Fara í efni

BJÖRNS JÓNASSONAR MINNST

Útför Björns Jónassonar bróður míns fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík þriðjudaginn 17. september. Hér eru birtar minningargreinar um Björn sem birtust í Morgunblaðinu og einnig skrif sem birtust á samfélagsmiðlum. Þá er hér ræða séra Kristins Ágústs Friðfinnssonar við útförina svo og bróðurminning mín.
Athöfninni var streymt en upp komu tæknilegir örðugleikar sem urðu þess valdandi að streymið tók aðeins til hluta útfararinnar. Þess vegna er ræða séra Kristins Ágústs og kvejuorð mín birt hér.  

____________________________________________________

Þegar ég minn­ist elsku­legs tengda­föður míns koma í hug lín­ur úr ljóði Walts Whit­mans, Söng­ur­inn um sjálf­an mig:

„Ég er stór í sniðum og rúma heila mergð.“

(Þýð. Sig­urður A. Magnús­son)

Tengdafaðir minn var marg­brot­inn maður. Frjór í hugs­un og óhrædd­ur við að ögra hinu viðtekna. For­vit­inn og sí­fellt að brjóta und­ir sig nýj­ar lend­ur þekk­ing­ar. Hafði unun af rök­ræðu og kunni þá list öðrum bet­ur að af­vopna viðmæl­and­ann með eitruðum til­svör­um.

Áður en við tengdafaðir minn hitt­umst í fyrsta sinn hafði því dótt­ir­in talið viss­ara að fara vel yfir með mér hvers mætti vænta. All­ar áhyggj­ur reynd­ust óþarfar. Við urðum strax perlu­vin­ir. Við deild­um ekki skoðunum nema að litlu leyti en skarp­ur hug­ur­inn og leiftrandi skop­skynið gerði öll sam­töl við Bjössa skemmti­leg og gef­andi. Við ferðuðumst sam­an og hann bauð mér að sjá Eric Clapt­on og Steve Winwood troða upp í Royal Al­bert Hall. Heim­sótt­um New York og hlýdd­um á Kr­eutzer-sónöt­una. Ekki eru síður eft­ir­minni­leg und­ir­bún­ings­kvöld­in fyr­ir þess­ar ferðir þar sem tengdafaðir minn var hrók­ur alls fagnaðar, sagði sög­ur og miðlaði af djúpri þekk­ingu sinni. Á fer­tugsaf­mæli mínu sýndi hann mér þann mikla heiður að fela mér til varðveislu dýr­grip úr safni sínu, Ljóðmæli eft­ir Jón­as Hall­gríms­son, sem út voru gef­in í Kaup­manna­höfn 1847. Hjóna­band hans og tengda­móður minn­ar ein­kennd­ist af kær­leika og vináttu og var mér fyr­ir­mynd.

Son­ur minn ber nafn afa síns með stolti. Í ræðu á skírn­ar­dag­inn rifjaði tengdafaðir minn upp þegar hann steig á stóra svið Þjóðleik­húss­ins tæp­lega tíu ára gam­all og lék Ugga Greips­son í Fjall­kirkj­unni. Eft­ir að hafa lesið hin fögru inn­gangs­orð bók­ar­inn­ar færði hann drengn­um Fjall­kirkj­una að gjöf með vísu sem hann samdi til afa­drengs­ins í til­efni dags­ins:

Full­hugi ávallt og frjáls­huga sért.

Fagna skalt deg­in­um glaður.

Og veit­ist þér nafni sem mest er um vert,

að vera þinn eig­in maður.

Þessi vísa fang­ar vel lífs­gildi tengda­föður míns, frjáls í hugs­un og trúr sjálf­um sér. Guð blessi minn­ingu þína. Þín er sárt saknað.

Ásmund­ur Tryggva­son.

 

Við frá­fall Björns föður­bróður míns er margs góðs að minn­ast eft­ir þýðing­ar­mikla sam­fylgd í rúma hálfa öld. Hann hafði skýra sýn á hvað skipti máli í til­ver­unni og var óþreyt­andi við að rækta það eins og allt hans líf og starf ber vitni um. Það var gam­an að tak­ast á við hann um stefn­ur og strauma og nauðsyn­legt að mæta til þeirra viðræðna í sínu allra besta formi. Hann var bæði skarp­ur og skemmti­leg­ur og óvænt­ir vinkl­ar fengu mann iðulega til að hugsa um hlut­ina á nýj­an hátt.

Á unglings­ár­un­um gafst mér tæki­færi til að sinna rit­ara­störf­um hjá bóka­út­gáf­unni Svart á hvítu í frí­stund­um og þar var gott að vera inn­an um áhuga­fólk um bæk­ur. Þar bar líka fyr­ir augu sér­lega dýna­mískt og fram­sýnt fyr­ir­tæki þar sem stór hóp­ur fólks vann meðal ann­ars sam­eig­in­lega að því spenn­andi mark­miði að gefa út Íslend­inga­sög­urn­ar á nú­tíma­legri ís­lensku. Það var þó ekki eina verk­efni bóka­út­gáf­unn­ar sem hafði metnað til að gefa út efni af fjöl­breyti­legu tagi, þar á meðal bók um slang­ur og reyf­ara eft­ir Judith Krantz. Það lýs­ir Bjössa vel að hann vildi varðveita gaml­an og nýj­an menn­ing­ar­arf en alltaf feta nýj­ar slóðir.

Eitt haustið bjó ég hjá Bjössa, Betu og fjöl­skyldu í Kaup­manna­höfn sem ekki síst er eft­ir­minni­legt fyr­ir kvöld­stund­irn­ar í Hell­erup. Þær ein­kennd­ust af góðum mat, huggu­legri djass­tónlist, ar­in­eldi, dag­blaðal­estri og skrafi um allt milli him­ins og jarðar. Það er síðan til marks um mýkt­ina í fari frænda míns að hann var yf­ir­leitt fyrst­ur okk­ar til að gef­ast upp fyr­ir biðjandi augnaráði Dimmu labra­dors og fara með hana út í kvöld­göng­una.

Þess­ar stund­ir og marg­ar fleiri hafa bæði mótað og glatt og ég er þakk­lát fyr­ir þær. Betu og fjöl­skyld­unni sendi ég samúðarkveðjur við þenn­an mikla missi.

Ragn­heiður (Heiða).

 

Bjössi föður­bróðir minn var sér­stak­ur maður um margt.

Hann var sér­stak­ur í mínu lífi því inn í það steig hann snemma, löngu áður en ég átti um það minn­ing­ar sjálf­ur, ég tveggja ára, hann tutt­ugu og tveggja. Hann tók að sér að líta eft­ir þess­um litla frænda sín­um um skeið og all­ar göt­ur síðan hef­ur hann verið mér ná­læg­ur.

Skoðanir sín­ar lét Bjössi í ljós hávaðalaust enda þurfti þessi frændi minn aldrei að tala hátt til þess að á hann væri hlustað.

Þegar Bjössi kom í heim­il­is­boðin og blandaði sér í spjallið mátti taka það sem gefið að nú yrði opnað þar á nýtt sjón­ar­horn, alls ekki það viðtekna, sem gerði umræðuna ávallt áhuga­verðari. Fáir menn hafa fengið mig til að hugsa hlut­ina upp á nýtt bet­ur en hann gerði, ekki þó þannig að við yrðum alltaf sam­mála.

Til er göm­ul mynd af okk­ur frá þeim tíma sem hann passaði mig ung­an. Við sitj­um við pí­anóið og gef ég mér að Bjössi hafi verið að kenna mér á hljóm­borðið. Eng­inn kunni bet­ur á það en hann. Ég held helst að hann hafi kom­ist í sér­sam­band við al­mættið þegar hann sett­ist við pí­anóið og lék af fingr­um fram.

Svona man ég Bjössa og svona mun ég æv­in­lega minn­ast þessa frænda míns.

Andrés Ögmunds­son.

 

Ég hef þekkt Björn Jónas­son lengi en bóka­út­gef­and­an­um Birni Jónas­syni kynnt­ist ég hins veg­ar þegar ég starfaði í nokk­ur miss­eri í út­gáfu­fyr­ir­tæki hans í Kaup­manna­höfn und­ir ald­ar­lok­in. Það var skemmti­legt, og, að því er mig varðar, sér­lega gef­andi sam­starf.

Björn vissi sem var að ís­lensk­ar bók­mennt­ir, og þá ekki síst forn­bók­mennt­ir, ættu er­indi utan land­steina Íslands ekki síður en heima fyr­ir og leit hann alla tíð á það sem verk­efni að gera Norður­landa­bú­um sér­stak­lega grein fyr­ir hlut­deild sinni í sam­eig­in­leg­um nor­ræn­um menn­ing­ar­arfi.

Í stað þess að gráta hlut­skipti Íslend­inga sem þjóðar und­ir norsk­um og dönsk­um kon­ungs­stjórn­um ætt­um við að minna á ís­lenskt fram­lag til nor­rænn­ar menn­ing­ar og heims­menn­ing­ar­inn­ar al­mennt. Talaði hann fyr­ir því að safni yrði komið á fót í Kaup­manna­höfn og helst víðar á Norður­lönd­um sem byggðist á samn­or­ræn­um menn­ing­ar­arfi.

Björn Jónas­son var maður stórra hug­mynda. Sjálf­ur lifði hann aldrei hátt en hann hugsaði hátt fyr­ir hönd bóka­út­gáfu­fyr­ir­tækj­anna sem hann setti á fót, Svarts á hvítu og síðar Guðrún­ar.

Útgáfa Íslend­inga­sagn­anna og Sturlungu á veg­um Svarts á hvítu var af­reks­verk á sinn hátt. Að því verki kom ein­vala lið sem gerði út­gáf­una að því sem hún varð og þótt Íslend­inga­sög­urn­ar hefðu áður komið út í vönduðum út­gáf­um er óhætt að segja að út­gáfa Svarts á hvítu, þar sem lagt var upp úr því að gera sög­urn­ar eins læsi­leg­ar og aðgengi­leg­ar al­menn­ingi og kost­ur væri, hafi skilað sér enda ekki lítið lagt upp úr því að koma menn­ing­ar­arf­leifðinni á fram­færi fyr­ir sam­tím­ann. Þar lá hug­sjón Björns Jónas­son­ar.

Samtíðin og framtíðin mætti gjarn­an minn­ast þess starfs sem þarna var unnið að frum­kvæði og und­ir for­ystu Björns Jónas­son­ar.

Þótt ég þekki ekki til allr­ar sögu Björns – tíma­rita­út­gáfu, aðkomu að listagalle­rí­um og mörgu fleiru, þá er eitt víst að ég þekkti mann­inn Björn Jónas­son vel, hve bráðskemmti­leg­ur hann var og hug­mynda­rík­ur. Há­va­mál, sem nú hétu Vik­in­ger­nes vis­domsord á skandi­nav­ísku og eitt­hvað ámóta á ótelj­andi tungu­mál­um sem þau voru nú þýdd á, létu ekki mikið yfir sér en voru þó vönduð gjöf sem ófá fyr­ir­tæki vildu gefa viðskipta­vin­um sín­um.

