BJÖRN TH. BJÖRNSSON ALLUR
Enginn deilir um að Björn Th. Björnsson, rithöfundur og listfræðingur, var einn af andans jöfrum Íslands á öldinni sem leið. Hann lést í lok ágústmánaðar og hefur nú verið til grafar borinn. Það var við hæfi að prófasturinn á Reynivöllum í Kjós, dr. Gunnar Kristjánsson, skyldi fenginn til að jarðsyngja Björn Th. Brást honum ekki bogalistin fremur en endranær. Minningarorð hans voru áhrifarík, listræn og menningarleg í anda þess manns sem kvaddur var. Þorleifur Hauksson las úr Hraunfólkinu eftir Björn Th. og verður sá lestur án efa mörgum tilefni til að grípa þá bók út úr skápnum til að lesa. Eftirfarandi eru minningarorð Gunnars Kristjánssonar.
Texti:
Tveir [lærisveinanna] fóru þann sama dag [páskadag] til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði. Þá bar svo við er þeir voru að tala saman og ræða þetta að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. En augu þeirra voru haldin, svo að þeir þekktu hann ekki. Og hann sagði við þá: Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?
Þeir námu staðar, daprir í bragði og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: Þú ert víst eini aðkomumaðurinn í Jerúsalem sem veist ekki hvað þar hefur gerst þessa dagana. Hann spurði: Hvað þá?
Þeir svöruðu: Þetta um Jesúm frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð, hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann...
Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra. Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar. Og hann fór inn til að vera hjá þeim.
Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum. Og þeir sögðu hvor við annan: Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum? (Lúk 24:13‑35)
Líkræða:
Áreiðanlega hefur Lúkas notið þess að rifja upp söguna um Emmausfarana, þá grípandi frásögn sem lesin var frá altari um lífsreynslu tveggja manna. Annar þeirra hét Kleófas, en nafn hins þekkjum við ekki. Hver veit nema þar dyljist Lúkas sjálfur.
Lúkas hélt þessari sögu til haga eins og mörgum öðrum perlum Biblíunnar. Hann, einn guðspjallamanna, skráði dæmisöguna um miskunnsama Samverjann og forðaði einnig lofsöng Maríu frá gleymsku, og jólaguðspjallinu, sem hvergi er að finna nema hjá honum. Sagan um Emmausfarana er séreign hans í Biblíunni – og sýnir snilld hans.
Páskadagur er liðinn að kvöldi. Enn fara lærisveinarnir huldu höfði, í það minnsta hafa þeir Kleófas ekki heyrt um upprisuna.
Listamenn allra tíma hafa heillast af þessari myndrænu frásögn Lúkasar. Einn þeirra var expressjónistinn Karl Schmidt-Rottluff, sem gerði eitt af sínum mörgu meistaraverkum út frá þessari sögu, meðan enn rauk úr rústum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Lítil trérista sýnir tvo þungbúna menn á ferð, meitlaðir andlitsdrættir þeirra og bognir og teygðir líkamar eiga að endurspegla þjáningar heillar heimsstyrjaldar um leið og þeir kallast á við krossfestinguna. Í svip þeirra býr uggur og ótti, þar vottar ekki fyrir vonarneista: Var ævintýrið um Jesúm helgisögn sem engin innistæða var fyrir? Er tilvist mannsins ofurseld óvissu og dauða – enn sem fyrr?
Á myndinni hefur Hann þegar slegist í för með þeim, göngumaðurinn óþekkti. Þrír þokast þeir áfram fjallveginn þar sem “nóttin drýpur úr fornum trjám.”
Það er ekki fyrr en hann sest til borðs með þeim í litlu húsi í áfangastað, og brýtur brauðið, að augu þeirra opnast.
Þá stund hefur Rembrandt reynt að fanga í mörgum meistaraverkum sínum, andartakið þegar samferðamaður þeirra brýtur brauðið í fölum bjarma. Andartak hins heilaga, hið heilaga andartak. Þegar upprisan gerist í þeirra eigin hjarta, hverfur hann. Einnig hvarf þeim uggurinn og óttinn þegar þeir fundu návist hans.
