vita hvort verið gæti að Snowden væri um borð!
En hér er semsagt gott að vera. Allir eru góðir við mann. Nánast allur matur er sagður lífrænn og ef um er að ræða eftirlíkingu þá snúa menn sig út úr því með klóku auglýsingamáli á umbúðunum og segja í lágstöfum að þetta smörlíki sé miklu betra en SMJÖR í hástöfum. Þannig telur þú þig kaupa smjör sértu á höttunum eftir því og hinir sem sækjast eftir smjörlíki fá líka sitt. Allir ánægðir.