Auk fjölda út­gáfu­verka sem Björn vann að á þeim tíma sem við átt­um sam­leið und­ir ald­ar­lok­in er Edd­an í máli og mynd­um mér eft­ir­minni­leg­ust. Hún var góður speg­ill á vinnu­brögð út­gef­and­ans. Á lista­söfn­um um alla Evr­ópu fann hann bestu mál­verk og teikn­ing­ar sem voru byggð á fyr­ir­mynd­um í eddu­kvæðunum, heim­sótti hann söfn­in og samdi um birt­ingu. Þetta var erfitt í fyrstu en þegar það rann upp fyr­ir safn­verj­um hve vönduð út­gáf­an yrði sner­ist taflið við og vildu nú all­ir fá að vera með.

Þannig er lífið líka oft. Erfið eru fyrstu skref­in. Stund­um vilja þau gleym­ast þegar safn­ast er að veislu­borðinu til að fagna góðri upp­skeru. Skref­in sem Björn Jónas­son tók í þágu ís­lenskr­ar menn­ing­ar voru mik­il­væg og þau verk sem þessi frum­kvöðull og eld­hugi stóð að bera hon­um vitn­is­b­urð sem mun lifa.

Elísa­betu og fjöl­skyldu sendi ég mín­ar inni­leg­ustu samúðarkveðjur.

Ólaf­ur B. Andrés­son.

 

Takk fyr­ir öll löngu og inni­halds­ríku sam­töl­in, Bjössi. Takk fyr­ir skarp­skyggn­ina og hug­rekkið, fyr­ir mennsk­una og visk­una. Takk fyr­ir dugnaðinn, list­fengið, húm­or­inn og lífs­kraft­inn allt til enda. Takk fyr­ir vinátt­una, frændi minn.

Nú falla lauf, eins og í fjarska sölni

og felli skrúðið víðir himnag­arðar;

þau falla tregt og hægt í
hausts­ins rökkri.

Í húmi næt­ur höf­ug jörðin fell­ur,

hrap­ar í ein­semd fjarri stjarna mergð.

Við hröp­um öll. Sjá hönd er
fell­ur hér.

Og horfðu á aðra; fallið býr í öll­um.

En einn er sá er styrkri hendi held­ur

um hvert eitt fall af mýkt sem aldrei þverr.

(Rainer Maria Ril­ke. Þýð. höf.)

Þor­steinn Sig­laugs­son.

 

„Af­sakaðu hvað ég hringi snemma.“ Nú hafði Björn Jónas­son hringt upp úr kvöld­mat og brugðið af þeim trausta sið okk­ar að tala sam­an um lág­nættið þegar nokk­ur höfgi var sig­inn á. Ekki er víst að þetta sam­tal hafi verið gáfu­legra en þau sem fóru fram und­ir nótt­ina enda var það ekki til­gang­ur þeirra. Mjög mörg und­an­far­in ár höfðum við Björn átt slík sam­töl stund­ar­inn­ar. Sam­töl vina og þeirr­ar vellíðunar sem tveir vin­ir geta átt. Mjög löng og afar mik­il­væg sam­töl um hvers­dags­lega og ómerki­lega hluti. Þegar aðrir dansa og skála er gott að hringja.

Um verk Björns Jónas­son­ar þarf ég ekki að skrifa en öll báru þau merki þess að þar var alúðarmaður að verki sem þrátt fyr­ir ýmis mót­gang­söfl kom ótrú­leg­um þrifa­mál­um í verk. Í rök­ræðum var ekki gott við Bjössa að eiga. Hann gat verið erju­sam­ur og hálf­kær í senn. Stund­um leið mér eins og salt­fiski sem hafði verið umstaflað fulloft, en sem bet­ur fer frek­ar eins og vel han­teraðri síld. Var það betra fyr­ir svefn­inn.

Björn hugðist kyrra verk sitt og þau Elísa­bet voru sest að í Portúgal í nýj­um takti þegar sól brá sumri. Það bráðhvessti og ljóst að tor­leiði var fram und­an. En á löng­um köfl­um gekk til skap­legri tíðar. Sam­töl í stof­unni voru löng, hug­leiðing­ar djúp­ar, skoðanir fast­ar; frum­kvöðull­inn og heimsmaður­inn vök­ull. Vinátta traust. En nú hef­ur ferðinni verið lyft, vin­ur minn hef­ur verið kvadd­ur til gangna. Utan þjón­ustu­svæðis. Mér er þungt um þessa frá­sögn.

Við Hrafn­hild­ur vott­um Elísa­betu og allri fjöl­skyld­unni samúð okk­ar, miss­ir þeirra er mik­ill.

Í Guðs friði.

Óskar Magnús­son.

 

Björn Jónas­son, æsku­vin­ur minn, er lát­inn eft­ir erfið veik­indi. Leiðir okk­ar lágu fyrst sam­an í 3. bekk í Haga­skóla og hafði ég fljótt gam­an af kímni­gáfu hans og sam­ræðulist. Björn var alltaf nask­ur á að finna nýj­ar hliðar á mál­um og hikaði ekki við að spyrna við fæti gegn viðtekn­um skoðunum. Með skrýtn­um at­huga­semd­um fékk hann menn oft til að skoða mál­in í nýju ljósi eða bara hlæja.

Sem ung­ling­ar héld­um við oft til á Mel­haga 3, menn­ing­ar­heim­ili sóma­hjón­anna Jónas­ar B. Jóns­son­ar og Guðrún­ar Stephen­sen, for­eldra hans; þar fór­um við að spila sam­an í hljóm­sveit sem rétt­ara væri þó að kalla dú­ett, hann á pí­anó og ég á gít­ar, og flutt­um frum­sam­in verk og spunn­um ein­hver ósköp.

Eina önn í mennta­skóla vor­um við Björn ut­an­skóla og kom það ekki til af góðu því það voru vin­sam­leg til­mæli rektors til mín að mæta ekki í skól­ann í bili út af sam­skipt­um við kenn­ara sem ekki þóttu hafa lukk­ast sem skyldi. Þá sá Bjössi kost­ina við það að þurfa ekki að mæta í tíma og ákvað að stúd­era á eig­in veg­um og fór­um við þá að lesa náms­efnið heimavið. Það gekk bara vel og var meira að segja dá­lít­ill metnaður í köpp­un­um og inn­byrt­um við eitt­hvert ít­ar­efni meðfram, svo sem um sögu Róma­veld­is. En svo breytt­ust hag­ir og ég sett­ist í skóla­stofu á nýja­leik en Björn dvaldi nokkra mánuði á Englandi og var þar í skóla.

Síðar komu svo nýir kafl­ar í þenn­an góða kunn­ings­skap, þar á meðal þegar hann og Elísa­bet fóru að búa sam­an í kjall­ara Hóla­brekku við Suður­götu. Var mér þá ósjald­an gefið kaffi þar á bæ með frá­bær­um fé­lags­skap sem seint verður fullþakkað. Eft­ir náms­dvöl mína í Svíþjóð átt­um við einnig sam­leið þegar ég vann í stutt­an tíma fyr­ir bóka­for­lag Björns, Svart á hvítu.

Fara mætti ýms­um orðum um bóka­út­gáfu Björns; hér vil ég rifja upp að hann gaf út frá­bær­ar þýðing­ar eft­ir Thor Vil­hjálms­son, Hlut­skipti manns eft­ir André Malraux og Nafn rós­ar­inn­ar eft­ir Um­berto Eco. For­lag Björns gaf einnig út Íslend­inga­sög­ur sem þau Bragi Hall­dórs­son, Jón Torfa­son, Sverr­ir Tóm­as­son og Örn­ólf­ur Thors­son rit­stýrðu. Ný­lega gaf hann út annað stór­virki, þýðingu Ein­ars Thorodd­sens á fyrstu tveim­ur hlut­um Gleðileiks­ins guðdóm­lega eft­ir Dan­te. Og eru þá fjöl­mörg önn­ur rit ótal­in. Nefna mætti Orðabók um slang­ur, Sér­her­bergi eft­ir Virg­iniu Woolf, fræðslu­rit um Fr­eud­isma, vist­fræði og for­rit­un, barna­bæk­ur, eddu­kvæði, rit­verk Jónas­ar Hall­gríms­son­ar … já, list­inn er lang­ur.

Að leiðarlok­um sendi ég Elísa­betu, börn­um þeirra og systkin­um Björns ein­læg­ar samúðarkveðjur; miss­ir­inn er mik­ill.

Árni Sig­ur­jóns­son.

 

Stund­um geta fyrstu kynni haft áhrif út lífið. Slík voru kynni mín af Birni, fáguðum en um leið ör­lítið fram­andi 17 ára pilti, ljós­um yf­ir­lit­um, í enska heima­vist­ar­skól­an­um mín­um. Björn hafði gam­an af því að velta fyr­ir sér regl­um og hefðum skól­ans, oft til­gangs­laus­um að hon­um fannst, með sín­um ein­staka húm­or og kald­hæðni sem við skóla­fé­lag­ar hans bæði öf­unduðum hann af um leið og við fyllt­umst aðdáun. Þetta ein­staka viðhorf var leiðarljós hans í líf­inu þó að á köfl­um hafi glaðværðin stund­um dofnað. Björn hafði enga þol­in­mæði fyr­ir hræsni, til­gerð eða yf­ir­gangi. Við urðum fljótt kær­ir vin­ir og eft­ir að skóla­göngu okk­ar lauk heim­sótti ég hann til Íslands sum­arið 1974. Það var í þeirri heim­sókn sem ég kynnt­ist gest­risni Íslend­inga og heillaðist af landi og þjóð.

Sam­band okk­ar var stop­ult í gegn­um árin eins og geng­ur en svo var það einn dag árið 2002 að Björn las skila­boð inn á sím­svara móður minn­ar. End­ur­fund­ir okk­ar voru ánægju­leg­ir og nú fékk ég tæki­færi til að kynna hann fyr­ir eig­in­konu minni og börn­um og um leið kynnt­ist ég Elísa­betu og börn­um þeirra Björns, þeim Önnu Lísu, Ingi­björgu og Jónasi. Fjöl­skyld­urn­ar tengd­ust vina­bönd­um.

Þarna var ég orðinn þingmaður Verka­manna­flokks­ins í Bretlandi og tók ég sæti í Íslands­nefnd breska þings­ins. Bæði Björn og bróðir hans Ögmund­ur sýndu nefnd­inni mik­inn stuðning og hlúðu að tengsl­un­um milli okk­ar þing­manna breska þings­ins og Alþing­is. Þessi mik­il­vægu tengsl sem þarna mynduðust skipta máli enn þann dag í dag og hafa leitt af sér bæði vináttu­sam­bönd og mik­il­væg hags­muna­tengsl milli land­anna tveggja.

Björn var hæfi­leika­rík­ur á mörg­um sviðum og áhuga­sam­ur. Hann gat einnig verið gagn­rýn­inn og fékk okk­ur vini sína gjarn­an til að hugsa hlut­ina í víðara sam­hengi. Heim­ur­inn þyrfti fleiri menn á borð við Björn Jónas­son. Hann var hlýr, op­inn, gagn­rýn­inn og, al­veg eins og þegar hann var skólastrák­ur, til í tuskið. Við eig­um eft­ir að sakna hans mikið.

Fabi­an Hamilt­on.

 

Hann var leiftrandi gáfaður. Hann hafði dill­andi húm­or. Hann var víðles­inn. Hann var hrylli­lega fynd­inn. Hann var mat­gæðing­ur. Hann var heim­spek­ing­ur. Hann var kúl­tíveraður. Hann var tón­list­armaður og pí­anó­leik­ari góður.

Hann sótt­ist ekki eft­ir ver­ald­leg­um auð. Hann var gull af manni.