Ljóðskáldin okkar hafa ort um þessa sögu, ljóði Sigurðar Pálssonar, Vatnsberinn sárþyrsti, lýkur þannig:
Óvænt
Milli nætur og dags
Kemur hann til okkar
Á hverri líðandi stundu
Vatnsberinn sárþyrsti
Sagan um Emmausfarana er saga um hið óvænta, um trúna sem kemur óvænt til mannsins og lýkur upp lífi hans og tilvist í nýju ljósi. Það er saga um návist hins heilaga í lífi mannsins sem kveikir nýtt hugrekki til að lifa og nýja, óvænta von í hjarta, einnig í návist dauðans.
Söguna um Emmausfarana þekkti Björn Th. Björnsson og glímu listamanna við að koma henni til skila í máli og myndum, og túlkun aldanna á inntaki hennar og þeim aldatáknum sem hún varðveitir...
Björn Theodór Björnsson var af íslenskum og þýskum ættum. Móðir hans, Martha Clara Björnsson, fædd Bemme, átti ættir að rekja til Leipzig þar sem faðir hennar starfaði sem trésmíðameistari. Faðir Björns var Baldvin Björnsson, virtur gullsmiður og myndlistarmaður á sinni tíð.
Björn fæddist í Reykjavík 3. sept. 1922 og var skírður hér í dómkirkjunni. Hann fluttist ungur með foreldrum sínum til Vestmannaeyja, þaðan sem hann átti góðar minningar eins og hann hefur lýst í bernskuminningabókinni Sandgreifarnir, þar sem litrík mynd er dregin upp af mannlífi í Eyjum, eins og það kom tápmiklum og uppáfinningasömum drengjum fyrir augu.
Í bókinni dregur Björn einnig upp áhugaverða mynd af eigin fjölskyldu, þar sem mest fer fyrir Pauline Ernstine Bemme, móðurömmu hans, sem hafði vakandi auga með drengjunum, en var jafnframt með hugann í framandi heimi þýska keisaratímans. Björn og bræður hans tveir, sem voru talsvert eldri, þeir Siegfried Haukur og Harald Steinn, áttu ljúfar minningar frá Eyjum. Það var Birni því síður en svo ánægjuefni að flytjast aftur til höfuðborgarinnar þegar hann var á fermingaraldri.
Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík í miðri heimsstyrjöldinni, 1943, og hélt þegar út í hinn stóra heim sem logaði í ófriði. Leiðin lá til Edinborgar og London þar sem hann lagði stund á listasögu og lauk því eins og unnt var vegna þess uppnáms sem stríðið olli.
Að stríði loknu lá leið hans til Kaupmannahafnar til frekara náms, en nú beindist áhugi hans í vaxandi mæli að íslenskri myndlistarhefð, m.a. fékkst hann við rannsóknir á íslensku teiknibókinni í Árnasafni, sem hann skrifaði ritgerð um og gaf út 1954. Sama ár birti hann allítarlega ritgerð um íslenska gullsmíði. Eftir heimkomuna flutti hann fyrirlestur í Austurbæjarbíói um Teiknibókina; og var það fyrsti fyrirlestur hans hér á landi.
Í borg hinna glóandi gullturna kynntist Björn Ásgerði Ester Búadóttur sem stundaði myndlistarnám við Listaakademíið í Kaupmannahöfn – og gengu þau saman í hjónaband í júní 1947. Þau eignuðust þrjú börn, þau Baldvin, Björn Þránd og Þórunni.
Eftir heimkomuna frá Danmörku var Björn um árabil eini listfræðingur þjóðarinnar og verkefnin blöstu við ungum eldhuga. Hann fór snemma að fást við kennslu og sinnti henni lengst af alla starfsævina. Hann kenndi fyrst við Myndlista- og handíðaskólann, en bætti svo við Kennaraskólanum, síðar Kennaraháskólanum. Um árabil kenndi hann einnig listasögu við Háskóla Íslands. Þegar frá leið hafði þorri myndlistarmanna og myndmenntakennara þjóðarinnar notið kennslu hans lengur eða skemur. – Með kennslunni stundaði hann ávallt umtalsverð fræðistörf.
Ríkisútvarpið naut starfskrafta hans í áratugi við þáttagerð, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Á þeim vettvangi kom þekking Björns og almennur áhugi hans á íslenskri menningu að góðum notum. Þættir hans voru vel gerðir og nutu mikillar hylli. Þjóðin þekkti vel djúpa og hlýja rödd hans og vandað, blæbrigðaríkt málfar sem bar með sér andblæ íslenskrar bókmenntahefðar í fögrum búningi.
