Fara í efni

ÖLD LÝÐRÆÐISINS

Úlfar Þormóðsson, baráttumaður fyrir betri heimi, veit einsog svo margir í hans flokki, að til er aðeins ein leið. Það er leið meirihlutans. Í eina tíð töldu menn nægilegt að vera með einn flokk og einn leiðtoga. Síðan gætu menn deilt á flokksþingum en þegar niðurstaða meirihlutans lægi fyrir, skyldu menn leggja niður deilur og tala einum rómi. Fylkja sér bak við leiðtogann. Þeir sem voru svo óþroskaðir að geta ekki stigið þennan tangó með réttum takti og hæfilegum aga, voru kallaðir niðurrifsöfl, leiguþý auðvaldsins og endurskoðunarsinnar.

Úlfar lýsir hinu gleðiríka lífi í "flokknum" VG, (sem illu heilli er ekki eini flokkurinn) þar sem minnihlutinn rífst dálítið við félaga  sína í meirihlutanum, fær kannski engum af sínum skoðunum framgengt, en snýr þrátt fyrir það ánægður af fundi og talar fyrir skoðunum meirihlutans um leið og fjölmiðlar spyrja. Þetta er bolsévisminn, gleðiríkur og kærleiksríkur og umframallt árangursríkur. Til þess að þetta virki þarf flokkurinn að hafa skýra sýn, skýrt manifesto, þannig að allur ágreiningur snúist um túlkun en ekki stefnu. Og ef svo illa vill til að breyta þarf stefnunni, er litið til foringjans um leiðsögn. Málstaðurinn, flokkurinn og formaðurinn renna saman í eitt.

Hinn dyggðugi félagi er agaður, tryggur og hefur enga sjálfstæða samvisku, enda segir Úlfar að enginn viti hvað það fyrirbæri sé. Hinn vel rekni flokkur er þess vegna samviskulaus. Frumdyggðin er lojalitet við foringjann. Málamiðlanir eru í valdi meirihlutans, sjálfstæðar skoðanir eru fyrir hina öfundsjúku og samviskan er ekki til. Þetta er dyggðamanifestó stjórnmálaflokks. Allt þetta tal um dyggðir og tryggðir minnir óneitanlega á það sem Dr. Johnson skrifaði um skáldbróður sinn Richard Savage: „Hann elskaði kærleikann, en var ekkert sérstaklega góður maður."

Þingræðið var á sínum tíma framför frá konungsveldi. Þar glitti fyrst í vilja almennings. Nú er kominn tími til að stíga annað skref framá við. Takmarkanir þingræðisins eiga að vera flestum ljósar, svo ég tali nú ekki um bolsévismann. Vilji almennings skilar sér illa í ákvörðunum þingsins og er það ekki bundið við Ísland. Við þurfum að gera eina breytingu á stjórnarskrá sem tryggir almenningi ráð yfir sínum örlögum, nefnilega, réttinn til að ráða ráðum sínum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Um þetta er ekki langt að leita fyrirmynda, því eitt er það land, sem hefur praktíserað slíkt með góðum árangri í hartnær 200 ár og það er fjallalandið Sviss.

Stjórnskipunartilraunin Sviss heppnaðist. Þar ríkir pólitískur stöðugleiki og sátt meðal þeirra fjögurra þjóðarbrota sem byggja landið. Með þjóðaratkvæði væri hægt að laga margt það óréttlæti sem plagar okkur, og má þar nefna gjafakvótann, auðlindaþjófnað og sífellt bankarán; hægt væri að koma vatni og auðlindum í þjóðareign, afnema eyðileggjandi vísitölukerfi og svo framvegis. Við værum ekki lengur ofurseld kæfandi kærleiksboðskap bolsévismanns og gætum viðrað eigin skoðanir opinberlega, jafnvel flokksbundnir. Við slyppum við að hlusta á foringja mæra sjálfa sig án afláts, við gætum einfaldlega tekið ákvarðanir sjálf, ráðið örlögum okkar sjálf.

Stalín sagði: Traust er gott, en eftirlit er betra. Og eins segja elítistar nútímans sem flestir reka sína flokka samkvæmt prinsippum bolsévismans: "Lýðræði væri ágætt ef hægt væri að treysta almenningi. Flokkarnir verða að hafa eftirlit með kjósendum." Og flokkarnir minna á trúfélög, eru einskonar "cult" fyrirbæri. Það er krafist hlýðni við einhvers konar trúarjátningu og ekki síst leiðtogann. Þetta er ógeðfellt, óhollt fyrirkomulag og óþarft. Tæknin leyfir nútímafólki aðgang að upplýsingum. Það eru stjórnvöld sem halda upplýsingum leyndum. Hver man ekki Icesave samninginn, sem enginn mátti sjá.