Aldrei heyrði ég hann tala illa um sam­ferðamenn. Aldrei heyrði ég hann tala niðrandi til nokk­urs manns. Aldrei heyrði ég hann gera lítið úr skoðunum annarra. Aldrei varð ég vör við að hann öf­undaði neinn. Aldrei varð ég vör við að hann teldi sig betri en aðra menn.

Við vor­um sjaldn­ast sam­mála, en það skipti aldrei máli.

Hann var maður­inn og ást­in henn­ar Betu. Hann var pabbi og ást­rík­ur afi.

Bjössi var vin­ur minn.

Þór­unn Hreggviðsdótt­ir (Tóta Hregg.).

 

Það er skrýtið að minn­ast Björns Jónas­son­ar geng­ins, enda erfitt að finna mann sem var meira ein­læg­lega lif­andi. Bjössi var spánnýr á hverj­um degi – stöðug upp­spretta hug­mynda og sam­ræðu – sá alltaf nýj­an flöt á hverju máli og hugsaði hann í þaula. Og flet­irn­ir sem hann sá voru ekki öll­um aug­ljós­ir og stund­um al­ger­lega huld­ir. Ég hef ekki tölu á öll­um þeim til­vik­um þegar hann kom mér full­kom­lega á óvart með af­stöðu til mál­efna og opnaði fyr­ir mér nýja leið til að sjá umræðuefnið.

Ekk­ert þoldi hann verr en vana­hugs­un og lík­lega er eng­inn sem ég hef kynnst sem síður gæti staðið und­ir þeirri lýs­ingu að vera hópsál. Ég kallaði hann gjarn­an ei­lífðar­ungling, því hann var ófor­betr­an­leg­ur upp­reisn­ar­maður og fannst ekk­ert skemmti­legra en að ganga á hólm við hefðbund­in viðhorf og reyna í því efni á þanþol viðmæl­enda. Húm­or­inn var yf­ir­leitt á jaðri þess sem maður sjálf­ur hefði leyft sér að láta sér detta í hug og víðsfjarri allri rétt­hugs­un. Hug­ur­inn var leiftrandi, sífrjór og skemmti­legri maður var vand­fund­inn.

Guð blessi minn­ingu hans og um­vefji Betu og fjöl­skyld­una alla.

Árni Páll Árna­son.

 

Fyr­ir margt löngu sagði Björn við mig: „Þrátt fyr­ir að all­ir lif­andi menn hafi á end­an­um dáið, þá er ekk­ert sem seg­ir að það muni henda mig.“ Þessi orð Björns lýsa hon­um og hugs­un­ar­hætti hans vel. Sann­reyna skal hlut­ina áður en skipt er um skoðun. Björn var mér ein­læg­ur ráðleggj­andi og vin­ur um ára­tuga skeið. Þannig gaf hann hjálp sína skil­yrðis­laust í öllu er varðaði sam­eig­in­leg­an starfs­vett­vang okk­ar við bóka­út­gáfu og það á þann máta að það var hon­um gleði að geta veitt aðstoð.

Þrátt fyr­ir að vera sér­lunda og þver þá skyggði það aldrei á vin­skap okk­ar, en lund­ernið gerði hann í mörgu að þeim stór­lynda en jafn­framt merka manni sem gat áorkað stór­brotn­um hlut­um sem munu bera arf þjóðar­inn­ar um ókom­in ár. Það lýs­ir hug­ar­fari hans vel að koma til hug­ar að upp­færa sagna­arf­inn fyr­ir nú­tíma­fólk og end­ur­vekja þannig áhug­ann á sögn­un­um. Það fram­tak varð þjóðinni ómet­an­legt. Þá vann hann þarft verk með út­gáf­um sín­um á Eddu og út­gáfu Há­va­mála á 15 tungu­mál­um. Margt er þá ótalið.

Hann greiddi þessa hug­mynda­auðgi sem hann naut fram­an af dýru verði, en Björn átti sterka for­eldra og fjöl­skyldu sem með hon­um stóð. Jafn­framt því var hann vin­marg­ur og bund­inn sterk­um bönd­um þeim sem hann skil­greindi sem slíka. Ég er þakk­lát­ur fyr­ir að hafa tal­ist í þeim hópi.

Síðustu miss­er­in dvaldi ég ásamt Elísa­betu og Birni í Lissa­bon. Það var ein­stak­ur tími fyr­ir mig að njóta sam­vista við þau og fá tæki­færi til að láta hug­ann reika um stjórn­mál, heim­speki og marg­vís­leg­ar ráðgát­ur til­ver­unn­ar á þess­um síðustu dög­um sem Björn lifði heill heilsu. Elísa­betu þakka ég fyr­ir þessa ljúfu daga. Nú þegar Björn hef­ur „sann­reynt hlut­ina“ sendi ég Elísa­betu og börn­um mín­ar inni­leg­ustu samúðarkveðjur.

Jör­und­ur Guðmunds­son.

Hann Bjössi vin­ur minn er lát­inn eft­ir erfiða bar­áttu við krabba­mein. Þegar ég hugsa nú til baka til okk­ar fyrstu kynna, þá koma upp í hug­ann ætt­ar­mót og aðrir at­b­urðir tengd­ir þeirri fjöl­skyldu sem við báðir til­heyrðum, en kona mín Mar­grét Helga og Elísa­bet eru systkina­börn. Seinna urðu sam­skipt­in enn nán­ari þegar þau hjón bjuggu er­lend­is og við heim­sótt­um þau bæði í Dan­mörku og Englandi. Í einni heim­sókn­inni í Dana­veldi spurði ég Bjössa hvernig þeim líkaði að búa í þessu landi. Svarið var ein­kenn­andi fyr­ir hans sér­staka húm­or: „Það væri fínt að búa hér ef ekki væru hel­vít­is Dan­irn­ir og skatt­arn­ir þeirra.“

Já, Bjössi var svo­lítið sér­stak­ur, sér­vit­ur og alls ekki allra, flug­greind­ur, hafði margt upp­lifað, víða verið við nám og störf. Hann hafði megn­ustu andúð á öllu ver­ald­legu amstri, vildi miklu frek­ar helga líf sitt menn­ingu og list­um og bara vera til, al­gjör­lega óháð ver­ald­leg­um lífs­gæðum eins og að eiga íbúð eða aðra ver­ald­lega hluti. Bíla tók hann bara á leigu, mér er það enn minn­is­stætt þegar hann var að keyra okk­ur hjón út á flug­völl og það sprakk dekk. Í ein­feldni minni varð mér að orði: „Eig­um við ekki að skipta um dekk?“ „Nei, alls ekki,“ var svarið, „þeir skaffa bara ann­an bíl.“

Bjössi var ein­stak­ur hug­sjónamaður, trúði á jafn­rétti og að all­ir ættu sama rétt til þess að lifa mann­sæm­andi lífi á þess­ari jörð. Það var ekki von­in um fjár­hags­leg­an hagnað sem var drif­kraft­ur­inn í öllu hans út­gáfu­stússi eða öðrum menn­ing­ar­uppá­tækj­um í gegn­um tíðina, held­ur var það sann­fær­ing­in að það bæri að varðveita og koma til skila á nú­tíma­leg­an hátt menn­ing­ar­verðmæt­um til þjóðar­inn­ar og helst til alls heims­ins. Það tókst hon­um á marg­an hátt, frum­leg­ar og hug­mynda­rík­ar út­gáf­ur hafa borist víða um heim og vakið at­hygli á ís­lensk­um bók­mennt­um.

Við Bjössi átt­um gegn­um tíðina mörg eft­ir­minni­leg sam­töl, stund­um dreypt­um við ögn á viskíi og oft stóðu sam­töl­in fram und­ir morg­un, þá voru rædd stjórn­mál og heims­mál­in kruf­in til mergjar.

Bjössa hef­ur nú verið gert að yf­ir­gefa þetta jarðsvið en eft­ir lifa minn­ing­arn­ar. Það voru for­rétt­indi að fá að hlusta á hann spila á pí­anóið og al­veg ógleym­an­legt þegar hann og Ingi­björg spiluðu fjór­hent.

Við átt­um sama af­mæl­is­dag, 20. júní. Í stjörnu­spám er sagt að þeir sem fædd­ir eru þenn­an dag séu hug­mynda­rík­ir, fái marg­ar hug­mynd­ir en þær verði fæst­ar að veru­leika. Ég held að það sé nokkuð til í þessu. Í mörg ár hef­ur Bjössi hringt í mig þenn­an dag og við óskað hvor öðrum til ham­ingju með dag­inn. Nú er sú tíð liðin en því miður get­um við hjón­in ekki fylgt okk­ar góða vini síðustu metr­ana til graf­ar.

Inni­leg­ar samúðarkveðjur, kæru vin­ir, Elísa­bet, Anna Lísa, Ingi­björg og Jón­as. Geym­um í minn­inga­banka okk­ar mynd­ir um ein­stak­an mann. Verk hans og orðstír munu lifa.

Guðmund­ur Lárus­son.

 

Björn Jónas­son var magnaður ná­ungi. Vorið 1987 réð hann mig til Svarts á hvítu til þess að kanna grund­völl heild­ar­út­gáfu á verk­um Ein­ars Bene­dikts­son­ar. Ég komst að þeirri niður­stöðu að slík út­gáfa væri ótíma­bær en færði á móti rök fyr­ir því að miklu brýnna og merki­legra væri að gefa út öll verk Jónas­ar Hall­gríms­son­ar. Bjössi hlustaði, hallaði sér aft­ur í stóln­um og setti lapp­irn­ar upp á borð. Sagði svo: Mér líst vel á þessa hug­mynd, við kýl­um á þetta! Það var ekki verið að flækja mál­in og tveim­ur árum seinna komu Rit­verk Jónas­ar Hall­gríms­son­ar út í fjór­um fal­leg­um bind­um sem fengu hlýj­ar viðtök­ur les­enda. Seinna heim­sótti Bjössi mig stund­um í Upp­söl­um þegar hann var að vinna í bók­um síns nýja for­lags, Gudrun, og það var gott að geta lagt hon­um lið í þeirri fínu út­gáfu. Alltaf var gam­an að fá þenn­an hug­mynda­ríka og skemmti­lega mann í heim­sókn. Hug­ur­inn sífrjór, enda­laus­ar hug­mynd­ir og hans laun­fyndna sjón­ar­horn á sam­tím­ann. Á marg­an hátt var Bjössi tíma­mótamaður í ís­lenskri bóka­út­gáfu og verður lengi minnst fyr­ir sín af­rek þar, en hann var líka ein­stak­ur karakt­er. Fólk­inu hans sendi ég mín­ar inni­leg­ustu samúðarkveðjur.

Páll Vals­son.

 

Róm­verski heim­spek­ing­ur­inn Seneca seg­ir í skrif­um sín­um frá þeim sið að menn settu stein­völu í leir­ker við rúm­stokk­inn að kvöldi hvers dags, svarta stein­völu fyr­ir slæm­an dag en hvíta fyr­ir góðan. Við ævilok var talið upp úr leir­ker­un­um til þess að sann­reyna hvort hinn látni hefði átt góða ævi eður ei.

Við Bjössi höf­um tengst vina-, fjöl­skyldu- og viðskipta­bönd­um frá því við vor­um ung­ling­ar. Vin­skap­ur­inn var sterk­ur og oft tek­ist á en það var eng­inn skemmti­legri en Bjössi í hug­mynda­spuna, heim­speki­leg­um sam­ræðum og sam­fé­lags­grein­ingu.