Hann var um langt skeið áhrifamaður á hinu stóra sviði íslenskrar menningar, orð hans vógu þungt og sjónarmið hans voru ekki hundsuð. Margir sóttu góð ráð hjá honum. Enda var hann vel að sér um hvaðeina sem að myndlist og bókmenntum laut.
Á löngum ferli átti hann sæti í nefndum og ráðum á ýmsum sviðum menningarlífsins, m.a. í útvarpsráði og menntamálaráði, þá var hann einnig formaður Rithöfundasambands Íslands og fyrsti forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands.
Björn lifði sjálfur umbrot fyrri hluta aldarinnar í evrópskri menningu, hrun hugsjóna og hugmyndafræði og sköpun nýrra viðhorfa í listum, á rústum hruninna borga og brunninna hugsjóna. Það var myndlist í leit að nýjum byrjunarreit þar sem horft er til grundvallargilda, til forma og flata, lita og leikja í veröld sem er að ná áttum og þráir nýjan heim í réttlátu samfélagi. Þetta var framsækin menningarsýn, reiðubúin til baráttu fyrir hugsjónum hinnar ungu kynslóðar eftirstríðsáranna.
En sköpun hins nýja byggir á sögu og reynslu. Slóð aldanna er öðrum þræði uppistaðan í nýrri heimsmynd. Undan sögu sinni fær maðurinn ekki flúið, upprifjun sögunnar og lærdómur hennar er ein leið mannsins til að skilgreina sjálfan sig og samfélag sitt, og henda reiður á tilvist sinni, um leið og hún varðar veginn til hins ókomna.
Hin þunga áhersla sem Björn lagði á myndmenningu fyrri alda, á alþýðlega listsköpun og frásagnir, setur svip á verk hans alla tíð.
Á sjöunda áratugnum kom meginritverk hans út, Íslensk myndlistarsaga, í tveimur bindum. Þar sýnir hann fram á að þjóðin á sameiginlegan myndlistararf, meiri og merkilegri en hún gerði sér áður ljóst. Fyrir þetta verk sitt uppskar hann lof og þakklæti og með því skipaði hann sér í sveit brautryðjenda á vettvangi íslenskrar myndlistarsögu. Svipuðu gegnir um verk hans Minningamörk í Hólavallagarði sem er afrakstur ómældra rannsókna og athugana í ár og áratugi.
Tveir staðir áttu sterkari ítök í Birni en aðrir, annars vegar Þingvallasveitin þar sem forfeður hans í föðurætt bjuggu mann fram af manni. Og svo Kaupmannahöfn þar sem hann átti sín góðu ár eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þar – og raunar vítt og breitt um landið – dvaldist hann ásamt fjölskyldunni mörg sumur, um lengri eða skemmri tíma, m.a. við efnisöflun og undirbúning undir næstu verk. Frá þessum ferðum eru góðar minningar.
Þingvellir og Kaupmannahöfn skiluðu sér í vönduðum og vinsælum ritverkum. Það eru fræðiritið um Þingvelli og sögulega skáldsagan Hraunfólkið og svo verkið Á Íslendingaslóðum í Kaupmannhöfn. Auk þess samdi hann sögulegar skáldsögur þar sem borgin við Sundið er sögusviðið.
Með verðlaunabókinni Virkisvetur haslaði Björn sér völl sem rithöfundur. Bókin kom út 1959 en var rituð á fáum mánuðum – og eftir því sem hann sagði mér eitt sinn: nánast án hvíldar. Með Virkisvetri sýndi hann bestu hliðar sínar sem rithöfundur enda er bókin í flokki meistaraverka tuttugustu aldarinnar á íslenska tungu.
Frásögnin um stóratburði á fimmtándu öld leikur í höndum hans og þekking hans á alþýðumenningu fyrri alda heillar lesandann. Sama máli gegnir um margvíslegar lýsingar hans, m.a. á mannlegum samskiptum, á tilfinningum fólksins í svipbrigðum, orðum og atferli, og svo er það ástin sem fer sína leið eins og þungur undirstraumur hvað sem hernaðaráætlunum stórhöfðingjanna á Reykhólum og á Skarði líður. Hvaðeina er meistaralega gert, fágað og fínpússað, klassískt efni og íslensk tunga í fegursta búningi. Og hvaða íslenskt skáldverk á tuttugustu öld býr yfir öðrum eins orðaforða og Virkisvetur?
