Fara í efni

BREIÐFIRÐINGAKÓRINN SÖNG INN JÓLIN

Í gær, laugardaginn 7. desember, hélt Breiðfirðingakórinn sína árlegu jólatónleika, að þessu sinni í Seljakirkju.

Við sem sóttum þessa tónleika vorum í engu svikin þvi þarna áttum við stund sem var bæði skemmtileg og hátíðleg.

Söngskráin var vel valin, innlend jólalög og sálmar í bland við erlend lög og sálma sem blunda í vitund okkar og tengjast jólahátíðinni.

Þegar Friður, friður Frelsarans ómaði við lag Mendelsohns og ljóð Ingólfs Jónssonar frá Prestbakka hugsaði ég - og án efa var ég ekki einn um það – hve mjög heimurinn þyrfti á slíkum boðskap að halda.

Margt var sagt í þessum anda á jólatónleikunum í Seljakirkju sem var nærandi fyrir hugann og er ég sannfærður um að ég mæli fyrir munn margra þegar ég þakka kórnum fyrir þessa fallegu stund.

Í hléi var boðið upp á kaffi og smákökur. Þarna var þessi Aventuhátíð fullkomnuð, fallegur söngur við vel valin lög og texta og síðan kaffi og piparkökur.

------------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.