Fara í efni

BSRB: MISSKIPTINGIN ÓGNAR SAMHELDNI OG STÖÐUGLEIKA


Í Morgunblaðinu í dag birtist þriðja tvennugreinin eftir forsvarsfólk BSRB. Að þessu sinni birtist grein eftir mig og Þuríði Einardóttur, formann Póstamannafélags Íslands, sem jafnframt er ritari BSRB og á sæti í stjórn samtakanna. Fyrri greinarnar voru eftir varaformenn BSRB, þau Árna Stefán Jónsson og Elínu Björgu Jónsdóttur og síðan eftir þau Garðar Hilmarsson, formann Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Kristínu Á. Guðmundsdóttur, formann Sjúkraliðafélags Íslands.
Rauður þráður í þessum greinum er krafan um bætt kjör starfsfólks  innan almannaþjónustunnar og hve mikilvægt það sé að samfélagið vakni til vitundar um nauðsyn þess að verða við þessari kröfu. Í grein okkar Þuríðar staðhæfum við að misskiptingin í íslensku þjóðfélagi sé orðin slík að samheldni þjóðarinnar og stöðugleika í samfélaginu sé ógnað.
Gegn þessu þurfi að ráðast í komandi kjarasamningum: „Sá söngur mun eflaust hefjast að ekki megi spenna bogann of hátt, stöðugleikanum megi ekki ógna. Nú er það hins vegar svo að undir verðbólgubálinu hafa engir láglauna- og millitekjuhópar kynt. Þar hafa aðrir kyndarar verið að verki. Krafan frá hendi BSRB hefur reyndar um langt skeið verið sú að reynt verði að koma böndum á verðbólgu og þenslu. En samtökin segja jafnframt að verkefnið sé að breyta tekjuhlutföllum í þjóðfélaginu. Nú sé komið að þeim sem mikil hafa efnin að sýna hófsemd á meðan kjör þeirra sem minna hafi séu bætt...." 

Hér er svo greinin í heild sinni:

ÞÖRF Á RÉTTLÁTARI VINNUMARKAÐI

STYRKUR Íslendinga um áratugi hefur verið samheldið og traust samfélag. Úr þeim jarðvegi hefur vaxið og dafnað fjölskrúðugt mannlíf, blómleg menning og kröftugt atvinnulíf. Litið hefur verið á stöðugleika sem markmið að keppa að enda mikilvægt fyrir fjölskyldur jafnt sem fyrirtæki að búa við jafnvægi og hafa fast land undir fótum. Þessum stöðugleika er nú ógnað með vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu. Misskiptingin gengur í berhögg við réttlætiskennd fólks og heggur þannig á þau bönd sem hnýtt hafa samfélagið saman.

Allar götur frá því allsherjaruppstokkun hófst á íslensku samfélagi á öndverðri tuttugustu öld hefur þjóðin verið í sæmilegu kallfæri innbyrðis. Vissulega hefur kjaramisrétti verið æði mikið og lífskjör hópa og stétta misjöfn. Við höfum hins vegar sem þjóð verið á sama bátnum, fundist við eiga samleið enda blessunarlega laus við menningarlega stéttaskiptingu.

Misskiptingin ógnar félagslegri einingu

Þessari félagslegu einingu er nú ógnað. Þegar vakið er máls á því að stórhækka þurfi laun þeirra hópa sem eru með lægstu launin eða lægri meðaltekjur og draga þannig úr kjaramisréttinu í þjóðfélaginu hváir ofurlaunafólkið, jafnvel þeir sem ekki hafa neinar ofurtekjur heldur eru í efri kantinum í kjarastiganum, og spyr hvort allir hafi það bara ekki mjög gott á Íslandi. Þetta fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að hér á landi búa mjög margir við launakjör sem engan veginn er hægt að lifa af mannsæmandi lífi. Þessir hópar búa auk þess við þau sígildu sannindi að það er dýrt að vera fátækur. Geti fjölskylda ekki sökum ónógra efna fest kaup á íbúðarhúsnæði á hún ekki annarra kosta völ en leita út á rándýran leigumarkað. Og ráði hún ekki við lánin sín er henni gert að greiða hæstu vextina! Heilsufarið er efnalitlu fólki einnig kostnaðarsamara. Þannig sýna rannsóknir að heilsufar þeirra sem hafa lítil fjárráð er verra en hinna sem eru vel efnum búnir og hafa þar af leiðandi betri tök á að sinna sjálfum sér til líkama og sálar.

BSRB vill bæta kjör og starfsskilyrði

Í kjarasamningum sem gerðir verða á næstu mánuðum og misserum er nauðsynlegt að hafa í huga mikilvægi þess að draga stórlega úr kjaramisréttinu í samfélaginu. Misréttið verður að sjálfsögðu ekki upprætt í kjarasamningum einvörðungu. Í slíkum samningum er hins vegar hægt að leggja lóð sín á vogarskál aukins réttlætis á vinnumarkaði. Það má gera með því að bæta stórlega kjör láglauna- og millitekjuhópa.

Almannaþjónustan er á samningssviði BSRB. Á nýafstöðnum aðalfundi bandalagsins var ályktað um hana og lýst áhyggjum yfir því að starfsfólk sé þar víða allt of lágt launað og sé að dragast aftur úr ýmsum greinum atvinnulífsins í launakjörum. Bent var á að erfitt væri að manna störf ef ekki yrði gert verulegt átak til að bæta kjör og starfsskilyrði starfsfólksins. Póstþjónustan er dæmi um grunnþjónustu í samfélaginu þar sem verulegra kjarabóta er þörf.

Sá söngur mun eflaust hefjast að ekki megi spenna bogann of hátt, stöðugleikanum megi ekki ógna. Nú er það hins vegar svo að undir verðbólgubálinu hafa engir láglauna- og millitekjuhópar kynt. Þar hafa aðrir kyndarar verið að verki. Krafan frá hendi BSRB hefur reyndar um langt skeið verið sú að reynt verði að koma böndum á verðbólgu og þenslu. En samtökin segja jafnframt að verkefnið sé að breyta tekjuhlutföllum í þjóðfélaginu. Nú sé komið að þeim sem mikil hafa efnin að sýna hófsemd á meðan kjör þeirra sem minna hafi séu bætt.

Þá hefur BSRB hamrað á því hve mikilvægt það sé að styrkja stoðir velferðarþjóðfélagsins enda er öflugt velferðarkerfi mikilvægasta forsendan fyrir velferð einstaklingsins og fjölskyldunnar, stöðugleika í samfélaginu og félagslegu réttlæti. Um þessa þætti var nýafstaðinn aðalfundur BSRB vel meðvitaður. Í ályktun fundarins sagði meðal annars: „Öflug velferðarþjónusta er mikilvæg forsenda stöðugleika. Hún stuðlar að jöfnuði og réttlæti í þjóðfélaginu. Fjölskyldan í sinni margbreytilegu mynd er grunneining samfélagsins. Hana ber að styrkja og hlú að í hvívetna. Samfélagið þarf að tryggja fjölskyldunum trausta umgjörð með öflugri velferðarþjónustu."

Allt þetta þurfa stjórnvöld að hafa í huga hvort sem er við fjárlagasmíð eða í öðrum gjörðum sínum og á vinnumarkaði bíður það verkefni í komandi kjarasamningum að draga úr því óþolandi kjaramisrétti sem viðgengst á Íslandi.

Þuríður Einarsdóttir, formaður Póstmannafélags Íslands, Ögmundur Jónasson, formaður BSRB. Bæði eiga sæti í stjórn BSRB.