Fara í efni

BREYTA VERÐUR VERÐTRYGGINGU Á HÚSNÆÐISLÁNUM

Til langframa getur það aldrei gengið, að verðtrygging á íbúðarlánum taki ekki mið af verðmætabreytingum á því húsnæði sem lánið er bundið við. Ég veit að þetta getur verið nokkuð snúið í úrvinnslu en ekki óyfirstiganlegt. Þetta verður einfaldlega að vera það, ef það á að verðtryggja húsnæðislán. Annars eru húsnæðislánin alltaf í bullandi eignaráni frá þeim sem eru með húsnæðislán. Eignaupptaka heitir það í málfari hagfræðinga. Jafnræði verður að ríkja milli bankans og þess sem tekur lánið. Við erum með í gangi vísitölu sem við köllum fasteignamat, með því að það mat yrði gert nákvæmara t.d. eftir svæðum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á verðmæti íbúðareignar. Það er sú vísitala sem best getur mælt raunvirði húseigna á hverjum stað og á hverjum tíma, er það því eina vísitalan sem væri eðlilegt að mældi og segði til um verðtryggingu á húsnæðislánum. Ef notuð er vísitala eins og núna, eru það ýmsir aðrir þættir alls ótengdir verðmæti íbúðanna sem eru látnir ákvarða um verðtryggingu á húsnæðislánum. Jafnvel þegar það verður verð-hækkun á bensíni út í heimi, er það látið hafa áhrif á verðtryggingu á húsnæðislánum. Þetta var með öðrum hætti þegar laun launafólks voru bundin verðlagsvísitölu, þá var það ekkert mjög óeðlilegt að sama vísitalan væri notuð við húsnæðislánin og launin. Nú þegar að verðlagstryggingar launum voru bannaðar með lögum í maí 1983 er slík tenging algjörlega út í hött. Þá verður einnig að gæta þess að verðmæti húsnæðislánanna fylgi verðmæti íbúðar bæði upp ef verðmæti eykst og niður þegar verðmæti sígur.
Kristbjörn Árnason