Fara í efni

BRYNJAR VILL MEIRA FRELSI FYRIR SPILAVÍTI OG ÁFENGISSÖLU!

Brynjar 2
Brynjar 2
Austurríski hagfræðingurinn Friedrich Hayek, frjálshyggjupostulinn sem öðrum fremur hvatti til endurreisnar frjálshyggjunnar upp úr seinna stríði og kom meðal annars hingað til lands að frumkvæði Hannesar Hólmsteins í byrjun níunda áratugar síðustu aldar, vildi takamarka ríkisvaldið, nema að einu leyti: Ríkið átti með lagaumgjörð að skapa fjármagninu frelsi. Með öðrum orðum, við þyrftum ríkisvald til að lögbinda umferðarreglur í samfélaginu, setja boð og bönn til að greiða fyrir markaðsviðskiptum. Þetta var kjarninn í þeirri nýju frjálshyggju sem nú leit dagsins ljós.

Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, nægir ekki þessi nálgun nýfrjálshyggjunnar. Hann vill sérstaklega beina sjónum að frelsi til að reka fjárhættuspil og hagnast á áfengissölu, sbr.: http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/08/18/thydingarlaust-og-skadlegt-ad-banna-afengisauglysingar-og-fjarhaettuspil/

Fram til þessa hefur sá skilningur verið ríkjandi að setja eigi samfélaginu regluverk sem heldur hjálpi okkur en skaði. Bann er þannig lagt við reykingum á vinnustöðum og nú orðið einnig á skemmtistöðum, í leikhúsum og kvikmyndahúsum og veitingastöðum, því vitað er að reykingar eru skaðlegar, valda tjóni fyrir þann sem reykir og þá einnig samfélagið sem þarf að glíma við afleiðingarnar með ærnum tilkostnaði.

Sama sjónarmið hefur verið uppi gagnvart fjárhættuspilum sem lagt hafa líf einstaklinga og fjölskyldna í rúst. Löggjöfin hefur verið heldur takmarkandi en vegna sterkrar stöðu og ítaka eigenda spilavítisvéla í stjórnmálum hefur ekki tekist að koma á hamlandi umgjörð um þessa skaðlegu starfsemi. Það þekki ég því ég reyndi þetta í minni tíð sem innanríkisráðherra. Og nú segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins semsé að þau fátæklegu lög sem þó eru fyrir hendi séu „skaðleg"! Fyrir hvern? Væntanlega þann sem hagnast á starfseminni.

Og til hvers skyldu áfengissalar vera æstir í að losa um takmarkanir á auglýsingum á áfengi? Vegna þess að þeir vita að með auglýsingum má örva áfengisneyslu og þar með selja meira áfengi! Þess vegna fagna þeir frelsistali Brynjars og félaga. Þeir vita sem er að markmið peningafrjálshyggjunnar er að tryggja meira frelsi þeim til handa!

Boð og bönn eiga að vera sett af hófsemi og aðeins til að tryggja samfélagslega velferð og í þágu einstaklingsins: Tryggja vellíðan hans og frelsi! Það á ekkert skylt við peningafrelsi þeirra Hayeks, Hólmsteins og nú Brynjars Níelssonar.