Sem rithöfundur, fræðimaður og leikskáld átti Björn greiða leið til þjóðarinnar. En í því efni minnir hann jafnframt á Baldvin föður sinn sem vildi sem minnst ræða eigin afrek, sló heldur yfir í annað ef þau bar á góma.
Björn Th. Björnsson var meðalmaður á hæð, svipmikill, bjartur yfirlitum, hógvær í framgöngu en ákveðinn, smekkmaður í klæðaburði, hafði fagra rithönd, viðræðugóður og áhugasamur um hvaðeina, naut sín við frásagnir, einkum frá liðnum tímum, var í sínu besta formi við kennslu, hann var eljumaður í hverju sem hann tók sér fyrir hendur og lagði sig allan í trúnaðarstörf sem honum voru falin, hann var góður ráðgjafi um myndlist og bókmenntir, skipulagður í vinnubrögðum, hann hafði yfirburðaþekkingu á íslenskri myndlistarsögu, og var hverjum manni fróðari um búnað og gerð kirkna fyrri tíma, þar sem annars staðar kom honum stálminni að góðum notum, en því hélt hann til hinstu stundar.
Björn var einnig náttúruunnandi og naut þess að vera úti í náttúrunni, hvort sem var í gönguferðum eða við silungsveiði, hans næma auga var opið fyrir hverju einu sem fyrir bar, hann kunni góð skil á fuglum og gróðri, á fjallvegum og fornum leiðum, sögustaðir voru honum ofarlega í huga. Hann var flestum leiknari að vekja forna sögu til lífsins, þurrka rykið af liðnum tíma og spanna ár og aldir í huga sínum og frásögnum.
Birni var annt um íslenska myndlist og um myndlistarmenn. Hann fylgdist grannt með þeim hverjum og einum og saman sóttu þau hjónin flestar myndlistarsýningar í höfuðborginni í áratugi.
Hann var sívinnandi, ýmist við öflun heimilda eða við skriftir. Í kvöldkyrrðinni pikkaði hann með tveimur fingrum á gömlu ritvélina sína, hans trausta verkfæri gegnum tíðina, einn með litríkum ævintýrapersónum liðinna tíma sem hann kynnti fyrir lesendum sínum sem biðu eftirvæntingarfullir nýrra verka frá hans hendi. Við vefstólinn sat Ásgerður og vann að stórbrotinni list sinni.
En Björn var líka einn með sjálfum sér við hina einmanalegu iðju skáldsins og fræðimannsins – og því kunni hann vel. Samt naut hann ekki síður hins góða samfélags vina og samstarfsmanna og ekki síst þar sem jarðvegur var fyrir spaugilegar frásagnir. Í áratugi hitti hann nokkra skólabræður sína úr menntaskóla vikulega til þess að lesa með þeim áhugaverðar bókmenntir og njóta samfélags góðra vina.
Í öllu starfi sínu, miklum og tímafrekum umsvifum á langri ævi, var Ásgerður hans trausti lífsförunautur í blíðu og stríðu. Neistinn sem kviknaði forðum daga slokknaði aldrei.
Talsvert dró úr starfsgetu hans fyrir tólf árum þegar hann varð fyrir alvarlegu sjúkdómsáfalli en hann vann á fullu með þeim kröftum sem eftir voru og hugur hans var ungur og vakandi allt til hinstu stundar. Undanfarna mánuði hallaði hratt undan fæti. Hann kvaddi þennan heim á líknardeild Landakots skömmu fyrir miðnætti laugardaginn 25. ágúst.
Dimmir á skóga
nóttin drýpur úr fornum trjám
á sölnaða burkna, gulnað gras
þú gengur með bogann í hendi
margt er að ugga
úlfaþyt ber þér að vitum
hrægammar yfir,
nöðrur hlykkjast í föllnu laufi
margt að ugga
ef til vill mætir
þú einhyrningnum
og ef til vill
sérðu,
gripinn felmtri og sefandi fró
í fölum bjarma
hjört með kross
milli hornanna.
