Fara í efni

BOÐBERI BUSH Í FALLUJAH: "FRAMTÍÐIN UNDIR YKKUR KOMIN "

Robert Zoellick er næstæðsti ráðamaður í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Í breska stórblaðinu Financial Times í gær segir frá för Zoellicks til Fallujah í Írak, þeirrar borgar í Írak sem einna verst hefur orðið fyrir barðinu á bandaríska innrásarliðinu í landinu en sem kunnugt er var borgin nánast lögð í rúst til að kveða þar niður andstöðu gegn nýlenduhernum. Í fréttinni í FT segir að Zoellick hafi viljað kynna sér hvernig uppbyggingarstarfi í borginni miðaði en einnig væri því ekki að neita að heimsóknin hefði átt að vera táknræn. Ekki var það skýrt nánar í greininni.

Michigan Street

Ef heimsóknin átti að vera táknræn um sjálfsöryggi ráðamanna og uppbyggingu varð reyndin önnur. Aðstoðarutanríkisráðherrann steig ekki fæti á jörð í Falluja, sagði blaðamaður, heldur fór beint úr herþyrlu í brynvagn sem æddi um götur borgarinnar, Main Street og Michigan Street og fleiri götur sem Bandaríkjamenn hafa endurskýrt. Alls staðar blöstu við húsarústir. Hermaðurinn sem hafði orð fyrir þeim sem fylgdu aðkomumönnum, utanríkisráðherranum og hans liði ásamt fréttamönnum, sagði að íbúarnir hefðu áður lifað í stöðugum ótta við hryðjuverkamenn. Mörg hús hafi vissulega verið eyðilögð, en "íbúarnir skildu að þetta þurfti að gerast."

Ákall gegn stríðsglæpum

Þegar hér var komið sögu í lestri greinarinnar, rifjaðist upp fyrir mér bænarskjal sem borgaryfirvöld í Fallujah skrifuðu Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna rétt fyrir árásina á borgina og báðu hann að að reyna að stöðva stríðsglæpi Bandaríkjamanna í Fallujah. Hvorki var aðalritari Sameinuðu þjóðanna né ráðamenn heimsins yfirleitt reiðubúnir að hlusta á þá bæn (sjá m.a.nánar HÉR: https://www.ogmundur.is/is/greinar/motmaelum-stridsglaepunum-i-irak ).
Blaðamaður FT segir að fulltrúar Bandaríkjahers hafi veitt þær upplýsingar, sem sér hafi virst trúverðugar, að 25% húsa hafi verið jöfnuð við jörðu, 25% stórskemmd og 50% talsvert mikið skemmd: engin hús hafi sloppið!

Vatnshreinsistöðin og bakaríið

Reyndar var það ekki alls kostar rétt hjá blaðamanni að Zoellick hafi ekki stigið fæti á jörðu í Fallujah því hann átti fund með bráðabirgðaborgarstjórninni. Fundurinn fór fram í húsi þar sem sandpokum hafði verið hlaðið uppi í alla glugga. Þar ræddi Zoellick um aðstoð Bandaríkjastjórnar við borgarbúa. Vék hann sérstaklega að vatnshreinsistöð og bakaríi. Írakarnir kváðu við. Vatnshreinsistöðin sem vísað var til var ekki ný af nálinni og hafði verið lengi í Fallujah en Bandaríkjamenn höfðu hins vegar sent  nýjar leiðslur í stöðina sem höfðu reynst of mjóar og ófullnægjandi. Litlar sögur fóru af bakaríinu í frásögn Financial Times.
Hverjar eru ykkar óskir, spurðu aðkomumenn bráðabirgðaborgarstjórn Fallujah. Það þarf að bæta tjón borgarbúa og auðvelda 90 þúsund manns ( þ.e. þriðjungi af borgarbúum fyrir árásina) endurkomu til borgarinnar. Síðan þyrfti að draga stórlega úr eftirliti Bandaríkjahers.

Sýnið okkur velvild herra

Forseti borgarstjórnar, Khaled að nafni, sagði Zoellick að ekkert væri að óttast í borginni, og bað hann aðstoðarutanríkisráðherrann að líta með velvild til íbúanna og óska þeirra. Hér var greinilega verið að ávarpa þann sem fór með völdin og var jafnframt ábyrgur fyrir því hvernig komið var. Við munum veita ykkur aðstoð, sagði Zoellick, boðberi Bush Bandaríkjaforseta, nú nokkuð aðþrengdur, en munið að framtíðin er undir ykkur sjálfum komin.

Að firra sig ábyrgð

Þessi skilaboð þekkja menn í þeim löndum sem Bandaríkjamenn hafa herjað á á undanförnum árum og áratugum, í Suð-austur-Asíu, Mið-Ameríku og nú í Asíu. Fyrst er drepið, pyntað og eyðilagt en undir er kyrjað viðlagið um að allt verði bætt að stríðinu loknu. Það er síðan svikið enda eins gott að íbúarnir skilji hin skýru skilaboð: Framtíðin er undir ykkur sjálfum komin.
Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég skrifa heilshugar undir þessa hugsun. En öðru gegnir þó þegar hvatningin kemur úr munni nýlenduherra sem vill firra sig ábyrgð á eigin verkum.