Fara í efni

BROS STURLU

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra brosti blítt í sjónvarpsfréttum í gær þegar hann talaði til fulgumferðarstjóra. En boðskapurinn var ekki eins mildur og brosið gaf til kynna. Ég heyrði ekki betur en ráðherrann hefði í hótunum við starfsmenn. Í reynd sagði hann: Ef þið ekki gangið til samninga við okkur þá eruð þið án atvinnu eftir hálfan annan mánuð! Orðrétt var það svona: "Það eru ekki önnur fyrirtæki sem veita þessi atvinnutækifæri en Flugstoðir frá og með 1. janúar næstkomandi, þannig að flugumferðarstjórar eiga mikið undir því að fá vinnu hjá þessu fyrirtæki. Þannig að ég á ekki von á neinu öðru en að samkomulag náist."

Samhengi hlutanna er að í vor samþykkti stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að hlutafélagavæða flugvelli landsins og sjálfa flugumferðarstjórnina. Þetta var eins og fyrri daginn einkavæðing á einokunarstarfsemi og eins galin ráðstöfun og hugsast gat.
Allt var ófrágengið við starfsmenn áður en þessi ákvörðun var tekin, þar á meðal voru ýmsir endar óhnýttir varðandi lífeyrismálin. En það gat varla orðið vandamál að mati ríkisstjórnar og ráðherra. Ef þið ekki hagið ykkur eins og okkur líkar þá getið þið étið það sem úti frýs. Við höfum öll ráð í hendi okkar. Ekki verður beinlínis sagt að þetta sé tónn sátta. En svona geta menn talað í einokunarbransanum. En núverandi ástand byggir einnig á einokun kann einhver að segja. Mikið rétt, en því er til að svara að ríkiseinokun er háð tilteknu laga- og reglugerðarverki, þar sem á meðal er kveðið á um réttindi starfsmanna. Með hlutafélagsvæðingunni er þetta öryggisnet numið brott. Í því er galdurinn fólginn - fyrir hinn óprúttna atvinnurekanda. Þess vegna getur ráðherra brosað um leið og hann hefur í hótunum við starfsmenn.
Viðtal við Sturlu HÉR.