BINDINDISMANNI BREYTT Í TAPPA
Heimasíðan þín, þótt fjári góð sé á köflum, minnir mig stundum á Þjóðviljann heitinn að því leytinu að þar var stundum ýmsum brögðum beitt til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Myndin þín af ríkisstjórninni á rauðvínsflöskunum er að því marki röng að ég hef öruggar heimildir fyrir því að Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra bragði ekki áfengi. Í því ljósi finnst mér ráðherranum óvirðing sýnd með því athæfi að troða höfðinu á honum ofan í áfengisflösku. Vona ég að þú gerir ekki svona mistök í framtíðinni. Mig langar svo að lokum að óska þér gleðilegs árs og farsældar á komandi ári.
Kveðja, Sigurfljóð Hermanns
Sæl Sigurfljóð og þakka þér fyrir ábendinguna og góðar kveðjur. Í þessu tilliti skiptir að mínu mati meginmáli að það var ekki ætlun mín né tilgangur að gefa til kynna neysluvenjur einstakra manna heldur vekja athygli á jólagjöfum Landsbanka Íslands til ráðherranna. Bankinn gaf þeim öllum rauðvín og þar með töldum Björgvin G. Sigurðssyni. Því hefði verið rangt að taka hann sérstaklega út og stilla honum td. upp á appelsínflösku eins og gert er til gamans á myndinni hér að neðan. Ég held sem sagt að þegar upp er staðið, og að vel athuguðu máli, sé skoðanamunur á milli okkar ekki svo ýkja mikill í þessu tilviki. Vona ég að þú fylgist áfram með heimasíðu minni og hafir á henni ákveðnar skoðanir. Öll tilskrif og ábendingar eru vel þegnar.
Kv. Ögmundur