Eft­ir mennta­skóla átt­um við sam­leið í Dan­mörku um hríð þar sem ég var í námi en hann í vinnu. Þegar ég sneri heim frá námi hafði Bjössi stofnað Svart á hvítu og ég tók þátt í því verk­efni og vildi styðja minn góða vin í þeim stór­tæku verk­efn­um sem voru í bíg­erð. Gegn ráðum allra byrjaði Bjössi sjálf­ur að slá inn á tölvu texta sem síðar urðu þriggja binda út­gáfa Íslend­inga­sagna, verk­efni sem markaði spor í ís­lenska menn­ing­ar­sögu. Síðan hafa marg­ir viljað eigna sér verkið en það var ein­ung­is fyr­ir stór­hug og hugdirfsku Bjössa að þetta og önn­ur út­gáfu­verk­efni Svarts á hvítu urðu að veru­leika. Leiðarljósið var að gera menn­ing­ar­arf­inn aðgengi­leg­an. Á þess­um tíma voru forn­rit­in ryk­fall­in þjóðarger­semi sem tek­in var fram á tylli­dög­um og mærð af menn­ing­ar­vit­um. Útgáfa Svarts á hvítu á Íslend­inga­sög­un­um, Sturlungu og Jónasi Hall­gríms­syni færði al­menn­ing þessi verk í aðgengi­legu formi.

Svo var það hrunið, þið munið. Í kjöl­far þess átt­um við Bjössi, ásamt Sigga Pálma, sam­leik sem fáir vita af, en þeir fé­lag­ar höfðu gefið út bók Evu Joly um spill­ingar­rann­sókn­ir henn­ar í Frakklandi. Ég hafði hrif­ist af þess­ari bók og bað þá að koma mér í sam­band við Evu í þeim til­gangi bjóða henni til Íslands og halda fyr­ir­lest­ur um rann­sókn­ir efna­hags­glæpa. Embætti sér­staks sak­sókn­ara til rann­sókna á þrem­ur stærstu banka­gjaldþrot­um mann­kyns­sög­unn­ar var þá ný­stofnað og þar í for­svari sýslumaður úr sveit. Vegna góðra tengsla Bjössa og Sigga við Evu tók hún mér vel og það sem síðar varð er á allra vitorði. Þegar ég sagði Evu frétt­irn­ar af and­láti Bjössa bað hún mig að bera fjöl­skyldu hans samúðarkveðjur sín­ar.

Lífið leiddi okk­ur Bjössa á ólíka áfangastaði en aft­ur sam­an, fyrst í Hollandi þar sem við vor­um samland­ar og sam­starfs­menn um hríð og nú síðast í Portúgal. Við átt­um það nefni­lega sam­eig­in­legt, þrátt fyr­ir ein­læg­an áhuga okk­ar á ís­lenskri menn­ingu, að líða best í út­lönd­um.

Ég minn­ist míns gamla vopna­bróður með hlýju og þakk­læti fyr­ir vinátt­una og sam­fylgd­ina og vil að lok­um þakka henni Betu fyr­ir hvað hún var alltaf góð við karl­inn sinn og umb­ar allt bröltið í okk­ur.

Þegar við nú setj­um okk­ur í spor sam­tíma­manna Seneca og telj­um stein­völ­urn­ar upp úr leir­ker­um Bjössa eru þær hvítu fleiri en þær svörtu og skína skært.

Jón Þóris­son.

 

Björn Jónas­son er far­inn. Hann Bjössi Jónas­ar. Ég heim­sótti hann nokkr­um sinn­um á líkn­ar­deild­ina, síðasta spöl­inn. Það var friður yfir hon­um og æðru­leysi, og hann var vel með á nót­un­um. Við fór­um yfir mál­in, ég las aðeins fyr­ir hann ljóð og hélt uppi sam­ræðum um liðna tíð og núið. Ég fann bæði gamla húm­or­inn, skarpa hug­ann og þessa næmni sem bannaði manni að tala í klisj­um.

Við vor­um jafn­aldr­ar, sami ár­gang­ur, '54. Þessi ár­gang­ur var oft of ung­ur í eitt en of gam­all í annað. Ég ætla ekki nán­ar út í það, nema hvað sú staða skapaði að mínu mati vissa opn­un, að leita enda­laust en fest­ast ekki í einni stefnu. 1978 var margt á seyði. Suður­gata 7, tíma­ritið Svart á hvítu, nýir tím­ar, nýr heim­ur. For­lagið hans Bjössa fékk síðar nafnið frá tíma­rit­inu og fór með him­inskaut­um og kom mörgu í verk.

Við gæt­um eig­in­lega sagt að við vær­um af '78-kyn­slóðinni frek­ar en '68-kyn­slóðinni. Ef það skipt­ir máli, sem það ger­ir ekki. Það skipt­ir engu máli. Al­veg sama hvaðan gott kem­ur og það er alltaf eldra en það sem er að ger­ast hér og nú. En þarna, 1978, var margt á seyði, mikið að ger­ast, marg­vís­leg vatna­skil í list­um og bók­mennt­um, og hug­mynd­um al­mennt.

Bjössi var miðdep­ill, full­trúi nýrra hug­mynda og ekki bara hug­mynda held­ur fram­kvæmda. Það væri hægt að skrifa hnausþykk­ar bæk­ur um þetta allt sam­an. Marg­ir hafa rakið út­gáfu­sög­una, stór­virk­in sem ráðist var í. Bjössi sýndi manni alltaf hlýju og virðingu, var áhuga­sam­ur og for­vit­inn, og alltaf til í góða umræðu.

Við héld­um sam­bandi, þurft­um ekki að hafa mikið fyr­ir því, rædd­um mál­in og lét­um okk­ur dreyma, en Bjössi var raun­sæ­ismaður, fyr­ir hon­um voru draumór­ar ekki draumór­ar, held­ur verk­efni.

Ég votta Elísa­betu konu hans og öllu hans fólki mína samúð, djúpa og inni­lega.

Ein­ar Már Guðmunds­son.

 

Ég vissi fyrst um Björn Jónas­son þegar birt­ist löng grein sem hann þýddi í tíma­rit­inu Svart á hvítu, '77 eða '78. Hún var eft­ir Hans Magn­us Enzens­ber­ger og hét Drög að fjöl­miðla­fræðum, og varð okk­ur sem vor­um í tengsl­um við tíma­ritið mik­ill inn­blást­ur. Bjössi var þá ný­flutt­ur heim frá Kaup­manna­höfn, og mun hafa starfað þar um hríð í því gamla fræga veit­inga­húsi Litla apó­tekið við Stóra Kanúka­stræti, sem ligg­ur milli gömlu há­skóla­bygg­ing­ar­inn­ar og Garðsins, Re­gensen, sem hýsti ís­lenska stúd­enta gegn­um ald­irn­ar. Apó­tekið er á miðri leiðinni á milli þess­ara stofn­ana, og sagt er að sum­ir sem lögðu af stað þenn­an stutta spöl hefðu aldrei dregið lengra en á hinn forna veit­ingastað í kjall­ar­an­um. Bjössi var svo kom­inn inn í vina­hóp­inn, þessi skemmti­legi og stór­gáfaði maður. Ég var þá í stúd­entaráði og átti þátt í að gera hann að fín­um rit­stjóra Stúd­enta­blaðsins, hann stofnaði svo bóka­út­gáf­una Svart á hvítu ásamt Frikka Þór og fleira góðu fólki og gerðist þar fljótt aðalmaður og hæ­stráðandi; glæsi­lega út­gáfu­sögu þess batte­rís er óþarfi að rekja hér. Hann og Elísa­bet dvöld­ust svo árum sam­an í út­lönd­um og við sáumst sjald­an, en alltaf var jafn gam­an og inn­blás­andi þegar það gerðist. Hann hafði sam­band við mig í árs­byrj­un í fyrra og boðaði mig á sinn fund og það varð eft­ir­minni­leg stund. Hann var að bera und­ir mig góðar hug­mynd­ir tengd­ar út­gáfu­mál­um og vildi fá mig í sam­starf, sem ég var meira en fús til. En af því varð ekki því ein­hverj­um vik­um síðar greind­ist hann með hinn ill­víga sjúk­dóm sem nú hef­ur lagt hann að velli. Guð blessi minn­ingu um góðan dreng og all­ar góðar vætt­ir styrki hans nán­ustu.

Ein­ar Kára­son.

 

Á lífs­leiðinni flétt­ast vin­ir oft inn og út úr lífi manns, vegna starfa og aðstæðna. En vina­bönd­in slitna ekki. Í MR var ég í skemmti­legri klíku sem brallaði sam­an fram á nótt mörg kvöld í viku, með spjall, hlát­ur og teþamb að leiðarljósi. Ein­hverj­ar jón­ur voru reykt­ar og eitt­hvert rúss­neskt vod­ka var sötrað – enda selt fyr­ir böll­in beint upp úr skipi – og það við hliðina á ball­miðasölu­borðinu í Casa Nova. Þannig störfuðu frum­kvöðlar árs­ins 1972. Einn í þess­ari skemmti­legu klíku var Bjössi. Við klíku­fé­lag­arn­ir tók­um að okk­ur að gefa út aug­lýs­inga­blað MR til að safna fyr­ir stúd­enta­ferð í lok 5. bekkj­ar. Nær all­ur okk­ar tími utan skóla fyr­ir jól fór í að vinna að því að safna aug­lýs­ing­um. Svo mik­ill tími fór í verk­efnið að við féll­um öll meira og minna í stærðfræði í jóla­próf­un­um – bæði þau sem voru í mála­deild og ég sem var í eðlis­fræðideild. Hér þurfti að for­gangsraða. Við fund­um öll okk­ar leið. Einn flutti sig yfir í MH, einn sann­færði Guðna rektor um að fá að stökkva upp í 6. bekk og verða stúd­ent um vorið. Við hin sett­umst niður við að glíma við kal­kul­us. Þarna skildi leiðir. Ef ég man rétt þá var ég sú eina úr klík­unni sem fór í vorferðina í lok fimmta bekkj­ar… í Þórs­mörk!

Við Bjössi bjugg­um bæði ára­tug­um sam­an er­lend­is. En þrjá­tíu árum eft­ir að leiðir skildi hitti ég Bjössa hjá fé­laga okk­ar í mat­ar­boði í Reykja­vík, og þá kom í ljós að við bjugg­um bæði í Bretlandi, hann í Cambridge og ég í Bristol. Þá var son­ur minn (og síðar dótt­ir mín) að fara í nám í Cambridge og næstu fimm árin var ég alltaf vel­kom­inn gest­ur á heim­ili Bjössa og Betu. Ég hef ekki tölu yfir gist­inæt­urn­ar og góðu máltíðirn­ar, sem mér var boðið í þegar leið mín lá með börn­in mín þessi ár fram og til baka milli Bristol og Cambridge. Þetta voru alltaf skemmti­leg­ar sam­veru­stund­ir. Mikið var spjallað og við vor­um oft ekki sam­mála, en það skipti engu máli. Bjössi var yf­ir­leitt með grill­tang­irn­ar og kímn­ina á lofti. Og eft­ir mat spilaði hann á pí­anóið og við sung­um með. Eft­ir að námi barn­anna minna í Cambridge lauk hafa sam­veru­stund­irn­ar verið fáar, enda bjugg­um við ekki nema stutt­an tíma í sama land­inu.