Þannig er eitt af síðustu ljóðum Snorra Hjartarsonar, skálds haustsins, ljóðið Helgisögn. Ef til vill mætirðu einhyrningnum, furðuskepnu sem Björn fjallaði oft um, í fyrirlestrum og ritverkum, m.a. í Virkisvetri.
Á Kirkjulistarsýningunni 1983 dró hann einhyrninginn fram á sjónarsviðið sem tákn Maríu guðsmóður og stillti upp náhvalstönn sem var hið áþreifanlega tákn einhyrningsins í tímans rás.
Sýnilegt tákn ósýnilegrar skepnu. Vísunin er óræð, margslungin og djúp, ekki aðeins til guðsmóður heldur til leyndardómsins sem umvefur tilvist mannsins frá vöggu til grafar. En einnig til þeirrar tvíræðu eftirvæntingar sem býr í hjarta mannsins. Skyldi einhyrningurinn birtast? Ef til vill var einhyrningur á ferli, þar sem “dimmir á skóga” og “nóttin drýpur úr fornum trjám”, hulinn myrkri og trjám – hulinn, en nærri.
Hvað væri líf mannsins án eftirvæntingar? Hvað væri lífið ef þar væri hið liðna eitt og hverful, líðandi stundin ein? Í ljóðinu – og ekki aðeins þessu – tvítekur skáldið orðin “Ef til vill”, í þeim orðum er eftirvæntingin undirstrikuð, vonin sem hvílir í innstu vitund mannsins líkt og tígrisdýr sem býr sig undir að stökkva.
Í lok ljóðsins gerir skáldið sér í hugarlund að einhyrningurinn gæti tekið upp á því að birtast sem hjörtur með kross milli hornanna. Helgisagnir fyrri tíma segja að helgir menn einir hafi getað séð hjört með kross milli horna. Slíkur hjörtur var tákn Krists.
Björn kunni að rekja slóð táknanna, þá aldaslóð sem liggur langt inn í hulda forsögu mannsins, en einnig inn í innstu vitund hans, djúpt í órótt hjarta hans, inn í hjartslátt lífsins sem slær í sérhverri skapandi list og allri hugsandi trú.
Í hinni platónsku hugmyndafræði ljóðskáldsins felst lífshvöt mannsins öðru fremur í brennandi þrá dýpst í hjarta hans. En hún birtist sem þrá til hins góða, fagra og sanna, þrá til þess sem virðist ekki vera af þessum heimi – ekki nema þá sem fölur bjarmi af framandi veröld, sem tákn um tvíræðan veruleika, sem skuggi af öðrum heimi, svipleiftur fyrir augum: “ef til vill sérðu... hjört með kross milli hornanna”.
Lærisveinarnir tveir á leið til Emmaus sáu Jesúm við borðið þegar brauðið var brotið – og hann vakti vonina til lífsins í brjóstum þeirra. Þá vaknaði einnig þráin í hjarta þeirra til að leggja allt í sölurnar fyrir hið fagra og góða í þessum heimi. Og til að miðla þeirri framandi veröld inn í þennan heim, brjóta brauðið með öðrum og greiða æðstu draumum mannsins leið inn í veruleika hverfullar stundar.
Þar mætast listin og trúin. Hvort tveggja varðveitir hið dýrmætasta í draumum mannsins, hvort með sínum hætti; stundum samferða, stundum hvort á sinni leið.
Í listinni er eftirvæntingin til hins óvænta þungur undirstraumur, þráin til hins ósagða og óséða, löngunin til að gera hið ósýnilega sýnilegt, til að framkalla nýjan heim í veröld mannsins. “Ef til vill...” tekst það. Þar sitja allir við sama borð, lærisveinarnir í Emmaus og efasemdamaðurinn. Þar bíða allir hins óvænta.
Við kveðjum Björn Th. Björnsson með virðingu fyrir göfugt ævistarf ásamt þökk fyrir margar gefandi stundir, megi verk hans varðveita minningu hans sem brautryðjanda, skálds og fræðimanns um ókomna tíð. Guð blessi störf Björns Th. Björnssonar og gengin spor hans, hann blessi Ásgerði, börn þeirra og fjölskyldur þeirra. Amen Ω