BLEKKINGAR GYLFA
Gylfi Magnússon skrifar enn eina greinina í Morgunblaðið um helgina um að Íslendingum muni vel takast að borga Icesave skuldirnar. Gylfi segir að þeir sem haldi að við getum ekki borgað telji að það sé af því að hér verði ekki til nægur gjaldeyrir. Ég veit ekki hverja Gylfi umgengst sem hafa mestar áhyggjur af því að geta ekki lengur keypt franska snigla úti í búð eða valið um 10 tegundir af tómatsósu.
Allir sem ég þekki hafa mestar áhyggjur af afkomu ríkissjóðs. Mun okkur takast að koma heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu heilu til næstu kynslóða? Eins og áður skautar Gylfi mjög létt yfir þetta. Hann segir að þessar Icesave skuldir séu nú ekki aðalvandi ríkissjóðs og lætur þar með að því liggja að fyrst aðrar skuldir séu jafnvel meiri, sé Icesave skuldin léttvæg. Maður hefur heyrt það sama frá öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sérstaklega fjármálaráðherra. Þessar röksemdir eru sorglega líkar málflutningi fólks sem er skuldsett upp fyrir haus og slær lán fyrir sólarlandaferð af því að það hækkar skuldina ekki nema um 1%. Allir sem hafa skuldað mikið, og ætla að borga sínar skuldir, vita að þegar komið er að mörkum greiðslugetunnar þá skiptir hver hundraðkall máli. Þess vegna eigum við rétt á að lögð sé fram nákvæm greiðsluáætlun úr ríkissjóði á næstu 15 árum. Hver er heildar skuldastaðan og hverjar verða afborganir og vextir?
Það þarf að endurmeta Icesave eignirnar í ljósi nýrra upplýsinga. Það er ljóst að það þurfa aðrir en skilanefndin að meta eignirnar. Hlutverk skilanefndarinnar er að hámarka verðmæti eignanna og getur hún eðli málsins samkvæmt aldrei gefið út annað mat en það hæsta sem hún vonast til að fá, en það getur verið víðs fjarri raunveruleikanum. Helst ætti að opinbera eignasafnið, því betur sjá augu en auga. Það kom berlega í ljós þegar þið neyddust til að birta Icesave samninginn, að þá fóru ýmsir sérfræðingar sem og alþýðuspekingar að velta honum fyrir sér og smám saman birtist myndin af þessum meingallaða samningi, sem Íslendingar mega aldrei samþykkja óbreyttan.
Þessi blekkingaleikur Gylfa þjónar vafalaust tilgangi sem hann telur sannleikanum æðri. En Ögmundur það má aldrei blekkja. Tilgangurinn helgar aldrei meðalið. Gylfi gagnrýndi stjórnvöld harðlega bæði í ræðu og riti í aðdraganda hrunsins fyrir að tala upp gengi bankanna og láta sem allt væri í stakasta lagi, þótt þau vissu betur. Samt vissi hann að um leið og fólk héldi að bankarnir væru að falla þá myndu þeir falla eins og hann sagði sjálfur efnislega í fyrirlestri sem birtur er á heimasíðu Háskólans. En blekkingaleikurinn á ekki fremur rétt á sér nú en hann átti þá. Við þurfum að komast út úr þessum þrengingum með sameiginlegu meðvituðu átaki og fyrsta skilyrðið er að við verðum upplýst um stöðuna af raunsæi og heiðarleika.
Lína