Ég vil þakka Bjössa af öllu hjarta fyr­ir vin­skap­inn, og hon­um, Betu, Önnu Lísu, Ingi­björgu og Jónasi fyr­ir að taka alltaf vel á móti okk­ur. Börn­in mín Tommi og Kata senda samúðarkveðjur með þökk fyr­ir gest­risn­ina.

Það er trú vinátta þegar aðskilnaður í lang­an tíma breyt­ir engu. Blessuð sé minn­ing Bjössa.

Krist­ín Vala Ragn­ars­dótt­ir.

 

Við Björn vor­um nán­ir sam­verka­menn og vin­ir um ára­bil; fáir menn mér óvanda­bundn­ir hafa haft meiri áhrif á viðhorf mín og viðfangs­efni; ein­stak­lega skemmti­leg­ur, frum­leg­ur og frjór, meist­ari sam­ræðunn­ar og hafði jafn­an lag á að sjá hlut­ina frá óvænt­um sjón­ar­horn­um, fram­sýnn og skarp­ur.

Við kynnt­umst fyrst þegar hann kom til liðs við Tíma­ritið Svart á hvítu og síðar enn bet­ur þegar við sát­um í svo­kallaðri stuðnings­nefnd við franska flótta­mann­inn Pat­rick Gerv­a­soni sem skók ær­lega ís­lenska póli­tík haustið 1980. Við stofnuðum síðan út­gáfu­fé­lag 1981 und­ir nafni Svarts á hvítu nokkr­ir strák­ar; þeir bræður Friðrik Þór, for­ystumaður í Galle­rí Suður­götu 7 og tíma­rit­inu, og Þór­leif­ur Friðriks­syn­ir, Sveinn Blön­dal og við Björn Jónas­son. Svo gáf­um við út hljóm­plötu með tón­list­inni úr kvik­mynd­inni eft­ir Punkti Pét­urs Gunn­ars­son­ar, síðan kom Frjáls­hyggj­an eft­ir Birgi Björn Sig­ur­jóns­son, sem dugði því miður ekki til að kveða þá stefnu í kút­inn, og slangur­orðabók okk­ar Svavars Sig­munds­son­ar og Marðar Árna­son­ar árið 1982. Útgáf­an efld­ist og dafnaði und­ir stjórn Björns og Guðmund­ar Þor­steins­son­ar og und­ir miðjan ára­tug­inn var haf­ist handa um að gefa út Íslend­inga­sög­urn­ar all­ar og þætti í hand­hægri og aðgengi­legri út­gáfu. Björn kallaði þar til verka okk­ur Jón Torfa­son frænda sinn, Sverri Tóm­as­son og Braga Hall­dórs­son. Sög­urn­ar komu út í tveim­ur stór­um bind­um og síðan í auk­inni þriggja binda út­gáfu 1987 og náðu gríðar­mik­illi út­breiðslu. Í kjöl­farið kom Sturlunga með miklu skýr­ing­ar­bindi ári seinna og jafn­framt skóla­út­gáf­ur tólf sagna í tveim­ur bind­um með skýr­ing­um og for­mál­um und­ir heit­inu Sí­gild­ar sög­ur. Ég verð Birni æv­in­lega þakk­lát­ur fyr­ir að gefa mér – og okk­ur sam­verka­fólk­inu sem jafn­an vor­um kölluð forn­grip­irn­ir – þetta tæki­færi til að vinna með sagna­arf­inn.

Þá gaf Björn út Völu­spá og Há­va­mál í fal­legri út­gáfu Gísla Sig­urðsson­ar, heild­arsafn Jónas­ar Hall­gríms­son­ar í afar vandaðri út­gáfu þeirra Páls Vals­son­ar, Sveins Yngva Eg­ils­son­ar, Þor­steins Indriðason­ar og Hauks Hann­es­son­ar, og fjöl­marg­ar bæk­ur aðrar sem vitnuðu um brenn­andi áhuga hans og ástríðu fyr­ir því að miðla hinu besta úr heims­bók­mennt­um og ís­lensk­um bók­mennt­um allra alda til al­menn­ings í vönduðum, fal­leg­um og aðgengi­leg­um út­gáf­um.

Björn gaf líka út tvær þýðing­ar Thors föður míns, Hlut­skipti manns og Nafn rós­ar­inn­ar, og gerði hann síðan að met­sölu­höf­undi, öll­um að óvör­um, þegar hann gaf út Grámos­ann árið 1986. Eft­ir að Svart á hvítu hætti hélt Björn áfram að gefa út fal­leg­ar bæk­ur, eddu­kvæði á fjöl­mörg­um tungu­mál­um, Snorra-Eddu með önd­veg­is­verk­um mynd­list­ar­sög­unn­ar og nú síðast þýðing­ar Ein­ars Thorodd­sen á fyrstu tveim­ur hlut­um Gleðileiks­ins guðdóm­lega. Fram­lag hans til ís­lenskr­ar bók­menn­ing­ar er ein­stakt og sann­ar­lega glæsi­legt.

Við Mar­grét Þóra send­um Elísa­betu, börn­um þeirra og fjöl­skyld­unni allri okk­ar inni­leg­ustu samúðarkveðjur.

Örn­ólf­ur Thors­son.

 

Það var snemma á ár­inu 2022 sem fyrst kom til tals að stofna fé­lags­skap þeirra sem voru gagn­rýn­in á skerðing­ar á at­hafna- og tján­ing­ar­frelsi meðan á kór­ónu­veirufar­aldr­in­um stóð. Þetta fé­lag hlaut nafnið Mál­frelsi – sam­tök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mann­rétt­indi. Björn Jónas­son var ekki aðeins einn helsti hvatamaður­inn að stofn­un fé­lags­ins, held­ur átti hann einnig veiga­mik­inn þátt í að móta lyk­i­lá­herslu þess, sem er vernd tján­ing­ar­frels­is­ins, enda er „mál­frelsið það eina sem skipt­ir máli“ eins og hann sagði oft. Björn sat í stjórn Mál­frels­is frá fyrsta stofn­fundi þess, var virk­ur í starfi fé­lags­ins eins lengi og heils­an leyfði og lét ekk­ert tæki­færi ónotað til að efla og styrkja starf þess.

Við í stjórn Mál­frels­is sjá­um nú á eft­ir góðum fé­laga. Við erum full þakk­læt­is fyr­ir að hafa notið krafta hans og vott­um fjöl­skyldu hans inni­lega samúð okk­ar á þess­um erfiðu tím­um.

Fyr­ir hönd stjórn­ar Mál­frels­is,

Svala Magnea Ásdís­ar­dótt­ir, formaður.

 

Við frá­fall góðvin­ar míns Björns Jónas­son­ar hvarf úr lífi mínu einn hug­mynda­rík­asti og skemmti­leg­asti maður sem ég hef þekkt. Ég kynnt­ist hon­um vel sum­arið 1976 þegar ég sveitt­ist við að læra frönsku ásamt konu minni, Ell­en Lar­sen, og Birni í borg­inni Bes­ançon, þar sem ann­áluð hita­bylgja reið yfir, en um haustið hóf­um við síðan öll há­skóla­nám í Frakklandi. Það sum­ar hnýtt­ust þau vináttu­bönd sem héld­ust traust þar til Björn lauk ævigöngu sinni.

Síðar tókst góð vinátta með fjöl­skyld­um okk­ar og ætíð var gam­an að heim­sækja Betu og Bjössa, hvort sem var hér­lend­is eða er­lend­is, en þau hjón bjuggu sér víða heim­ili á langri og anna­samri starfsævi. Þá var gleðin við völd og lítið um vand­ræðal­eg­ar þagn­ir.

Marg­ar minn­ing­ar leita á hug­ann í sorg­inni. Eft­ir­minni­leg­ast er þó tíma­bilið þegar Björn og forn­vin­ur minn Guðmund­ur Þor­steins­son tóku við bóka­út­gáf­unni Svart á hvítu, sem var þá vart hrokk­in úr burðarliðnum, og gerðu hana að stór­veldi á ís­lensk­um bóka­markaði. Með tvær hend­ur tóm­ar tókst þess­um ungu full­hug­um ætl­un­ar­verkið með ein­stakri elju og út­sjón­ar­semi. Þá var líf í tusk­un­um og gam­an að taka þátt í æv­in­týr­inu þó svo í litlu væri. Þegar ég renni aug­um eft­ir bóka­hill­un­um og rifja upp í hug­an­um all­an þann fjölda hnýsi­legra og vandaðra rita, sem þetta merka for­lag gaf út, þá er það með hrein­um ólík­ind­um.

Eft­ir að æv­in­týr­inu um Svart á hvítu lauk eins og því lauk stofnaði Björn bóka­út­gáf­una Guðrúnu. Frá því öfl­uga for­lagi hafa meðal ann­ars komið einkar fal­leg­ar út­gáf­ur af perl­um ís­lenskra forn­rita á er­lend­um mál­um.

Ein þeirra bóka, sem út hafa komið hjá Guðrúnu, er mér þó kær­ust því hún sýn­ir svo glöggt hversu sann­ur fag­ur­keri og bibl­íófíl Björn var. Þetta er stór­glæsi­leg út­gáfa af Snorra-Eddu, skreytt eft­ir­prent­un­um af mál­verk­um, byggðum á minn­um úr Snorra-Eddu, eft­ir fræga mál­ara af mörgu þjóðerni. Þessa bók hef ég alltaf uppi við og glugga iðulega í mér til ynd­is.

Frá því kynni okk­ar hóf­ust höf­um við Björn margt brallað og um margt spjallað. Allt frá því að við, ung­ir og blank­ir, hjálpuðumst að við að halda bíldrusl­un­um okk­ar gang­andi yfir í það að við, roskn­ir reynslu­bolt­ar, fund­um leiðir til að leysa marg­vís­leg­an vanda sem að mann­kyn­inu steðjar. En sam­skipti við Björn voru und­an­tekn­inga­lítið skemmti­leg og örv­andi. Hann þoldi ekki vana­hugs­un og fann iðulega ný og áhuga­verð sjón­ar­horn á viðfangs­efn­in. Síðasti ræðumaður þurfti að vera á varðbergi þegar Björn var viðstadd­ur.

Lokakafla ævi­skeiðsins glímdi Björn við ill­víg­an sjúk­dóm. Það var þung­bært að sjá hvernig þessi frjói hug­ur myrkvaðist í veik­ind­un­um uns hann að lok­um hvarf okk­ur al­veg.

Við Ell­en vott­um Elísa­betu sem og fjöl­skyld­unni allri okk­ar dýpstu samúð.

Jón Ingólf­ur Magnús­son.