Icesave var afleiðing bolsévískra stjórnarhátta. Æðstuprestarnir voru orðnir svo veruleikafirrtir að þeir töldu sig óskeikula, ekki þurfa á dómgreind annarra að halda. Og í visku sinni og kærleika neituðu þeir að hlusta á aðra og hinir tryggu liðsmenn greiddu atkvæði í kærleika og gleði. Svona einsog í Krossinum eða Vísindakirkjunni. Þetta mentalítet kann að hafa verið nauðsynlegt til að hrinda burt oki einræðis, í einhvers konar stríðsástandi á árum áður, en er fáránlegt á tímum þegar hægt er að fá fram vilja almennings með einföldum hætti.

Bolsévíkum er tíðrætt um málamiðlanir. En meina hrossakaup. Menn draga strik í sandinn. Til dæmis: Ég samþykki allt ef það kemur í veg fyrir að flokkur X komist til valda. Því að allt snýst þetta um völd. Slíkar yfirlýsingar eru sennilega ekki fallnar til að tryggja kvikmyndaskólanum aukið fé, en ágætar til að þurfa ekki að hugsa neitt sérstaklega mikið um hvað menn eru að samþykkja. Hrossakaup leiða til að erfið mál eru sett til hliðar. Hrossakaup eru óþörf. Almenningur getur sjálfur leyst sín ágreiningsmál í kosningum með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bolsévisminn eða flokksræði leiðir undantekningalaust til spillingar. Slíkt kerfi kallar á margs konar hæfileikafólk til starfa, en oft gagnast þeir ákveðnu hæfileikar einstaklingunum sjálfum betur en samfélaginu í heild. Bolsévíkar telja að þeir séu raunsæismenn en eru í raun rómantískir skýjaglópar. Þeir tala um hópinn og samstöðuna og trygglyndið og félagsandann og foringjann og trúnaðinn. Allt uppúr orðabók frímúrarans. Þeir halda að þeir séu staddir á aldamótunum 1900 þegar hestvagnar voru aðal ferðamátinn og síminn rétt í burðarliðnum.

Stjórnmálamenn nútímans eru margir aldir upp í þessu kerfi og skilja hvorki né trúa að hægt sé breyta því. Og ég leyfi mér að snúa út úr frægri setningu eftir Lenín: "Láttu mig hafa folald í nokkur ár og ég geri úr því flokkshest að eilífu". Flokkshestar draga í efa að framfarir á sviði stjórnskipunar séu mögulegar. Að framfarasinnar séu skýjaglópar. Óraunsæir bjartsýnismenn sem skilji ekki hinn harða heim hagsmunaátakanna. En stjórnmálamenn hafa einmitt gerst varðhundar nýrra hagsmuna. Sinna eigin hagsmuna. Og átökin sem eiga að vera um samfélagshagsmuni verða hagsmunaátök milli þeirra sjálfra. Samviskan er síðan það eina sem truflar þegar allt annað gengur vel. Þess vegna liggur svo mikið við að gera lítið úr samviskunni.

Búsáhaldabyltingin bar til valda fólk sem lofaði breytingum en það eina sem eftir stendur er löngunin til að refsa. Það er kallað Uppgjör. Engar breytingar hafa verið gerðar á hinu glæpsamlega kerfi sem olli hruni Íslands. Slíkar breytingar verða einungis gerðar með beinni aðkomu almennings. En Bolsévikarnir sem stjórna ríkisstjórninni skilja þetta ekki.Og öll orkan fer í að halda aga og halda völdum. Breytingar þurfa að bíða. Upplýsingaflæði þarf að bíða. Björgun heimila þarf að bíða. Baráttan gegn fjármálaófreskjunni þarf að bíða. Baráttan gegn kvótaveldinu þarf að bíða.

En nú viljum við ekki bíða lengur. Þjóðin þarf ekki að bíða lengur. Hún getur tekið sínar ákvarðanir sjálf og þarf engan millilið. Þarf  ekki að lúta valdi flokkanna. Hún þarf ekki og vill ekki eyða tíma í að skilja deilur innan bolsévískra trúfélaga. Þjóðin hefur engan áhuga á tali um svik og tryggð og trúnað og traust og samvisku og klofning og átök innan einhverra flokkstrúfélaga. Átök í bakherbergjum eiga að heyra sögunni til. Ákvarðanir þurfa ekki lengur að fara í gegnum miðlara og eiginhagsmunaseggi sem þurfa prósentur af öllu sem gert er. Tuttugasta öldin var öld þingræðis. Tuttugasta og fyrsta öldin verður öld lýðræðis.