BROT Á STJÓRNARSKRÁ ÍSLANDS - FISCHER ÞÁ, SNOWDEN NÚ
04.07.2013
Í morgun tók ég upp mál Edwards Snowden á Alþingi og beindi fyrirspurn til Unnar Brár Konráðsdóttur, formanns Allsherjarnefndar. Ég vísaði í 71. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a.: "Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum..."
Alþingi á að sýna frumkvæði
Engin slík lagaákvæði heimila Bandaríkjamönnum persónunjósnir á Íslandi eins og þeir hafa orðið uppvísir að og þar með hafa bandarísk yfirvöld brotið gegn Stjórnarskrá Íslands. Ég benti á að sá aðili sem hefði upplýst okkur og heimsbyggðina alla um persónunjósnir Bandaríkjamana, Edward Snowden, væri nú hundeltur um heim allan og ætti hvergi höfði að halla. Þetta væri maður sem við öll stæðum í þakkarskuld við.
Ég ítrekaði fyrri óskir mínar um að Allsherjarnefnd fyrir hönd Alþingis hefði frumkvæði að því að veita Edward Snowden landvist á Íslandi.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar vísaði til þess að hælisumsókn yrði að vera borin fram af einstaklingi sem væri staddur hér á landi auk þess sem upplýsingar skorti í málinu.
Ég benti á hinn bóginn á að heimspressan væri uppfull af upplýsingum og við hefðum beinar upplýsingar frá íslenskum þegnum um njósnir um þá og að ekki ætti að taka á málinu sem hefðbundinni hælisumsókn heldur sem mannréttindamáli sem Alþingi ætti að hafa frumkvæði að.
Bobby Fischer
Margir hafa orðið til að rifja upp mál Bobby Fischer á sínum tíma en þar tóku ýmsir réttsýnir menn sig til og hættu ekki fyrr en skákmaðurinn góðkunni - sem þá átti hvergi höfði að halla - var kominn heilu og höldnu til Íslands þar sem hann fékk landvist. Það er full ástæða til að bera saman hugdjörf viðbrögð íslenskra stjórnvalda í máli Bobby Fischers á sínum tíma við óstyrk hræðsluviðbrögð sem við verðum nú vitni að á Alþingi.
Sjá nánar um mál Fischers:
http://www.chessbase.com/Home/TabId/211/PostId/4002156/bobby-fischer-applies-for-icelandic-citizenship.aspx
Alþingi í dag:
http://www.althingi.is/altext/upptokur/?raeda=rad20130704T103240&horfa=1