BLAÐ BIRTIR STUTTA FRÉTT
Sæll Ögmundur.
Blaðið birtir litla frétt í dag. Litla í skilningi pláss og fyrirferðar en að efni til svo stóra að hún varðar okkur öll alveg burtséð frá því hvort við erum launamenn, launalausar, verktakar, fyrirtæki eða lögaðilar. Fréttin stutta snertir okkur til langs tíma og skemmri. Þegar ég hugsa mig betur um snýst hún um grundvallaratriði, siðferði og stjórnmál og því varðar hún kannske miklu fleiri en okkur sem búum á Íslandi. Fréttin var um viðskiptaráð, eða réttara sagt Viðskiptaráð. Viðskiptaráð Íslands gat nefnilega ekki setið á sér heldur hreykti sér af áhrifum sínum á lagasetninguna í landinu. Hjá Viðskiptaráði segja þeir sjálfir að Alþingi hafi í níu tilvikum af hverjum tíu farið eftir kröfum ráðsins. Þeir segjast ekki hafa Alþingi í vasanum og þeir halda því ekki fram að þeir hafi komið í veg fyrir að Framsóknarflokkurinn fengi fjármálaráðuneytið og þeir sjá ekkert athugavert við að einmitt hagsmunasamtök auðvaldsins skuli hafa slík hreðjatök á löggjafarsamkundunni. Vissir þú þetta Ögmundur? Þú veist kannski líka hvar Viðskiptaráð Íslands var í framboði, hvar það er á kjörskrá, hve mörg atkvæði Viðskiptaráðið hefur, eða hve margir þingmenn eru á þess vegum og hverjir það eru í efnahags-og viðskiptanefnd Alþingis sem ganga erinda Viðskiptaráðs Íslands? Hverjir það eru í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sem sinna sérhagsmunum Viðskiptaráðs af svo miklu kappi. Svo eruð þið vinstri sinnarnir að þvæla um það fram og aftur, eyðandi í það ómældum tíma og fyrirhöfn að diskútera reglur um fjármögnun stjórnmálaflokka. Þið gangið ekki á öllum, eins og sagt er. Pétur og Páll, sem formlega hafa atkvæðisrétt, vita það báðir að það hlýtur að vera viðskiptaráð sem kvittar með einum eða öðrum hætti fyrir þjónustuna sem ráðið fær í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Hvorki Pétri né Páli dettur í hug að Viðskiptaráð sé svona miklum ráðabetra en aðrir sem leitað er til. Nú bíðum við vinkonurnar bara eftir því að þessi stutta frétt sem Blaðið birti verði siðapostulum, leiðarahöfundum og viðskiptablaðamönnum tilefni til að fara á stúfana og kryfja málið en fyrsta og síðast að spyrja einfaldra spurninga um þessa þætti. Kannske morgunvakt Ríkisútvarpsins skelli sér í málið svo sem eins og í viku tíma – af nógu virðist að taka. Þeir eru alltaf að tala um að RÚV hafi skyldum að gegna við almenning. Vinkona mín sem eitt sinn var ritari manns sem fyrir löngu stjórnaði stórfyrirtæki sem hafði mikil áhrif á forvera Viðskiptaráðs Íslands sagði mér að grunnurinn að þessu, sem kalla mætti í glensi “einkvinavæðingu Alþingis”, hefði verið lagður árið 1991 þegar sjálfstæðismaður tók við fjármálaráðuneytinu og alþýðuflokksmaður við viðskiptaráðuneytinu. Heldur þú Ögmundur að sú söguskýring geti verið rétt? Að lokum þetta: Veistu hvort Viðskiptaráðið ætlar að birta samantekt sína um mat á áhrifunum sem þeir hafa á fjölmiðla og opinbera umræðu? Ef þú skoðar þessi mál sem formaður stéttarsambands ferðu þá ekki hjá þér?
Kveðjur
Ólína
Þakka bréfið Ólína. Ég tók eftir þessari frétt frá Viðskiptaráði. Hún var með ólíkindum. Sammála þér, sjáum hvað fjölmiðlarnir gera. Þetta er vissulega óþægileg áminning um valdahlutföll í íslensku þjóðfélagi. Ég hef ekki sagt mitt síðasta orð um þetta.
Kv.
Ögmundur