BÓKHALDSLEIKFIMI
Sæll Ögmundur,
Ég hef fylgst af áhuga með skiptum skoðunum ykkar flokksformannsins á fjármögnun nýs fangelsis. Eftir því sem ég fæ best séð snýst ágreiningurinn ekki um hvort ríki eða einkaaðilar skuli reka fangelsi, heldur aðeins hvort ríkið greiðir fyrir það með eigin lántökum eða gerir langan leigusamning við byggingaraðila, væntanlega með ríkisábyrgð. Eini munurinn á þessu er að með einkaframkvæmd kemur fjárfestingin ekki fram í bókum ríkisins sem slík, þess í stað er kostnaðurinn falinn í bókhaldinu. Aðferðin er alþekkt og hefur stundum leitt fjárhagslegar hörmungar yfir þá sem henni beita eða þá sem fjárfesta í fyrirtækjum sem fela skuldbindingar sínar með þessum hætti. Nýjasta dæmið er fasteignaleikfimin sem stunduð var í Reykjanesbæ skömmu fyrir hrunið og hefur nú komið bæjarbúum í koll. Ef ríkið hefur ekki efni á að byggja fangelsi nú verður að sleppa því og leita annarra og ódýrari lausna til bráðabirgða. Bókhaldsleikfimi er engin lausn, það hélt ég að við hefðum öll lært fyrir þremur árum.
Þorsteinn Siglaugsson