Fara í efni

BROTAMENN KENNA KERFINU UM

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, kom fram í sjónvarpsfréttum og reyndi að sefa menn vegna reiði yfir hegðan meirihluta útvarpsráðs við ráðningu fréttastjóra útvarps. Það er að koma frumvarp sem boðar breytta stjórnsýslu í RÚV, segir ráðherrann. Og undir þetta sjónarmið taka margir, og segja að pólitískt kjörnir útvarpsráðsmenn eigi að heyra sögunni til. Þetta segja jafnvel þeir pólitískt kjörnu fulltrúar, sem misnotað hafa vald sitt, brotamennirnir sjálfir. Af þessu tilefni hvet ég menn til að hugleiða hvort ástæðan fyrir því að hin pólitíska valdbeiting er sýnileg sé ekki einmitt sú að póltíkin er ekki dulin. Það er mikill misskilningur að halda að þröngt forstjóravald, sem gagnrýnendur vilja nú fela ráðningarvaldið, sé ópólitískt. Lausnin er ekki sú að útrýma pólitískt kjörnum fulltrúum úr stjórnum stofanana og fyrirtækja - yfirleitt þýðir það að stjórnendahjörðin verður einsleitari - heldur þarf að innræta öllu fólki sem falið er vald til að taka ákvarðanir sem varða almannahag að rísa yfir þrönga flokkshagsmuni og hafa sanngirni og fagleg sjónarmið í fyrirrúmi. Ég gæti nefnt fjölda fulltrúa sem starfað hafa í útvarpsráði á nákvæmlega þessum forsendum. Ég leyfi mér að fullyrða að bæði Kristín Halldórsdóttir og Svanhildur Kaaber,  sem báðar voru í útvarpsráði, tilnefndar annars vegar af þingflokki Alþýðubandalags og óháðra og hins vegar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, svo ég nefni tvo einstaklinga sem ég þekki vel til, störfuðu með slík markmið að leiðarljósi og ég veit að það á við um marga aðra fulltrúa fyrr og síðar. Það er fráleitt að útmála pólitík sem eitthvað óhreint.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að gera eigi ýmsar breytingar á stjórnsýslu RÚV, þar með skipan í útvarpsráðs og breyta hlutverki þess. En því fer fjarri að ég vilji með öllu skera á hin pólitísku tengsl við stofnunina. Hin nánu tengsl Ríkisútvarpsins við Alþingi eru einmitt þess valdandi að spilling og misbeiting valds er í fyrsta lagi öllum ljós og í öðru lagi veldur fyrirkomulagið því að enginn velkist í vafa um að öllum koma málefni stofnunarinnar við. Þegar eitthvað bjátar á er málið umsvifalaust tekið til umræðu á opinberum vettvangi. Viljum við breyta þessu? Viljum við Stöðvar 2 fyrirkomulagið þar sem tiltölulega nýráðinn fréttastjóri, Sigríður Árnadóttir, var rekinn skýringarlaust enda þótt hún væri sögð hafa staðið sig afbragðs vel í starfi. Grunur leikur á að mat eigenda væri að hún yrði þeim ekki leiðitöm. Þess vegna burt með hana. Vilja menn slíkt fyrirkomulag?

Vandi Ríkisútvarpsins er fyrst og síðast fjársvelti. Í öðru lagi, eins og nú hefur komið á daginn, er það misbeiting valds. Þeir sem misbeita valdinu verða að líta í eigin barm. Það er nefnilega nokkuð til í orðtakinu, árinni kennir illur ræðari.