Fara í efni

BRAGÐ ER AÐ ÞÁ BARNIÐ FINNUR

Sonur minn á níunda árinu var að tala við gullfiskinn sinn í morgun. Blíðlega sagði hann fiskinum sínum ýmsar fréttir úr viðskiptalífinu. “Veistu að Baugur Group á Og Vodafone, eða að minnsta kosti stærsta hlutann. Vissir þú það? Og Baugur var að kaupa hlut í Íslandsbanka núna. Það væri nú sniðugt ef þeir keyptu Landsbankann líka.”

Og talið barst að annarri grúbbu. “Veist þú nokkuð hver á BT, Sena og Office one? Það er Dagur Group en ekki Baugur en ég held hins vegar að Baugur Group eigi Dag. Er það ekki pabbi?” Ég sagðist ekki vita það en spurði strákinn á móti hvort hann hefði ekki sagt fiskinum frá ástandinu í Framsóknarflokknum. Og ekki stóð á svari hjá stráknum: “Ég þarf þess ekki. Hann veit allt um spillinguna þar. Hann horfði á Valgerði ráðherra í Kastljósinu í gærkvöldi.”

Já, bragð er að þá barnið finnur – að ég tali nú ekki um ef þetta með gullfiskinn reynist rétt. Og er það svo sem algerlega út í hött að meira að segja gullfiskurinn hafi séð í gegnum Valgerði Sverrisdóttur bankamálaráðherra þegar hún ræddi um Búnaðarbanka-söluna í Kastljósinu í gærkvöldi? Það var nefnilega meira en dapurlegt að horfa og hlusta á hana ræða um hæfi forsætisráðherra í sambandi við það söluferli allt. Framkoma hennar og útúrsnúningar mörkuðust af því að málstaður framsóknarforystunnar er svo slæmur að engum dylst lengur sá spillingarslóði sem flokkurinn dregur nú á eftir sér. Að mínum dómi getur það ekki lengur verið spurning hvort tekið verður á þessari spillingu – spurningin er aðeins hvenær það mun gerast.
Þorleifur