 

Eftirfarandi minningarorð birti Gunnar Smári Egilsson á feisbók:

Þegar ég heimsótti Björn Jónasson á líknardeildina í Kópavogi sagði hann fátt. Það var eins og hann væri að falla inn í sjálfan sig. Ég spurði hvort hann væri hræddur? Kvalinn? Hann horfði á mig stórum augum, eilítið útstæðum og rökum, og hristi höfuðið. Frammi fyrir dauðanum verður allt veigalítið, hugsa ég. Ég held það, en veit ekki. Ég hef ekki horfst í augu við dauðann eins og Bjössi gerði þar sem hann lá í rúminu. Og ég gat því lítið stutt hann eða huggað.
Ég tók hönd hans og hélt í minni, sætti lagi því Björn var kannski ekki maður sem leiddi karla. Síðast þegar ég heimsótti hann hafði ég kysst hann á ennið, honum til nokkurrar furðu. Ég vildi halda í höndina á honum meðan ég sagði honum nokkuð sem mér fannst mikilvægt; að ég hefði sem ungur maður fylgst með honum úr fjarlægð byggja upp Svart á hvítu og dáðst af honum. Ég vildi segja honum að hann hefði alla tíð verið mér innblástur og verið það örugglega líka fyrir aðra menn eins og okkur, menn sem vilja ráðast á hamra sem eiga að vera ókleifir eða hlaupa upp brekkur sem reynast svo vera Brattabrekka endalaust, svo endalaus að við komust aldrei upp. Enda snýst leikurinn ekki endilega um það.
Ég veit að ég var mörgum áratugum of seinn til að segja honum þetta, en ég hafði svo sem talað kringum þetta áður. Svart á hvítu reis hátt og hrapaði svo í einhverri af þessum endalausu efnahagskreppum sem ganga yfir okkur, ætli fyrirtækið hafi ekki kafnað í háum vöxtum, svipuðum þeim sem eru að drepa allan gróanda í dag. Og eins og oft verður í þessu litla krypplaða samfélagi okkar voru þau mörg sem hneyksluðust og þóttust vita að Svart á hvítu hafi ekki farist á grynningum íslensks efnahagslífs heldur hafi skipstjórinn siglt útgáfunni upp í land í einhverri rjómablíðu.
Björn Jónasson var auðvitað margt og ég þekkti fæst af því, en hann birtist mér stundum sem harmsögupersóna, maður sem var á flótta undan dómi samfélagsins sem sló hann fast og sem hann kaus að beygja sig undir. Það má segja að hann hafi flutt land úr landi og tekið á sig einskonar útlegðardóm. Og dregið Ísland með sér hvert sem hann fór. Þótt honum hafi fundist sem Ísland hafi hafnað honum var Bjössi sífellt að hugsa um Ísland, leita leiða til að lækna þetta beyglaða samfélag okkar. Bjössi var einn af bestu sonum þjóðarinnar, eins og stundum er sagt um fólk. Og margt af því fólki upplifir að þjóðin hafi hafnað sér. Sem er náttúrlega harmur þessarar fámennu þjóðar, að fara illa með sitt besta fólk. Og líka harmur þeirra sem vilja þjóð sinni vel, að vera sviptir rödd sinni af þeim sem telja sig eiga landið og miðin, og þjóðina líka.
Einu sinni þegar ég ræddi þetta við Bjössa vildi ég beita lútherskum almennum prestskap og segja honum að hann þyrfti ekki að vera sakbitinn, honum hefði verið fyrirgefið fyrir löngu, að guð hefði fyrirgefið okkur breyskleikann og að við ættum ekki að dæma okkur fyrir hann, að okkar verkefni væri að þiggja fyrirgefninguna sem okkur stæði alltaf til boða. Hann horfði á mig þessum stóru augum, eilítið útstæðum, sem sögðu að ég skildi þetta ekki, þetta væri ekki svona einfalt. Og ég horfði á móti og reyndi að segja með þrjóskunni að þetta væri víst svona einfalt. Og að það einfalda væri satt, ekki flækjan.
Bjössi kom inn í mitt líf eftir Hrun. Hann hringdi í mig og bauð mér að hitta sig og breskan þingmann að ræða kvótakerfið. Og svo kallaði hann á mig til að hitta einhvern annan og upp úr þessu þróaðist vinátta. Bjössi hentaði mér vel sem vinur. Hann hafði þolinmóð eyru fyrir minn símalandi munn. Hann var hlýr meðan ég er hrjóstugur, hann vildi fara fetið meðan ég tolli illa í nokkurri gangtegund. Mér þótti vænt um hann og ég held að honum hafi fundist vænt um mig. Hann kynnti mig fyrir mönnum sem síðan urðu vinir mínir. Það er rausnarlegt, að gefa vinum sínum vini sína. Og hann var örlátur og hugmyndaríkur á margan hátt.
Þegar Samstöðin var varla orðin til kveikti Bjössi strax á að þarna væri eitthvað á ferðinni, einhver neisti. Hann hjálpaði okkur til að forma reksturinn og var fyrsti stjórnarformaður Alþýðufélagsins sem á og rekur Samstöðina. Og þótt þetta hafi varla verið hugmynd í upphafi, lítið annað en leikur og í sjálfu sér enginn rekstur, þá ræddum við Samstöðina fram og til baka, hvað hún mætti alls ekki verða og hvað hún gæti orðið. Sumt af því hefur ræst. Það er máttur skapandi samstarfs.
Ég vildi líka segja þetta þegar ég hélt í höndina á Bjössa á líknardeildinni, að hann hefði verið mér mjög góður maður, snert líf mitt á einstaklega gefandi og gróandi hátt. Hann hefði reynst mér vel og að ég væri þakklátur fyrir að hafa kynnst honum. Þá lak tár úr þessum stóru augum og hann sagði: Þetta er gott.
Þannig kvaddi ég þann góða mann, Björn Jónasson, og þáði blessun hans. Blessuð sé minning hans. Ég mun sakna hans, hef saknað hans frá því hann fór að hverfa inn í veikindi sín síðustu mánuði.
Björn Jónasson látinn

 


Minningarorð séra Gunnþórs Ingasonar um Björn á samfélagsmiðli:

Björn Jónasson, bókaútgefandi, verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík á morgun þriðjudaginn 17. september og mun útförin hefjast kl. 15:00. Birni kynntist ég sem yngri bróður Ögmundar, bekkjarbróður míns og sessunautar í 4. bekk í MR, á heimili foreldra þeirra að Melhaga 3, sæmdarhjónanna, Guðrúnar Ö. Stephensen, sem menntast hafði í uppeldisfræðum bæði í Svíþjóð og Vesturheimi, og Jónasar B. Jónssonar, fræðslustjóra og skátahöfðingja Íslands.

Ég sé Bjössa enn fyrir mér við fyrstu kynni okkar leika glaðlyndan á píanó í dagstofunni með fallega bláa sófasettinu og málverki Jóns Þorleifssonar af Snæfellsjökli á vegg. Hann var þá að spila eða semja eigin tónlist. Þetta mun hafa verið um líkt leyti og Björn lék leynilögreglustrákinn klára Karl Blómkvist í samnefndri kvikmynd sem sýnd var í Sjónvarpi allra landsmanna. Ekki hefði komið á óvart að Bjössi gerðist leikari eða tónlistarmaður. Hann fór ekki alveg inn á þær brautir þegar hann lagði síðar fyrir sig bókaútgáfu, en næmi hans og listfengi fengu þar vel notið sín.

Á vegum bókaútgáfunnar Svart á hvítu sem Björn stofnaði til voru gefin út mörg öndvegisrit íslenskrar bókmenntasögu svo sem Íslendingasögurnar með faglegum skýringum og í glæstri umgjörð og búnaði og einnig innlend og erlend merkis skáldverk. m.a. þýðing Thors Vilhjálmssonar á trúarlegu glæpasögunni, Nafni rósarinnar eftir Umberto Ecco, en betri spennusögu hef ég enn ekki lesið.

Útgáfufélagið Guðrún, sem Björn kom síðar á laggirnar, bar nafn móður hans. Hún verður mér ávallt minnisstæð fyrir mannkosti sína, gáfur og gæði. Þetta útgáfufyrirtæki vitnaði ekki síður en það fyrra um virðingu og rækt Björns við íslenska sögu og menningu að fornu og nýju og var honum til mikils sóma.

Síðast bar fundum okkar Björns saman fyrir rúmu ári á afmælisdegi Ögmundar bróður hans og vildarvinar míns. Þá glímdi Björn við vágestinn sem felldi hann að lyktum. Hann var veikburða en bar sig vel, æðrulaus, hlýr og kíminn. Við ræddum um undur lífs og leyndardóma, líka dauðann og trúna og lífið nýja, sem Jesús Kristur vísar til og gefur. Áður en ég kvaddi færði Björn mér Eddu Snorra Sturlusonar að gjöf, nýútgefna á vegum Guðrúnar. ,,Mikil rannsóknarvinna liggur að baki þessarar útgáfu’‘, greinir Björn frá í eftirmála. ,,Það má segja að Snorra Edda sé fæðingarvottorð norrænnar menningar“, ritar hann þar líka. Er ég les og fletti þessu stórmerka riti, Snorra Eddu, fagurlega myndskreyttu í glæstum búnaði sínum sé ég Björn fyrir mér og finn svo vel til þess hve hann var tónviss og skynugur, vitur og vandvirkur og hugað um þau raunsönnu lífsgildi og menningar verðmæti, sem líkt og vísa út fyrir sig til æðri heima ofar jarðneskum tíma og sögu. Guð gefi góðan ávöxt af vitnisburði og verkum Björns Jónassonar hér í heimi og fullkomni líf hans í upprisuljóma Frelsarans og huggi, styrki og lýsi fjölskyldu hans og ástvinum veginn fram.

Minningarorð Halldórs Gumundssonar á samfélagsmiðli:

Íslensk bókaútgáfa á Birni Jónassyni mikið að þakka. Þegar hann, ásamt öðru góðu fólki, stofnaði forlagið Svart á hvítu, var ekkert verið að víla neitt fyrir sér: Að gefa allar Íslendingasögur með nútímastafsetningu út í einu bindi, drífum í því, að búa til gagnagrunn áður en nokkur maður utan Reiknistofu bankanna vissi hvað það var, ekki málið, að gera Thor Vilhjálmsson að metsöluhöfundi: þó það nú væri. Það var ekki hægt annað en að dást að þessum krafti og dugnaði en þar að auki var Björn vel að sér og hafði traustan bakgrunn úr nútímamyndlist og tímaritaútgáfu. Rekstur bókaútgáfu hérlendis gengur alltaf upp og ofan, en Björn náði alþjóðlegri fótfestu með almenningsútgáfum sínum á Eddukvæðum; man að ég fylltist lúmsku stolti á Noregsárum mínum þegar ég sá bækurnar hans á fjölda tungumála fylla hálfa verslunina í víkingasafninu góða. Og svo var hann með afbrigðum skemmtilegur og hugmyndaríkur maður. Elísabetu og fjölskyldunni allri sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Minningarorð Óskars Guðmundssonar, Véum, á samfélagsmiðli:

Björn Jónasson - Vegna fjarveru í útlöndum gat ég ekki fylgt mínum gamla vini á útfarardegi – en vildi minnast hans með örfáum eftirfarandi orðum:

Þegar hann viðraði drauma um athafnir og fyrirtæki máttu auðhringar heimsins vara sig. Minn maður flaug með himinskautum. Til að varpa ljósi á athafnaskáldið Björn Jónasson er við hæfi að horfa til uppruna hans; annars vegar var hann kominn af byltingarsinnuðum Stefánungum og séraþorvaldarBöðvarssonarsálmaskáldsíholtikyninu og hins vegar af húnvetnskum óðalsbændum og íhaldssömum framkvæmdamönnum. Þessar erfðir allar úr ættanna kynlega blandi tókust á í Birni; listamaðurinn var á morgni æfinnar alveg eins líklegur til að tjá sig í litum og tónum og í athafnalífinu sem varð hans vettvangur ævilangt.

