Björn Bjarnason á Kaldastríðsklæðum
Þeir sem komnir eru á miðjan aldur vita að áður en Björn Bjarnason alþingismaður var kjörinn á þing var hann blaðamaður á Morgunblaðinu. Þar sérhæfði hann sig í erlendum málefnum, en sérstakt áhugasvið hans voru samskipti Vesturveldanna og Sovétblokkarinnar. Það má segja með nokkrum sanni að Kalda stríðið hafi verið sérsvið Björns Bjarnasonar. Það er ef til vill þess vegna sem Björn virðist alltaf vera í essinu sínu þegar þessi mál ber á góma. Þá telur Björn sig hafa fast land undir fótum. En einmitt vegna þekkingar hans og reynslu er undarlegt hvernig hann virðist jafnan bresta dómgreind þegar minnst er á Sovétríkin gömlu. Björn er samur við sig nú sem fyrr, hann heimfærir alla óáran upp á Sovétkerfið, allt illt í samtímanum virðist í hans huga runnið undan rifjum þess.
Í vikunni komst Björn Bjarnason þannig að þeirri niðurstöðu að olíusamsærið sem mjög hefur verið til umræðu að undanförnu mætti heimfæra upp á viðskiptahætti Sovétkommúnismans. Flokksbróður Björns, Davíð Oddssyni þótti langt til seilst og mátti skilja á ummælum hans á blaðamannafundi, m.a. um þetta efni, að honum hafi þótt þessar söguskýringar Björns Bjarnasonar fjarstæðukenndar. Sjálfur hafði ég á orði í grein í Fréttablaðinu (sem birtist í fyrradag og er einnig að finna hér á heimasíðunni), að svo langt væri gengið, að hugsanlega hefði Björn slegið heimsmet í "nýstárlegum söguskýringum".
Í grein minni sagði ég eftirfarandi: " Þótt samið hafi verið sameiginlega um innkaup á olíu til landsins fyrr á tíð þá er ekki þar með sagt að hægt sé að setja samasem merki á milli þess og þeirra blekkinga sem hér hafa greinilega verið stundaðar af skipulegri yfirvegun og nákvæmni."
Björn skrifar lesendabréf í Fréttablaðið í dag til að andmæla mér og segir þar m.a.: m.a."Ekki er það nýlunda að eiga orðastað við málsvara Sovétríkjanna á íslenskum stjórnmálavettvangi. Hins vegar átti ég ekki von á því að deilur um ágæti Sovétkerfisins næðu á svo ljóslifandi hátt út fyrir dauða þess."
Það má vissulega til sanns vegar færa að í umræddri Fréttablaðsgrein minni koma fram miklar efasemdir um ágæti þeirra óheftu markaðshyggju sem hafin hefur verið til vegs og virðingar hér í landinu á undanförnum árum. Þessu samfara er síðan ótrúlegur skortur á gagnrýni á það sem miður hefur farið í tengslum við markaðs- og einkavæðingu og vakti ég á þessu máls.
Það sem vítaverðast var við Sovétríkin sálugu var obeldið sem andófsmenn voru beittir enda hrundi kerfið eftir áratuga skoðanakúgun. Mannkynssagan sýnir hve skelfilega hættulegt það er að trúa svo á stjórnmálakenningar að tilgangurinn sé látinn helga illt meðal. Í Sovétríkjunum var aldrei reynt að læra af reynslunni og allt það sem úrskeiðis fór var bókfært á annarra kostnað. Gæti verið að nákvæmlega þetta væri að henda margan frjálshyggjumanninn nú? Ef menn virkilega standa í þeirri trú að einokun og samráð á markaði sé nýlunda í kapítalísku samfélagi, væri ráð að leggjast í stúderingar á sögu vestrænna markaðssamfélaga.
Því fór fjarri að allir kaldastríðsgagnrýnendur Sovétríkjanna á sínum tíma væru hvítþvegnir englar. Margir þeirra léku þann ljóta leik, þegar kapítalisminn var gagnrýndur, að reyna að klína viðkomandi fast upp að Sovétríkjunum og gera menn samseka því sem þar fór fram. Hörð gagnrýni á kapítalisma jafngilti í skrifum þessara manna þjónkun við Sovétríkin. Þeir alósvífnustu ætluðu gagnrýnendum kapítalsima þannig stuðning við skoðanakúgun og jafnvel fangabúðir í Síberíu.
Tilbrigði af þessari hugsun má sjá í skrifum Björns Bjarnasonar í dag. Þannig háttaði til í umræðunni um stóriðjuáform íslenskra stjórnvalda á síðasta þingi að ég hafði látið þau orð falla að atvinnustefnan hér á landi nú um stundir minnti um margt á þá atvinnustefnu sem framkvæmd var í Sovétríkjunum á dögum Stalíns. Þá hefði bágborið atvinnuástand í heilum héruðum iðulega verið leyst með því að reisa risavaxnar verksmiðjur. Einnig benti ég á, að í stað þess að draga ríkið út úr atvinnurekstri eins og stjórnvöld létu í veðri vaka að vekti fyrir þeim, þá væru þau í reynd að hefja stórfellt inngrip í atvinnulífið - einnig í anda Stalínismans. Þetta bar ég saman við stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem talaði fyrir því að ríki og sveitarfélög einbeittu sér að því að styrkja stoðkerfi við atvinnulíf og samfélag, m.ö.o. samfélagsþjónustuna og búa þannig mannlífi, þar með atvinnulífi á frjálsum markaði, lífvænleg skilyrði.
Með þessum skírskotunum til Stalínstímans telur Björn Bjarnason að ég hafi viljað "gera lítið úr óhæfuverkum einræðisherrans, sem neyddi sovésku þjóðina inn í hungursneyð til að framkvæma atvinnustefnu sína." Þetta kalla ég ímyndunarafl í lagi!
Auðvitað er alltaf gott þegar tekst að gleðja náungann. Ég efast ekki um að það hefur glatt Björn Bjarnason að fá tækifæri til að skrifa um hugðarefni sín. Og fyrir ungu kynslóðina er fróðlegt að fá innsýn í hugsanagang Kalda stríðsins. Skrif Björns Bjarnasonar eru ágætt sögulegt dæmi frá þessum tíma. Verra er þegar hann reynir að halda með þennan stíl inn í samtímann. Það getur vissulega verið gaman að koma á söfn. Dapurlegt er hins vegar þegar einstaklingar taka sér þar bólfestu - og auðnast aldrei að komast inn í nýjan dag.