BÓNUS EIGNAST ORKUVEITU
Sæll Ögmundur.
Mér er minnisstætt samtal sem ég átti við föður minn og systur árið 1971 skömmu fyrir kosningar. Faðir okkar sjálfstæðismaðurinn reyndi fyrir sitt leyti að fá okkur til að kjósa sinn flokk. Eitthvað drógum við seiminn systurnar og gáfum lítið upp enda vorum við þá uppteknar af stríði í fjarlægu landi og uppreisnargjarnar eftir því. Þar kom að faðir okkar sagði: Kommarnir hefðu aldrei getað skaffað verkafólki í Reykjavík vinnu í fiskvinnslu eins og Bæjarútgerðin gerði. Þannig vildi hann höfða til félagshyggjunnar í okkur. Þegar þetta hreif ekki spilaði hann út sínu sterkasta trompi: Það hefði enginn flokkur á Íslandi og ekkert fyrirtæki staðið vörð um, byggt upp og rekið með jafn glæsilegum hætti Orkuveitu Reykjavíkur með sama hætti og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert. Faðir minn var þeirrar skoðunar að í rekstri Orkuveitunnar væri ballestin í Sjálfstæðisflokknum fólgin. Í því fyrirtæki yrði áþreifanlegust sú samfélagslega ábyrgð sem forystumenn flokksins hefðu sýnt áratugum saman. Þetta keypti ég. Í dag stríddi ég föður mínum á því að nú hefðu hans eigin menn afhent Jóni Ásgeiri í Bónus og FL Group Orkuveitu Reykjavíkur. Föður mínum var ekki skemmt og ég sá eftir að hafa ekki setið á mér. Mér hefur hins vegar verið hugsað til þess sem hann sagði þegar við kvöddumst í kvöld: Ætli Bónus kaupi ekki Moggann næst og trommi þar upp með Jónas Kristjánsson sem ritstjóra eftir fjölmiðlavinnuna hjá verslunarmönnum í Háskólanum í Reykjavík?
Kveðjur,
Ólína