Á ungum aldri þótti okkur mörgum vinstri mönnum við hefðum eignast nýjan Thor Jensen eða kannski frekar Einar Benediktsson í Birni, því þannig sláttur var á okkar manni. Draumarnir voru stórkostlegir og Björn hafði hæfileika til að hrífa annað fólk með sér til óteljandi verkefna á menningarsviðinu. Óhjákvæmilega þurftu nokkrar draumahallir að hrynja á leiðinni til æðri þroska. Og þá skipti miklu að við söfnuðum andlegu þreki til að skríða undan rústunum – og byrja upp á nýtt.

Björn þurfti nokkrum sinnum á æfinni að endurfæðast til nýrra athafna. Lífið gat orðið erfitt á köflum, líka vegna þess að minn vin var lífsnautnamaður af því tagi sem tók ekki alltaf tillit til þess sem var heilsunni fyrir bestu.

Við ræktum lengi með okkur félagsskap og vináttu. Þessi vinskapur hófst á byltingarárunum þegar Bjössi og Beta bjuggu á Grímshaganum og við ætluðum að bjarga Gervasoni. Björn var að búa sig undir að taka flugið og innan fárra ára var hann önnum kafinn athafnamaður sem gustaði af. Á níunda áratugnum var ekkert á himni eða jörðu utan áhugasviðsins. Hann hratt mörgu af stað og hvatti vini sína til dáða. Við félagar áttum nána samleið á þessum árum; hann gaf tilamynda út eftir mig átakasögu Alþýðubandalagsins sem átti að vera eins konar uppgjör okkar kynslóðar við sovétkommúnismann og fortíðina. Síðar meir fékk hann mig til að taka við ritstjórn Þjóðlífs því það vantaði vettvang fyrir uppstokkun á pólitík til framtíðar.

Við ræktuðum einnig vináttu og félagsskap á fjölskyldugrundvelli, við Stína - og Bjössi og Beta – og börnin, fórum í sumarferðalög og glöddumst saman um jól eða áramót. Síðar meir trosnuðu böndin nokkuð við ágjafir og landfræðilega fjarlægð, en aldrei slitnuðu þó vináttuböndin sem við bundumst forðum.

Meðal afreka Björns var að fá úrvalsfólk til vinnu svosem á sviði íslenskra fornbókmennta og gefa út menningararfinn og gera að almenningseign. Afrek þessa athafnamanns á útgáfusviðinu voru magnþrungin. Mörgum okkar þótti þáttur Björns í nýsköpun íslenskrar menningar vanmetinn og að hann væri verður þjóðarlofs fyrir lífsstarf sitt. En við sem áttum hann að félaga og vini þökkum fyrir gjöfula og litríka samfylgd. - Hugur okkar Stínu um þessar mundir er hjá Betu og börnunum. Megi allt gott umfaðma þau. 

 
Erla Sigurðardóttir skrifar á samfélagsmiðli og birtir gamla mynd:

Ég kynntist Bjössa þegar kennari í MH valdi okkur í fámennan hóp undir því yfirskini að við ættum að aðstoða hann við að þýða franska málfræðibók. Ekki minnist ég margra tíma við slíka iðju, hitt man ég þegar við sátum á Mokka og hlustuðum á kennarann fara með frumsamið ljóð með tilheyrandi hreim: Ég hata náttúruna, ég elska malbikið í borginni. Við sýndum engin svipbrigði, ekkert skyldi koma okkur á óvart, ungum og upprennandi heimsborgurum í fásinninu í Reykjavík 1974.
Um vorið fórum við Bjössi til dvalar í Ölpunum í boði franska ríkisins. Þar bjargaði hann geðheilsu minni og mig grunar reyndar að það hafi verið gagnkvæmt. Við höfðum ekki séð það fyrir að við ættum að klífa fjöll og komast hundrað metra upp fyrir snjólínu. Enda skrópuðum við, reyktum Gitanes og hlýddum hvort öðru yfir upp úr fransk-enskri orðabók.
Leiðir okkar áttu eftir að liggja saman í Kaupmannahöfn þegar hann vann á Litla apótekinu og síðar þegar þau Beta fluttu hingað með börnin. Einhver ár liðu þar til við þrjú tókum upp þráðinn á bókamessu í Lundúnum. Áttum góðar stundir saman ásamt mínum fyrrverandi í Cambridge og víðar. Fyrir tveimur árum sá ég Bjössa og Betu aftur þegar ég var á leið úr jarðarför Gilla vinar míns. Þá var gott að faðmast á ný.
Þrátt fyrir að samgangur hafi ekki verið mikill í klukkustundum talinn varð vinátta okkar til á mikilvægum mótunarárum. Frjó og oft ögrandi samtöl hreyfðu alltaf við mér og vöktu mig til umhugsunar, hvort sem var í franskri brekku fyrir ofan Briançon, í rökkvuðu herbergi á Nørrebro eða í flugvél á milli landa. Ég á alltaf eftir að minnast Bjössa með hlýju og þakklæti. Ég votta elsku Betu og börnunum innilega samúð.
(Myndin er af Bjössa á 21 árs afmæli hans í frönskum fjöllum, júní 1975)

 

Gæti verið mynd af 1 einstaklingur
 

 

 

Útafararræða séra Kristins Áústs Friðfinnssonar:

I

Langnætti vetrar leið, sól skein og aftur er að hausta, svo skín jólaljós og svo langnætti um Þorra og Góu og svo hækkar sunna á lofti úr suðurgöngu og marghrjáð hafalda, sem brotnað hefur við blindsker, útnes og flúðir, hefur fallið að og gert þar síðustu tilraun til að halda reisn sinni, áður en hún fellur aftur til uppruna síns eins og lífið sjálft gerir að lokum.

Sumir kjósa sér byggð í brekkuskjóli, aðrir vilja fremur sjá vítt til og lifa sem lengstan dag í ljósi sólar. Og ekki mun Þorkell máni einn um það íslenskra manna, að vilja að leiðarlokum fela önd sína þeim guði er sólina skóp.

Í þúsund ára sögu Íslands hefur birtan þó stundum aðeins verið ljósrák frá fjarlægum heimi, sem fólkið í landinu, kynslóð fram af kynslóð, þráði svo mjög, en hafði ekki á valdi sínu … og þannig er lífið enn, ljósið sem við okkur skín hér er ljós Krists, sem minnir okkur á að líf okkar blómstrar aftur eins og vonin sem aldrei deyr og hann bað okkur um að huga vel að hvert öðru, því þannig skini ljósið hans áfram og gerði lífið bærilegra og um leið værum við að hefja til vegs og virðingar þann sem ljósið og lífið gæfi.

Á fyrri hluta síðustu aldar bjó hér fólk, sem var stórt að allri gerð, sem kunni vel samskiptum við gjöfula náttúru í góðæri, mætti með skapfestu vá og vetrarhríðum og þraukaði til næsta sólmánaðar þegar geislafingur glitaði fell og tind og fuglinn kliðaði í friði og röðull lýsti og vermdi. Hér var þá mannlíf, sem hafði yfir sér tæra heiðríkju bjartra sólnátta, en einnig á stundum skuggþungt skammdegi. En þó vóg baráttuþrek mannfólkins, víkingaeðli þjóðarinnar og stolt og tign meira en heljartök mótvinds og skúraleiðinga. Hið gamla samfélag var enn lifandi og þessi áreitni nýi tími hafði ekki enn gert rúmrask.

Þeir sem fæddust á þessum tímum fengu dýrmætan reynslutíma, oft með storminn í fangið, og þurftu oft að taka glímu við tíðarandann, sem þó skilaði þeim sterkum er upp var staðið, stundum bognum en ógjarnan brotnum fyrr en í bylnum stóra seinast. Og fyrir mátt fóðursins, sem notað var í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, hafði þjóðin fengið yfirferð um rætur þjóðmenningar og um samhengið í sögu lands og lýðs. Bakland Björns Jónassonar, sem við kveðjum hér í dag, var af þessari kynslóð.

En svo komu betri tímar, svo gjöfulir að þjóðin hafði ekki upplifað annað eins, stríðsárin þegar allir fengu allt í einu vinnu og svo síðar uppgangstími með stórauknar þjóðartekjur vegna aflasældar og velmegunar í samræmi við það og í stað glímu við tíðarandann var tekinn laufléttur tangó. Af þessari kynslóð var Björn Jónasson.

Með sýn og fótfestu í sögu okkar og bókmenntum erum við enn að vakna til meðvitundar um hver við erum. Kynslóð okkar er vel kunnugt um að stundin flýgur hratt og margt hefur tilhneygingu til að týnast og mikilvægt er að eitthvað standi stöðugt á hraðfleygri öld síðan eftir stríð. —- Nú er ástæða til að færa fólk nær hvert öðru með innihaldsríkum samtölum og upprifjun þeirra tíma þegar laglínur rímuðu við hjartslátt náttúrunnar, söngtextar lýstu tíðaranda, rómantík og saklausri gleði og ástin og fiðurlétt undur fylgdu ferskum kvöldblænum á rölti um Kvosina í önn og yndi hinna virku daga.

II

Inn í þessa veröld fæddist Björn Jónasson í Reykjavík 20. júní 1954 og var því á 71. aldursári er hann andaðist á líknardeild Landspítalans 6. þ.m. Hann var yngsta barn merkishjónanna Jónasar Bergmann Jónssonar, fræðslustjóra í Reykjavík, og Guðrúnar Ö. Stephensen, húsmóðir. Systkini Björns lifa hann og kveðja hann hér í dag, en þau eru Jón Torfi, fv. forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Ögmundur, fyrrum formaður BSRB, alþingismaður og ráðherra og Ingibjörg, fv. fræðslustjóri.

Eiginkona Björns er Elísabet Guðbjörnsdóttir, lögmaður. Hún lifir eiginmann sinn og kveður hann hér. Börn þeirra eru þrjú: Anna Lísa, Ingibjörg og Jónas Begmann. 1) Anna Lísa er gift Ásmundi Tryggvasyni og þau eiga þrjú börn. 2) Ingibjörg er í sambúð með Atla Pétri Óðinssyni og þau eiga eitt barn en fyrir átti hann tvö börn. 3) Jónas Bergmann er kvæntur Brittany Kolnaski Solar og þau eiga þrjú börn.

Lífsstarf Björns var á sviði gerjunar og umbrota í listum, menningu og stjórnmálum. Markmiðið hans var að gera bæði fyrri tíma menningu og samtímamenningu aðgengilega almenningi. Hann var ritstjóri Stúdentablaðs Háskóla Íslands og kom að starfsemi Gallerí Svart á hvítu í Suðurgötu 7 í Reykjavík, þar sem hefur verið vettvangur fyrir gerjun í íslenskri myndlist.

Björn stofnaði ásamt fleirum útgáfuna Svart á hvítu sem gaf út Íslendingasögurnar með nútímastafsetningu, Sturlungasögu og heildarverk Jónasar Hallgrímssonar. Þá hóf útgáfan vinnu við útgáfu Sögu-Atlas.

Svart á hvítu var jafnframt útgefandi fjölda þýddra sem og íslenskra skáldverka og meðal þekktra höfunda í þeim hópi má nefna Thor Vilhjálmsson, Vigdísi Grímsdóttur, Umberto Eco og Virginiu Woolf. Björn stóð jafnframt að gerð gagnagrunns með Íslandslýsingu og Lagagrunns með öllum íslenskum hæstaréttardómum frá upphafi.

Útgáfufélagið Guðrún sem Björn stofnaði árið 1992 gaf m.a. út Hávamál á 15 tungumálum og Snorra Eddu samofin málverkum margra þekktustu listamanna Evrópu sem hefur vakið mikla athygli um allan heim. Þá gaf hann út tvö bindi Guðdómlega gleðileiksins eftir Dante, Víti og Skírnarfjall, í þýðingu Einars Thoroddsen undir ritstjórn Jóns Thoroddsen með myndskreytingum eftir Ragnar Kjartansson og Elínu Hansdóttur.

III

Enn hver var Björn Jónasson? Hann var maðurinn, sem hafði forgöngu um að ný kynslóð fengi Íslendingasögurnar og aðra forna texta á ritmáli nútímans og til þess kvaddi hann saman landsliðið í íslenskum fræðum, sem vann tímamótarannsóknir á sviði fornbókmenntanna og gerði þennan draum að veruleika.

Og ég spyr: Hefur íslensk þjóð nokkurn tíman verið innblásin sjálfstrausti og áræði til að brjóta ný lönd nema fyrir mátt hinna fornu bókmenntatexta og þess ljóss, sem af lömpunum skein fyrir lýsið sem skáldin gáfu. Þeir sem hafa milligöngu um slíkar gjafir til þjóðarinnar eru á meðal hinna bestu sona og dætra þjóðarinnar. Björn Jónasson og landslið hans voru á meðal hinna bestu sona hinnar íslensku þjóðar.

Björn var í gerðinni fyrst og síðast listamaður, stöðugt nýr og ferskur. Hann var listamaður draumsins, frumkraftsins, áræðisins, hugsjónanna, hugmyndanna og óbilandi trúar á mátt hins mögulega og ekki síst hins ómögulega.

Í gerðinni var Björn listamaður bjartsýninnar, listamaður draumaholdgervingar, listamaður hins stórbrotna, listamaður blíðunnar, hinnar skilyrðislausu vinátta, listamaður víkingaeðlisins, listamaður hins komna og hins ókomna, listamaður frásagnarskemmtunar og leiklistar.

IV

Dagur er að kvöldi kominn & margs væri hægt að minnast nú er æviröðull hefur runnið í sæ, en hver & einn ástvinur og allir sem tengdust Birni ástúðarböndum geyma með sjálfum sér hinar helgustu minningar frá lífi og samvistum við hann og kveðja með innilegu þakklæti, virðingu og blessunaróskum. Það er erfitt að tjá þær tilfinningar sem bærast með ástvinum Björns en mynd hans ber hver og einn í hjarta sínu og þakkar líf og samfylgd.

Margir hefðu viljað vera með okkur hér í dag en höfðu ekki tök á því. Þórunn Einsrsdóttir, frænka Björns, og fjölskylda hennar búa í Danmörku og biðja fyrir bestu kveðjur til ykkar. Margrét Helga Steindórsdóttir og Guðmundur Lárusson eru stödd erlendis og biðja einnig fyrir kærar kveðjur. Vestan frá Bandaríkjunum sendir Guðrún Ögmundsdóttir og fjölskylda hennar kærar kveðjur og blessunaróskir. Það gera einnig þau Valdimar Axelsson, Alda og fjölskylda.

Lífið er reynsluganga & sáningartími. Það varðar miklu að stefnan á lífsleiðinni sé heilsteypt & að sá akur, sem sáð er í sé frjór & gefi af sér þroskaðan ávöxt. Til að svo megi verða varðar miklu að bera umhyggju fyrir því sem manni hefur verið trúað fyrir, halda í það sem skiptir máli, geta séð og skinjað hinar mörgu hliðar hinna virku daga, staðið með draumum sínum og hugsýnum. Yfir þessum kostum bjó Björn í ríkum mæli og er þá ekkert ofsagt.

Við tökum undir ljóðmælin fögru, sem Jóhannes úr Kötlum orti svo snilldarlega. Ljóðið geymir í örfáum orðum von okkar allra og þá trú, að líf okkar blómstri aftur eins og lambgrasið og grassvörðurinn þegar sést rofa fyrir sólu. Þetta ljóð lýsir upprisutrú kristninnar.

Augasteinn vorsins, lambgrasið litla,

löngum í draumi sá ég þig í vetur.

Guði sé lof, að líf þitt blómstrar aftur,

líkt þeirri von, sem aldrei dáið getur.

Óli lokbrá hefur nú vitjað Björns og lagt aftur augun hans.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

 



Bróðurminning mín í Dómkirkjunni

Björn bróðir minn var ekki mikið gefinn fyrir sjúkrahús. Þegar hófst sá hluti baráttunnar gegn krabbanum sem fram fer innan veggja sjúkrahúsa og honum var gert að mæta í rannsókn og sprautu lagðist hann fullklæddur ofan á rúmið sem honum var ætlað á Landspítalanum. Og þegar hann var spurður hvort hann ætlaði ekki að hátta sig ofan í rúmið, afþakkaði hann með þeim orðum að í þetta sinn ætlaði hann ekki að stoppa.
Svo fór þó að lokum að bróðir minn lagðist í sjúkrarúmið, sáttur og æðrulaus; hafði kynnst mörgu góðu fólki, og þá ekki síst Herunum af Líknardeildinni sem Bjössi sagði að kynnu að tala við fólk.

Árni Páll Árnason var ekki fjarri sannleikanum þegar hann sagði að í sínum huga hefði enginn maður staðið fjær því að vera hópsál en Björn Jónasson og auk þess væri hann spánnýr á hverjum degi, alltaf nýjar hugmyndir, ný viðfangsefni. Í seinni tíð átti Samstöðin hug hans allan sem frjór gagnrýninn umræðuvettvangur og Málfrelsisfélagið væri einnig ómissandi, án málfrelsis og án sjálfstæðrar og óttalausrar umræðu næðum við kvótanum aldrei heim né gætum við yfirleitt staðið á eigin fótum. Og gleymum því aldrei, sagði hann, við þurfum alltaf að vera að, fundurinn sem þú ávarpaðir í gær er nýr fundur í dag með nýju fólki.

Og hið sama gilti um menningararfinn, gamlan og nýjan. Hann væri akur sem stöðugt þyrfti að plægja og síðan næra og rækta og eitt væri víst að aldrei yrði það verk fullunnið. Þetta var sú hugsun sem einkenndi allt hans frumkvæði.

Öðru hvoru var Björn bróðir minn mættur til mín með bunka af bókum. Flestar frá síðari hluta 19. aldar og öndverðri þeirri tuttugustu. Á þessu tímabili reis andinn hátt hjá öllum þorra fólks sagði hann, það var þegar barist var til bjargálna og frelsis – kannski vegna þeirrar baráttu. Og stundum flettum við saman æviminningum, frásögnum og hugleiðingum frá þessum tíma. Þetta þarf að gefa út í heildarútgáfu Íslendingasagna hinna síðari nefndi Bjössi við mig oftar en einu sinni.

Bókaútgáfa Björns, Svart á hvítu, var gríðarlega öflug um árabil, færðist mikið í fang og árangurinn fór ekki framhjá neinum. Aldrei var látið staðar numið og undir lokin var margt í pípunum sem gaf góð fyrirheit. Þannig hafði talsverðum fjármunum, vinnu og orku verið varið í gerð gagnagrunns í góðri samvinnu við sérfræðinga hjá Háskóla Íslands sem allt stefndi í að yrði fyrirtækinu og Háskólanum einnig til mikils framdráttar enda var ætlunin að stíga inn í þá framtíð sem síðar varð en var enn ókomin þegar hér var komið sögu. Skilningur á því var hins vegar á þessum tíma enn takmarkaður og var lýsandi þegar einhverjir sem ekki vissu betur gagnrýndu með talsverðum fyrirgangi að veitt hefði verið veð í einhverju dóti í nokkrum pappakössum. Í kössunum lágu hins vegar verðmæti sem síðar urðu öllum ljós. Þetta er það sem kallað er að vera á undan sinni samtíð.

Endalok Svarts á hvítu urðu Birni þungbær. En hann fékk þá líka að kynnast vináttu sem hann alla tíð mat mikils.

Ekki gafst Björn upp og til varð bókaútgáfan Guðrún, sem er nafn móður okkar, og nú var að nýju siglt þöndum seglum. Þótt Björn liti alltaf svo á að það væri hinn íslenski menningarþráður sem honum væri ætlað að spinna þá var heimsmenningin öll allaf undir, alls staðar á byggðu bóli væri fjársjóði að finna. Árin í Amsterdam og Kaupmannahöfn og í Cambridge á Englandi voru fjölskyldunni mikils virði og Björn naut þess að anda að sér Evrópu, gamalli og nýrri.

Ég held að bróðir minn hefði verið sáttur við val fjölskyldu sinnar á ljóðum og sálmum við þessa kveðjuathöfn. Ég veit að honum þótti vænt um kvæði Davíðs Stefánssonar um fuglana því þar værum við leidd inn í ævintýraheim skáldanna sem kunna að syngja líf í tilveru okkar og þarna væru þeir sem mestu máli skiptu í þessari tilveru, kærleiksstrengirnir sem væri að finna í hjörtum mannanna, allra manna, þeir væru þarna þessir strengir, aðeins að hin himinborna dís fengi þá hrært.

Björn bróðir minn talaði mikið um hve miklu skipti að við breyskir menn gættum að þessum strengjum því að þegar allt kæmi til alls væri hjálpræðið að finna í kærleiksríkri hugsun. Þetta hefði móðir sín kennt sér. Það yrði enginn verri af því að gerast lítillátur gagnvart hinu góða og kærleiksríka hefði hún sagt, og þegar allt kæmi til alls þá lægju allir menn á bæn öllum stundum. Þeir beindu hins vegar ekki alltaf hugsunum sínum í átt til ljóss og sólar.

Ég held að Sigurjón Friðjónsson á Litlu Laugum í Þingeyjarsýslu hefði komist í Íslendingasögur hinar nýrri hjá bókaútgáfunni Guðrúnu ef tími hefði unnist til þótt ekki væri nema fyrir þessar setningar úr Skriftamálum einsetumanns þar sem segir frá því hverju velvildin geti áorkað:

„Sólin vinnur ekki á ísunum, þegar hún byrjar að hækka á lofti. En þó fer svo að lokum, að þeir renna og verða að lífslindum sumarblómans. Líkt er því varið með kærleikann og mannssál, sem bundin er í klaka blindrar eigingirni. Stöðugir velvildargeislar vinna á þeim klaka að lokum og kenna manninum hvað lífið í fyllingu sinni er.“

Frændi Bjössa segir í minningarorðum um þennan frænda sinn að þegar hann hafi verið sestur við píanóið þar sem hann lék af fingrum fram, hafi verið engu líkara en hann hafi verið kominn í sérsamband við almættið.

Í lífi sínu spilaði Björn bróðir minn ekki eftir nótum, ekki fremur en hann gerði á píanóið. Lífið var leikið af fingrum fram. Það gerði hann að þeim skapandi listamanni sem hann var í reynd sjálfur.

Hann leitaðist alla tíð við að koma auga á undur tilverunnar hvort sem það var í fegurð náttúrunnar eða í mannsandanum. Allt væri breytingum undiropið en ætíð gerðist þó Undrið eins og Hannes Pétursson, eitt af uppáhaldsskáldum Bjössa, nefndi eitt ljóða sinna:

Enn gerist undrið/
sem öllu tekur fram/
og eins þó við siglum/
upp úr sjöunda himni:/
enn verður lyngmórinn/
athvarf söngfuglsins/
aftur renna hjarðirnar/
til efstu grasa.

Þannig heldur lífið áfram og enn hvíslar móðir í eyra drengsins síns…
nú megi hann leggja augun aftur …